10 tonn af textílúrgangi á dag

Íslendingar losa sig við hátt í 10 tonn af fötum á dag. Gæði á fötum fara dvínandi. Aðeins um lítill hluti af fötunum kemst í endurnotkun innanlands.
Saman gegn sóun og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa blásið til herferðar til að vekja athygli á textílvandanum. Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til að:
- Kaupa minna
- Nýta betur þann textíl sem það á
Ókeypis sendingarkostnaður, rándýr langtímaáhrif
Frá árinu 2023 hafa sveitarfélög borið ábyrgð á því að safna fötum, skóm og öðrum textíl sem íbúar vilja losa sig við. Söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun á þessum úrgangi hefur reynst sveitarfélögunum mjög íþyngjandi og kostnaðarsöm. Þessum kostnaði væri betur varið í önnur verkefni innan sveitarfélaganna.
Föt í verri gæðum
Eftirspurn eftir notuðum fötum hefur dregist mikið saman á heimsvísu. Ástæðuna má rekja til uppgangs hraðtísku og aukinna fatakaupa. Á sama tíma og magnið hefur aukist hafa gæði fatanna versnað.
Í dag endar hluti notaða textílsins sem sendur er úr landi í brennslu til orkuendurnýtingar. Það er textíll sem hvorki er hæfur til endurnotkunar né endurvinnslu vegna gæða. Brennsla til orkuendurnýtingar er skárri leið fyrir notuð föt en urðun. Besta leiðin er auðvitað að minnka sóun og nýta fötin sín vel og lengi.
Mikilvægt að flokka
Enn er mikilvægt að fólk haldi áfram að flokka textíl rétt. Endurvinnsla, endurnotkun og endurnýting á textíl er mun skárri leið fyrir umhverfið en að láta urða hann.
Hvað er hægt að gera?
Það er margt sem við getum gert til að vera partur af lausninni. Það mikilvægasta er að draga úr neyslu þar sem innkaupin ráðast í dag að miklu leyti af löngun en ekki þörfum.
Einnig eru til ýmis ráð til að auka líftíma fatnaðar, sem samræmist hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.
- Kaupa minna af fötum
- Nota fötin lengur
- Kaupa notað
- Leigja eða fá lánaðar flíkur við sérstök tilefni
- Koma fötum í áframhaldandi notkun
- Skila fötum á rétta staði

Eftirspurn eftir notuðum fötum hefur dregist mikið saman á heimsvísu.











