Samdráttur í losun þrávirkra lífrænna efna í lofti

Mikill samdráttur var í losun þrávirkra lífrænna efna á tímabilinu 1990-2023. Muninn má að mestu skýra með fækkun sorpbrennslustöðva og hertari reglum um sorpbrennslu. Þetta kemur fram í nýrri landsskýrslu um losun loftmengunarefna á Íslandi.
Af hverju hefur losun þrávirkra lífrænna efna dregist saman?
Ástæða mikils samdráttar á losun þrávirkra lífrænna efna er að mestu minnkun á opnum bruna á úrgangi frá 1990-2004. Miklar breytingar hafa orðið á meðhöndlun úrgangs undanfarna áratugi. Má þar nefna:
- Opinn bruni á úrgangi sem var algengur utan höfuðborgarsvæðisins hefur dregist saman. Nú á opinn bruni á úrgangi sér varla stað. Síðustu brennslunni með opnum bruna var lokað árið 2010.
- Bruni á sorpi til húshitunar viðgekkst á árunum 1994-2012 með tilheyrandi losun þrávirkra lífrænna efna. Vegna hertra reglna um leyfilega losun hefur öllum smærri brennslustöðvum nú öllum verið lokað. Nú er einungis ein stærri sorpeyðingarstöð starfrækt.
- Losun frá áramótabrennum hefur farið minnkandi síðan 1990 þar sem færri brennur eiga sér stað og eftirlitið með þeim er betra. Leiðbeiningar um brennur frá árinu 2000 fela í sér takmörk á stærð, brennslutíma og efnisnotkun.
- Heildarmagn úrgangs sem er brenndur innanlands hefur minnkað.
- Frá 2004 hefur Kalka sorpeyðingarstöð séð um alla brennslu á sóttnæmum úrgangi, iðnaðarúrgangi og spilliefnum. Í starfsleyfi Kölku er gerð krafa um notkun bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir.
Losun þrávirkra lífrænna efna á Íslandi hefur einnig dregist saman milli 2019 og 2020. Það má að hluta til skýra vegna minni svartolíunotkunar og minni bruna á úrgangi.

Hvað eru þrávirk lífræn efni?
Þrávirk lífræn efni (e. persistent organic pollutants, POPs) eru efnasambönd sem brotna hægt eða aldrei niður í náttúrunni og lífverum. Efnin geta dreifst þúsundir kílómetra á landi, í andrúmslofti og vatni. Sýnt hefur verið fram á alvarlegar afleiðingar á heilsu manna, þar með talið krabbamein, fæðingargalla, truflun á frjósemi og ónæmiskerfinu, skemmdir á mið- og útlæga taugakerfinu og aukið næmi fyrir sjúkdómum.
Skuldbindingar Íslands
Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun þrávirkra lífrænna efna í gegnum Árósar-bókunina um þrávirk lífræn efni og einnig óbeint með fullgildingu Stokkhólmssamningsins. Ísland hefur staðið við sínar skuldbindingar um samdrátt í losun þrávirkra lífrænna efna.
Losun þrávirkra lífrænna efna
Díoxín/fúran (PCDD/PCDF): Losun á díoxíni/fúrani á Íslandi hefur dregist saman um 93% frá árinu 1990. Mesta losunin í dag er vegna bruna spilliefna og iðnaðarúrgangs.
Fjölhringja arómatísk vetniskolefni (PAH4): Losun hefur dregist saman um 84% frá 1990. Talsverð losun átti sér stað vegna sementsframleiðslu fram til ársins 2012. Mesta losunin árið 2020 er frá stóriðju og vegasamgöngum.
Hexaklóróbensen (HCB): Losun HCB hefur dregist saman um 57% frá 1990. Mesta losunin árið 2020 er vegna bruna á sóttnæmum sjúkrahússúrgangi.
Pólíklórbífenýlsambönd (PCB): Losun PCB hefur dregist saman um 94% frá 1990. Talsverð losun átti sér stað vegna sementsframleiðslu fram til ársins 2012. Mesta losunin árið 2020 er vegna bruna á sóttnæmum sjúkrahússúrgangi.
Losunarbókhald Íslands
Losunarbókhald Umhverfis- og orkustofnunar heldur utan um losun loftmengunarefna á Íslandi af mannavöldum. Loftmengunarefni hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks og geta haft áhrif á vistkerfi og lífríki. Þau hafa einnig áhrif á hnattræna hlýnun, sem forefni gróðurhúsalofttegunda eða með öðrum hætti.
Sérstaklega er haldið utan um fjórar tegundir af þrávirkum lífrænum efnum í losunarbókhaldi Íslands: Díoxín, PAH4, HCB og PCB.