Til baka

8 janúar 2025

Tillaga að starfsleyfi Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Kaldvík hf. í Seyðisfirði. Um er að ræða eldi á laxfiskum í sjókvíum með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa (þar af að hámarki 6.500 tonn af frjóum laxi).

Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum og var endanleg matsskýrsla framkvæmdaraðila lögð fram þann 8. desember 2021. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 31. desember 2021 en í álitinu kemur fram að áhrif eldis á 6.500 tonnum af frjóum laxi séu talin óveruleg á þá laxastofna sem áhættumatið tekur til. Framkvæmdin rúmast innan endurútgefins burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar frá 2022. Starfsleyfistillagan er í samræmi við strandssvæðisskipulag Austfjarða og áhættumat siglinga sem lá fyrir í október sl.

Skipulagsstofnun telur í áliti sínu um umhverfismatsskýrslu rekstraraðila að áhrif vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs á sjávarbotni verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði undir og nærri eldisstað en áhrifin minnki með aukinni fjarlægð frá eldisstað. Umhverfisstofnun bendir á í því samhengi að í tillögu að starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni eru ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði og það þarfnist frekari hvíldar. Umhverfisstofnun veitti umsagnir í matsferli framkvæmdarinnar og telur að þau skilyrði sem fjallað er um endurspeglist í vöktunaráætlun rekstaraðila ásamt ákvæðum í starfsleyfi.

Í starfsleyfistillögunni er ákvæði um að niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar en drög að vöktunaráætlun eru auglýst með tillögunni.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun á ust@ust.is merkt UST202001-204. Athugasemdir verða birtar við útgáfu nema annars sé óskað. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 20. janúar 2025.

Tengd skjöl: