Aukið samstarf Íslands og Japans í jarðhitamálum

Keizo Takewaka, sendiherra Japans á Íslandi, heimsótti Umhverfis- og orkustofnun á dögunum. Markmið heimsóknarinnar var að fræðast um verkefni stofnunarinnar í tengslum við viljayfirlýsingu frá 2023 um samstarf á sviði jarðhitamála.
Sendiherrann hitti Gest Pétursson, forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar, og Kristján Geirsson, teymisstjóra í teymi alþjóðamála.
Sendiherrann hefur sérstakan áhuga á að auka samvinnu Íslands og Japans í jarðhitamálum, meðal annars um tæknikunnáttu og yfirfærslu á reynslu og þekkingu. Hann ræddi um hina víðtæku sátt á Íslandi um nýtingu jarðhita og starf stofnunarinnar við uppbyggingu jarðhitanýtingar á alþjóðavísu. Þar tilgreindi hann sérstaklega Geothermal Synergy verkefnið í Póllandi.
Gestur vísaði til hinna víðtæku nota jarðhitanýtingar, ekki bara til raforkuframleiðslu og hitaveitu heldur einnig margvísleg samfélagsleg áhrif svo sem sundlaugar, ferðaþjónustu og ýmsa starfsemi og iðnað.
Þá voru umhverfismál jarðhitanýtingar til umræðu, þar á meðal skilgreiningar og möguleika varðandi losun, nýtingu og bindingu koldíoxíðs frá jarðvarma.








