Umhverfis- og orkustofnun ber að meta hvort vatnshlot teljist manngert eða mikið breytt samkvæmt 13. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Slík vatnshlot greina sig frá náttúrulegum vatnshlotum vegna þess umtalsverða álags sem þau hafa orðið fyrir vegna mannlegra vatnsformfræðilegra breytinga. Dæmi um slíkt álag eru vatnsaflsvirkjanir, vegagerð, hafnargerð og þverun fjarða. Þar sem slíkt álag er til staðar getur vistfræðilegt ástand vatnshlota verið frábrugðið því sem viðgengst við náttúrulegar aðstæður.
Á árunum 2021-2024 voru unnar skýrslur á grundvelli verksamninga við fagstofnanir sem Umhverfis- og orkustofnun gerir. Markmið verkefnanna var að afla gagna og þróa aðferðir og kerfi sem nýtast við skilgreiningu manngerðra og mikið breyttra vatnshlota sem og við mat á vistmegni þeirra. Í meðfylgjandi greinagerð er gert grein fyrir þeirri vinnu og eru alls 16 vatnshlot skilgreind sem manngerð vatnshlot og 35 vatnshlot eru skilgreind sem mikið breytt. Jafnframt hefur 9. kafli vatnaáætlunar 2022-2027 verið leiðréttur og uppfærður sbr. 5. mgr. 19. gr. laga um stjórn vatnamála.
Á grundvelli þeirra sjónarmiða sem liggja að baki lögum um stjórn vatnamála hefur stofnunin ákveðið að setja framangreinda skilgreiningu á mikið breyttum og manngerðum vatnshlotum í opinbera kynningu. Markmiðið er að gefa hagsmunaaðilum og almenningi kost á að koma á framfæri athugasemdum. Frestur til að skila athugasemdum við matið er til og með 20.02.2026. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast stofnuninni á netfangið uos@uos.is merktar „Skilgreining á manngerðum og mikið breyttum vatnshlotum“.
Tengd skjöl
- Greinargerð um skilgreiningar á manngerðum og mikið breyttum vatnshlotum (PDF)
- Fylgiskjal 1a - Tilnefningapróf vatnshlota á virkjanasvæðum LV (PDF)
- Fylgiskjal 1b - Tilnefningapróf á vatnshlotum LV (Excel)
- Fylgiskjal 2a - Tilnefningarpróf fyrir vatnshlot OV (PDF)
- Fylgiskjal 2b - Tilnefningapróf á vatnshlotum OV (Excel)
- Uppfærður 9. kafli vatnaáætlunar 2022 - 2027 (PDF)





