Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Gjaldskrá Umhverfis- og orkustofnunar staðfest

Gjaldskrá Umhverfis- og orkustofnunar nr. 1033/2025 og fyrir norræna umhverfismerkið Svaninn nr. 1032/2025 hafa verið auglýstar í Stjórnartíðindum og taka þegar gildi. Gjaldskrárnar eru staðfestar af Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og byggja á gjaldheimildum sem koma fram í þeim lögum sem stofnunin starfar eftir. Gjaldskrá fyrir norræna umhverfismerkið Svaninn tekur jafnframt mið af gjaldskrám norðurlandanna.

Markmið gjaldskráa Umhverfis- og orkustofnunar er að tryggja gagnsæi og jafnræði í gjaldtöku og endurspegla raunkostnað við veitta þjónustu. Gjöldin taka mið af vinnuframlagi við afgreiðslu mála og veitingu leyfa og annarrar þjónustu. Með því móti skapast hvati til aukinnar skilvirkni og bættrar þjónustu.

Gjaldskrárnar eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar ásamt leiðbeinandi viðmiðum um fjölda vinnustunda fyrir tiltekin þjónustuverkefni.

Fleiri fréttir

Skoða
30. september 2025
Stórar áskoranir framundan í umhverfismálum í Evrópu
Umhverfi í Evrópu stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Náttúran heldur áfram að hnigna og loftslagsbreytingar versna hratt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu, Europe’s Environment, sem birtist í gær. Þessi þróun hefur áhrif á lífsgæði, öryggi og efnahag í álfunni. Ísland sker sig þó úr á ýmsum sviðum, sérstaklega þegar kemur að framleiðslu sjálfbærrar orku. Skýrslan varar við því að hnignun umhverfis og loftslagsbreytingar dragi úr samkeppnishæfni Evrópu. Aukin verndun náttúru, minni mengun og aðlögun að loftslagsbreytingum geti hins vegar styrkt samfélög, til dæmis þegar kemur að matvælaöryggi, vatni og flóðavörnum. Ólíklegt þykir að Evrópa nái markmiðum sínum um líffræðilega fjölbreytni fyrir 2030, þar sem vistkerfi í álfunni versna áfram vegna ósjálfbærrar neyslu og framleiðslu. Vatnsskortur er líka vaxandi vandamál og hefur áhrif á um þriðjung íbúa Evrópu. Í umfjöllum um Ísland er fjallað um jákvæða þætti eins og lítið af mengunarefnum í lofti, vatnsgæði og hátt hlutfall af sjálfbærri orku. Hins vegar er losun gróðurhúsalofttegunda há miðað við höfðatölu og ferðaþjónusta hefur skapað áskoranir á Íslandi. Þrátt fyrir að Evrópa hafi náð árangri í að minnka losun hlýnar hún hraðast í heiminum. Það ógnar heilsu, öryggi, vistkerfum, innviðum og efnahag. Loftslagstengdar hamfarir verða tíðari og meiri og því þarf að aðlaga samfélög og hagkerfi að nýjum aðstæðum. Í skýrslunni er lögð áhersla á að Evrópa þurfi að endurhugsa samband hagkerfis, náttúru og auðlinda. Aðeins með því að endurheimta náttúru verði hægt að tryggja stöðugan efnahag og góð lífsgæði í framtíðinni. Skýrslan Europe’s Environment 2025 byggir á gögnum frá 38 löndum. Hún er sú ítarlegasta sem hefur verið gerð um stöðu umhverfis og loftslags í Evrópu og kemur út á fimm ára fresti. Þetta er sjöunda skýrslan af þessu tagi.
26. september 2025
Námskeið í sóttvörnum vegna húðrofs - desember 2025
Umhverfis- og orkustofnun stendur fyrir námskeiðum í sóttvörnum fyrir þau sem framkvæma hvers kyns húðrof, svo sem húðgötun, húðflúrun, fegrunarflúrun og nálastungur. Námskeiðið er skylda fyrir þau sem hafa ekki lokið námi á heilbrigðissviði sem felur í sér fræðslu um smitgát og sóttvarnir. Frá og með 1. janúar 2026 þurfa allir sem stunda húðrof að geta framvísað staðfestingu þess efnis að þeir hafi setið námskeiðið eða séu með tilskylda menntun á heilbrigðissviði. Sjá nánar í 2. mgr. 34. gr. rg. nr. 903/2024 um hollustuhætti. Information on the course in English Um námskeiðið Á námskeiðinu verður farið yfir alla þætti sem snúa að framkvæmd húðrofs með sérstaka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti. Námskeiðið er blanda af fyrirlestrum og sýnikennslu. Í lok námskeiðs þurfa þátttakendur að standast hæfnispróf. