Auglýsing: Styrkir til nýsköpunarlausna frá iðnaði sem fellur undir ETS kerfið

Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til nýsköpunar og tækniþróunar sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið. Í heild eru 400 milljónir króna til úthlutunar en styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að 200 milljónum króna að hámarki til allt að þriggja ára.
Umsóknarfrestur er til 5. febrúar 2026 kl. 15:00.
Sótt er um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís.
Styrkhæfi verkefna og áherslur
Styrkhæfar eru umsóknir um þróun á hvers kyns tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið.
Áhersla verður lögð á verkefni sem skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Einnig verður litið til eftirfarandi þátta:
- að verkefnið hagnýti grunnþekkingu sem þegar er til staðar,
- að verkefnið beinist að aðilum sem hafa talsverða möguleika á að draga úr losun,
- að verkefnið hafi möguleika á að nýtast sem víðast í samfélaginu og hafi áhrif út fyrir einstaka fyrirtæki, félagasamtök og/eða stofnun.
Krafa er gerð um tvo samstarfsaðila að lágmarki og skal að minnsta kosti eitt þeirra vera fyrirtæki. Horft verður til þess að forgangsraða verkefnum sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) á hverja styrkkrónu.
Fyrirspurnir
Almennum spurningum varðandi kallið og umsóknir sem eru í matsferli skal beint til losjodur@rannis.is.









