Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Aukið samstarf Íslands og Japans í jarðhitamálum

Gestur Pétursson og Keizo Takewaka ásamt Kristjáni Geirssyni frá Umhverfis- og orkustofnun og Mariko Yano frá japanska sendiráðinu.

Keizo Takewaka, sendiherra Japans á Íslandi, heimsótti Umhverfis- og orkustofnun á dögunum. Markmið heimsóknarinnar var að fræðast um verkefni stofnunarinnar í tengslum við viljayfirlýsingu frá 2023 um samstarf á sviði jarðhitamála.

Sendiherrann hitti Gest Pétursson, forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar, og Kristján Geirsson, teymisstjóra í teymi alþjóðamála.

Sendiherrann hefur sérstakan áhuga á að auka samvinnu Íslands og Japans í jarðhitamálum, meðal annars um tæknikunnáttu og yfirfærslu á reynslu og þekkingu. Hann ræddi um hina víðtæku sátt á Íslandi um nýtingu jarðhita og starf stofnunarinnar við uppbyggingu jarðhitanýtingar á alþjóðavísu. Þar tilgreindi hann sérstaklega Geothermal Synergy verkefnið í Póllandi.

Gestur vísaði til hinna víðtæku nota jarðhitanýtingar, ekki bara til raforkuframleiðslu og hitaveitu heldur einnig margvísleg samfélagsleg áhrif svo sem sundlaugar, ferðaþjónustu og ýmsa starfsemi og iðnað.

Þá voru umhverfismál jarðhitanýtingar til umræðu, þar á meðal skilgreiningar og möguleika varðandi losun, nýtingu og bindingu koldíoxíðs frá jarðvarma.

Fleiri fréttir

Skoða
27. janúar 2026
Stjórnvaldssekt lögð á þrotabú Fly Play hf.
Umhverfis- og orkustofnun hefur lagt stjórnvaldssekt á þrotabú Fly Play hf. að upphæð 2.347.677.600 krónur. Sektin er lögð á þar sem engum losunarheimildum var skilað fyrir tilskilinn frest vegna losunar frá starfsemi Fly Play hf. á árinu 2024. Heildarlosun Fly Play hf. á árinu 2024, samkvæmt vottaðri losunarskýrslu félagsins, var 164.865 tonn CO₂. Félaginu bar því að standa skil á 164.865 losunarheimildum vegna losunar á árinu 2024, fyrir 30. september 2025, en eitt tonn af CO₂ jafngildir einni losunarheimild. Fjárhæð stjórnvaldssektarinnar er lögbundin og samsvarar 100 evrum í íslenskum krónum vegna hverrar losunarheimildar sem ekki er staðið skil á. Miðað er við viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 30. september 2025. Greiðsla sektarinnar hefur ekki áhrif á skyldu til að standa skil á losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi Fly Play hf. á árinu 2024. Um ákvörðunina Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, flugi og skipaflutningum. Stjórnvaldssektin var lögð á í samræmi við 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.   Þrotabú Fly Play hf. getur skotið ákvörðun um álagningu sektarinnar i til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku hennar.
7. janúar 2026
Námskeið í meðferð notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands heldur námskeið í meðferð notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna dagana 19. febrúar til 12. mars 2026.  Námskeiðið verður kennt í fjarkennslu. Námskeiðið er fyrir þau sem hyggjast sækja um eða endurnýja notendaleyfi fyrir: Plöntuverndarvörum í landbúnaði og garðyrkju, þar með talið garðaúðun Útrýmingarefnum við eyðingu meindýra Hvort tveggja af ofangreindu Einnig er í boði að ljúka einungis námshluta fyrir ábyrgðaraðila í markaðssetningu notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Þessi kostur hentar aðilum sem starfa sinna vegna hyggjast taka að sér hlutverk ábyrgðaraðila hjá dreifingaraðila notendaleyfisskyldra vara. Námskrá námskeiðsins byggist á ákvæðum í reglugerð um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Til þess að ljúka náminu þarf að standast próf í lok námskeiðsins. Að námi loknu þurfa þau sem vilja öðlast réttindi til að kaupa og nota notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur og/eða útrýmingarefni að sækja um notendaleyfi til Umhverfis- og orkustofnunar. Dreifandi notendaleyfisskyldra vara skal tilnefna ábyrgðaraðila í gegnum Island.is. Skráning og nánari upplýsingar um námskeiðið eru að finna á heimasíðu Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands. Umsóknarfrestur er til 13. febrúar 2026.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800