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis eigið snjalltæki til að taka hæfnisprófið á. Kennarar á námskeiðinu eru: Ása S. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur Brynjar Björnsson, húðflúrari Ísak S. Bragason, teymisstjóri í teymi efnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri í teymi eftirlits hjá Umhverfis- og orkustofnun Stella Hrönn Jóhannsdóttir, sérfræðingur hollustuhátta hjá Umhverfis- og orkustofnun Dagsetning Þriðjudagurinn 2. desember frá kl. 9 – 16. Kennt á íslensku. Síðasti skráningardagur er 30. nóvember. Síðasti greiðsludagur 2. desember.   Námskeiðsgjald Námskeiðsgjald er 49.900 kr. Greiðsluseðill verður sendur í heimabanka umsækjanda og afrit af reikningi á mínar síður á island.is. Staðsetning Námskeiðið verður haldið á Hótel Reykjavík Grand, Sigtúni 28, 105 Reykjavík. Skráning Skráning fer fram á https://gogn.ust.is/ Skráning er staðfest þegar námskeiðsgjöld hafa verið greidd. Lágmarksfjöldi Lágmarksfjöldi á námskeiðið er 40 manns. Námskeiðið fellur niður ef ekki næst lágmarks þátttaka. Námskeiðið er fyrir þau sem framkvæma nálastungur, fegrunarflúrun, húðgötun og húðflúrun.
16. september 2025
Raforkukostnaður og raforkuöryggi 2025 og 2026
Önnur útgáfa Raforkuvísa fyrir árið 2025 er nú komin út.  Þar kemur meðal annars fram að staða og horfur raforkuöryggis á fjórða ársfjórðungi 2025 og fyrsta ársfjórðungi 2026 hafa batnað samkvæmt nýjustu greiningum á orkujöfnuði, miðað við fyrri útgáfu sem birt var í apríl 2025. Þróun gjaldskráa raforkufyrirtækja Í fyrsta sinn birtir Raforkueftirlitið yfirlit yfir þróun gjaldskráa sérleyfisfyrirtækja og smásala í Raforkuvísum. Þar má sjá breytingar á dreifi- og flutningsgjöldum frá 2017 til 2025, bæði á verðlagi hvers árs og föstu verðlagi. Einnig er sýnd þróun smásöluverðs allt frá árinu 2005 til dagsins í dag. Helstu niðurstöður eru: Smásöluverð: Lægsta skráða smásöluverð í ágúst hækkaði um 35% milli ára á verðlagi hvers árs. Dreifigjöld: Dreifigjöld dæmigerðra heimila í ágúst, með notkun 4.500 kWh/ári , hækkuðu um 5% milli ára á verðlagi hvers árs. Flutningsgjöld til almennra notenda: Hækkuðu um 23% á milli ára á verðlagi hvers árs. Flutningsgjöld til stórnotenda: Hækkuðu um 27% frá fyrra ári á verðlagi hvers árs. Jöfnunarorkuverð – ný framsetning Birting upplýsinga um jöfnunarorkuverð hefur tekið verulegum breytingum. Jöfnunarorka, sem er hæsta heildsöluverð raforku og vísir að um markaðsjafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, er nú sýnd í verðbilum (kr/kWh) þar sem gefið er til kynna hvenær um er að ræða niðurreglun, jafnvægi eða uppreglun í kerfinu. Nánar til tekið lýsa verðbilin mismunandi ójafnvægi í kerfinu og þar með sýnir breytt framsetning betur ástand markaðarins. Í fyrri útgáfum var einungis  meðalverð jöfnunarorku birt, sem gaf ekki nægilega góða mynd af sveiflum sem eiga sér stað á markaðnum. Sjálfvirknivæðing gagnaöflunar Raforkueftirlitið hefur einnig hafið endurskoðun á aðferðum við gagnaöflun og skil. Umhverfis- og orkustofnun hefur þróað nýja gagnagátt sem kemur í stað Signet Transfer, með það að markmiði að sjálfvirknivæða gagnaafhendingu. Með þessum breytingum verður unnt að einfalda verklag, tryggja meiri gæði gagna til framtíðar og stytta viðbragðstíma eftirlitsins. Sjálfvirknivæðingin mun jafnframt gera Raforkueftirlitinu kleift að framkvæma fleiri greiningar, sinna eftirlitsverkefnum og ráðast í sértækar greiningar  án þess að auka álag á eftirlitsskylda aðila með endurteknum gagnabeiðnum. 

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800