Til baka
8 janúar 2025
Tillaga að breytingu á starfsleyfi Ís 47 ehf. í Önundarfirði
Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi fyrir Ís 47 ehf. í Önundarfirði sem hefur heimild fyrir eldi í sjókvíum með allt að 1.000 tonna hámarkslífmassa. Um er að ræða tegundabreytingu og færslu eldissvæðis.
Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem ákvarðaði þann 7. febrúar 2023 að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því ekki háð umhverfismati. Sú tilkynning fjallaði að auki um 900 tonna lífmassaaukningu en tillagan sem nú er auglýst snýr einungis að tegundabreytingu (úr regnbogasilungi og þorski í laxfiska) og tilfærslu eldissvæðis (frá Ingjaldssandi yfir á svæðið Hundsá). Framkvæmdin rúmast innan endurútgefins burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar frá 2022. Tillaga að breyttu starfsleyfi er í samræmi við strandssvæðisskipulag Vestfjarða og áhættumat siglinga sem lá fyrir í október sl.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldufyrirspurn rekstraraðila kemur fram að áhrif á sjávarbotn undir eldiskvíum geti orðið neikvæð vegna úrgangs frá eldinu og að styrkur uppleystra næringarefna sjávar geti aukist á stærra svæði út frá eldiskvíum. Í starfsleyfistillögunni eru sett skilyrði um vöktun á súrefnisstyrk við botn og styrk næringarefna í sjó. Einnig eru ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði og það þarfnist frekari hvíldar. Að auki er ákvæði um að reksturinn megi ekki valda því að vistfræðilegt og/eða efnafræðilegt ástand strandsjávarins hraki. Umhverfisstofnun veitti umsögn um matsskyldufyrirspurn og telur að þau skilyrði sem fjallað er um endurspeglist í vöktunaráætlun rekstaraðila ásamt ákvæðum í starfsleyfi. Drög að vöktunaráætlun eru auglýst með tillögunni.
Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun á ust@ust.is merkt UST202203-282. Athugasemdir verða birtar við útgáfu. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.
Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 27. janúar 2025.
Tengd skjöl: