Vinsamlegast athugaðu að vefurinn er í vinnslu. Ef þú sérð eitthvað sem mætti betur fara, þá máttu láta okkur vita.

Ný skýrsla: Þróun raforkukostnaðar og áhrif á notendur

Raforkueftirlitið

Raforkueftirlitið hefur unnið greinargerð um þróun raforkukostnaðar og áhrif á notendur að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Skýrslan var kynnt í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu mánudaginn 16. júní 2025.

Tilefnið er vaxandi umræða um þróun raforkuverðs. Markmiðið með skýrslunni er að auka gagnsæi um áhrif hækkandi raforkukostnaðar og greina helstu ástæður. Í skýrslunni er leitast við að varpa ljósi á:

  • Hvernig raforkukostnaður hefur þróast á árunum 2020 til upphafs árs 2025?
  • Hverjir eru helstu áhrifaþættir?
  • Hvernig kostnaðurinn skiptist á milli ólíkra notendahópa?

Sérstök áhersla er lögð á þá þætti sem hafa mótað þróun kostnaðar, svo sem breytingar á framboði og eftirspurn, þróun á viðskiptavettvöngum raforku og þróun kostnaðar í flutningi, dreifingu og smásölu raforku. Litið er til þess hvernig þessir þættir birtast í mismunandi kostnaðarliðum og saman mynda heildarkostnað almennra notenda (heimila og fyrirtækja) og stórnotenda.

Greiningin tekur jafnframt til áhrifa raforkukostnaðar á rekstrarstöðu og samkeppnishæfni ólíkra notendahópa, með hliðsjón af tekjum þeirra og breytileika í notkun.

Jafnframt eru settar fram ábendingar um tækifæri fyrir notendur, sérleyfisfyrirtæki og sölufyrirtæki raforku og tillögur um úrbætur.

Samtal við helstu hagsmunasamtök og hagaðila við vinnslu greinargerðarinnar og bárust um 80 athugasemdir sem tekið var tillit til.

Helstu niðurstöður

Greiningin leiðir í ljós að hækkanir á raforkukostnaði hafa átt sér stað á tímabilinu en áhrifin hafa mismikið vægi eftir notendahópum. 

Raforkukostnaður heimila hefur hækkað á tímabilinu um tæplega 11 % á föstu verðlagi sem er um 2,4 % árleg hækkun umfram verðbólguþróun.

Raforkukostnaður hjá fyrirtækjum, sem nota umtalsvert magn raforku (á bilinu 2–20 GWh á ári), hefur hækkað um 24% á föstu verðlagi og er það um 5% árleg hækkun. Raforkukostnaður alls án VSK er nú um 16 kr/kWh fyrir fyrirtæki sem fá ekki niðurgreiddan flutning og dreifingu.

Smásöluverð raforku hefur hækkað frá 2020 til 2025 um rúm 4% á föstu verðlagi1. Til samanburðar lækkaði smásöluverðið um 10% á föstu verðlagi frá árinu 2005 til 2020.

Flutningskostnaður almennra notenda hefur hækkað um rúmlega 20% frá árinu 2020 til 2025 á föstu verðlagi. Á föstu verðlagi hefur dreifikostnaður raforku í þéttbýli hækkað á milli 5–21% eftir dreifiveitum á tímabilinu 2020 til 2025. Hins vegar þegar horft er til dreifbýlis má sjá að dreifikostnaður hefur lækkað um 7% hjá Orkubúi Vestfjarða og hækkað um 3% hjá RARIK á föstu verðlagi á sama tímabili.

Almennir notendur í þéttbýli hafa orðið fyrir meiri hækkunum en almennir notendur í dreifbýli, þar sem jöfnunaraðgerðir hins opinbera vega á móti.

Áhrif hækkunar raforkukostnaðar fyrir dæmigerð heimili eru talin óveruleg þar sem hún nemur um 0,1% af meðal ráðstöfunartekjum heimila á tímabilinu.

Aðrir notendur

Raforkukostnaður stórnotenda, svosem álvera og gagnavera, hefur sömuleiðis hækkað umtalsvert á tímabilinu. Áhrifin eru ólík á milli greina, en í einhverjum tilfellum er aukinn kostnaður til þess fallinn að hafa áhrif á alþjóðlega samkeppnishæfni stórnotenda.

Raforkukostnaður garðyrkjubænda hefur hækkað miðað við tekjur, en greiðslur hins opinbera vegna ylræktar og markaðsverð framleiðsluvara hafa í mörgum tilfellum vegið á móti áhrifum hækkunarinnar. Raforkukostnaður dæmigerðs garðyrkjubónda hefur hækkað um 3 kr/kWh á föstu verðlagi, sem nemur um 4-7% af tekjum.

Samantekt á þróun raforkukostnaðar

Image

Almenn áhrif

Óbein jákvæð áhrif af hækkun raforkuverðs er aukin orkunýtni og bætt raforkuöryggi.

Neikvæð áhrif af hækkun raforkukostnaðar felast í skerti samkeppnishæfni fyrirtækja sem nota umtalsvert magn raforku. Það leiðir til hærra vöruverðs, dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og dregur úr eftirspurn eftir innlendri framleiðslu. Neikvæð áhrif af hækkun raforkukostnaðar fyrir stórnotendur í orkusæknum iðnaði sem keppa við heimsmarkaðsverð er skert alþjóðleg samkeppnishæfni.

Helstu ástæður verðbreytinga

Í skýrslunni kemur fram að helstu ástæður verðbreytinga heildsöluverðs og smásöluverðs (samkeppnishluta) raforku undanfarin ár eru einkum:

  • Sögulega lágt innflæði í miðlunarlón
  • Aukin eftirspurn gagnavera
  • Aukin fylgni við raforkuverð á Norðurlöndum
  • Almenn aukning í eftirspurn

Þá er vakin athygli á að viðskiptavettvangar raforku hafa aukið gagnsæi verðmyndunar töluvert, bætt möguleika til áhættustýringar og framsýnna ákvarðana um byggingu nýrra virkjana og nýja stórnotkun.

Greining á framboði og eftirspurn sýnir enn fremur að markaðsverð grunnorku er nærri metnu jafnvægisverði og því eru ekki vísbendingar um að viðskiptavettvangur raforku hafi haft áhrif á verðlagningu til hækkunar.

Aðgerðir og úrbætur

Þá vekur Raforkueftirlitið athygli á ýmsum aðgerðum sem það hyggst ráðast í eða hefur þegar hafið. Þar má nefna:

  • Bætt eftirlit með verðmyndun raforku
  • Áhersla á gagnaöflun og gagnavinnslu
  • Betri greining áhrifa markaða á þróun raforkuverðs
  • Hátternisreglur, eftirlit og viðurlög
  • Vöktun á raforkunotkun stórnotenda
  • Bætt eftirlit með þróun flutnings- og dreifikostnaðar
  • Bætt aðgengi að upplýsingum

Einnig eru þar settar fram ýmsar úrbótatillögur, meðal annars varðandi lagabreytingar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun taka til umfjöllunar.

 

Fleiri fréttir

Skoða
8. júlí 2025
Nýjungar á vefnum
Í upphafi árs tók Umhverfis- og orkustofnun við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Samhliða því var nýr vefur, uos.is, settur í loftið til að halda utan um sameiginleg málefni stofnunarinnar. Við höfum nú stigið næsta skref í vefþróuninni með uppfærðum og endurbættum vef sem býður upp á ýmsar gagnlegar nýjungar, auk þess sem hann hefur fengið ferskt útlit og nútímalegri ásýnd. Vinnan fór fram í samstarfi við vefstofuna Visku. Meðal helstu nýjunga: Yfirlit efnis tengt stofnuninni – þú getur nálgast allt okkar efni á einum stað, jafnvel þótt megnið af því sé vistað enn um sinn á vefum forvera okkar. Heildstæð leit – þú getur leitað í fréttum, opinberum birtingum og öðru efni á vefnum, auk þess sem við vísum í efni af öðrum vefum stofnunarinnar. Samskiptaform – ef þú átt erindi við stofnunina hvetjum við þig til að nota þar til gert form á vefnum, sem hjálpar þér við að koma erindinu í réttar hendur. Viðburðayfirlit – allar helstu upplýsingar um viðburði á vegum stofnunarinnar má nú finna á einum stað. Staða loftgæða – loftgæði í Reykjavík og á Akureyri eru sýnileg á forsíðu vefsins auk vísunar í mælistöðvar um land allt. Vefurinn er annars í stöðugri þróun og við tökum fagnandi ábendingum um það sem mætti bæta. Efni á vefum forvera okkar verður svo fasað út á næstu mánuðum og fær þá nýtt heimili á vef stofnunarinnar.
Um stofnunina
8. júlí 2025
Styrkir til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum
Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum: Hreinorku vörubifreiðar (N2 eða N3) Hreinorku hópbifreið (M2 eða M3)
4. júlí 2025
Skert þjónusta 21. júlí - 1. ágúst
Á tímabilinu 21. júlí - 1. ágúst 2025 verður lágmarksþjónusta við afgreiðslu erinda hjá Umhverfis- og orkustofnun. Við hvetjum þau sem þurfa að setja erindi í farveg að gera það fyrir eða eftir þetta tímabil.
Um stofnunina
2. júlí 2025
Raforkueftirlitið birtir uppgjör tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024
Raforkueftirlitið hefur lokið uppgjöri tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024. Tekjumörk setja sérleyfisfyrirtækjum í flutningi og dreifingu raforku mörk varðandi leyfðar tekjur og útgjöld. Tekjuheimildir Landsnets voru vanteknar um 44.424 þús.kr. fyrir almenna notendur og ofteknar um 858.645 þús.kr. fyrir stórnotendur. Við árslok 2024 voru uppsafnaðar vanteknar tekjur Landsnets: -8,3% af tekjumörkum fyrir almenna notendur (634.195 þús.kr.) -8,5% af tekjumörkum fyrir stórnotendur (1.046.331 þús.kr.) Fyrir almenna notendur getur þetta leitt til hækkunar á flutningsgjaldi í framtíðinni í þeim tilgangi að bæta upp fyrir vanteknar tekjur. Fyrir stórnotendur er aftur á móti líklegt að flutningsgjöld lækki til þess að leiðrétta ofteknar tekjur. Markmið að tryggja skilvirkni Markmiðið með setningu viðmiðunarútgjalda er að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri sérleyfisfyrirtækjanna. Á hverju ári fer svo fram uppgjör fyrir nýliðið ár þar sem bókhald sérleyfisfyrirtækja er borið saman við sett tekjumörk. Bókhald vegna tekjumarka fylgir raforkulögum en er þó að miklu leyti hliðstætt ársreikningum sérleyfisfyrirtækjanna. Setning tekjumarka 2021-2025 Tekjumörk miðast nú við setningu tekjumarka 2021-2025 sem eru meðaltal útgjalda á tímabilinu 2015-2019, uppfærð með vísitölu neysluverðs og launavísitölu ásamt afskriftum og leyfðri arðsemi af fastafjármunum og veltufjármunum. Gjaldskrár raforkuflutnings, sem notendur greiða, taka annars vegar mið af tekjumörkum og hins vegar kerfisþjónustu og flutningstöpum. Ný setning tekjumarka fyrir flutningsfyrirtækið tekur gildi 15. september 2025 og mun byggja á meðaltal útgjalda flutningsfyrirtækisins á tímabilinu 2020-2024. Greining á skilvirkni í vinnslu Raforkueftirlitið vinnur að greiningu á skilvirkni flutningsfyrirtækisins. Niðurstaða þess verður grundvöllur að ákvörðun að mögulegri hagræðingarkröfu sem yrði síðar innleidd í setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins.  
Raforkueftirlitið

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, 603 Akureyri

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík