Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Pólland og Ísland efla samstarf um jarðhita með Geothermal Synergy verkefninu

Sendinefndin í gróðurhúsi Friðheima
Tilgangur heimsóknarinnar var meðal annars að skilja hvernig Íslandi hefur tekist að byggja upp jarðvarma og tryggja orkuöryggi. Pólska sendinefndin í gróðurhúsi Friðheima.

Samstarf Íslands og Póllands um jarðhita hefur styrkst með Geothermal Synergy verkefninu sem lauk nýverið. Markmið verkefnisins var að stuðla að þekkingarmiðlun, stefnumótun og aukinni getu Póllands á sviði jarðhita, með þátttöku stjórnvalda, stofnana og sérfræðinga beggja landa.

„Þökk sé þessu samstarfi hefur Póllandi tekist að auka þjálfun sérfræðinga og auka hæfni á sviði jarðhitanýtingar - sérstaklega meðal sveitarstjórna - og hvetja til aukinna fjárfestinga í þessum endurnýjanlega orkugjafa,“ sagði Krzysztof Galos, aðstoðarráðherra loftslags- og umhverfismála Póllands.

Meðal hápunkta verkefnisins voru kynningarfundur og vefnámskeið, ráðstefna í Rúmeníu, lokaráðstefna og námsferð pólskrar sendinefndar til Íslands í febrúar 2025. Þar tóku þátt fulltrúar frá loftslags- og umhverfisráðuneyti Póllands, MEERI PAS og sveitarfélagasamtökum. Meginmarkmið ferðarinnar var að skoða hvernig Ísland hefur nýtt jarðvarma til að tryggja orkuöryggi og sjálfbærni og ræða möguleika Póllands á þátttöku í evrópska rannsóknarsamstarfinu GEOTHERMICA.

Á dagskrá Íslandsheimsóknarinnar voru fundir með utanríkisráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og Umhverfis- og orkustofnun, þar sem alls staðar var beint sjónum áframhaldandi samstarfi.

Image

Jóhannn Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Krzysztof Galos, aðstoðarumhverfis- og loftslagsráðherra Póllands. (Mynd: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti).

Samvinna landanna á sviði jarðhita á sér langa sögu. Pólskir nemendur hafa stundað nám í jarðhitavísindum á Íslandi frá því á tíunda áratugnum og fjölmörg sameiginleg verkefni hafa verið unnin á síðustu árum, meðal annars í gegnum EES-styrkjaáætlunina.

Ítarleg samantekt á Geothermal Synergy verkefninu og öðrum samstarfsverkefnum Póllands og Íslands á seinustu árum

Image

Hópurinn heimsótti meðal annars Carbfix og Jarðhitagarð ON á Hellisheiði.

Fleiri fréttir

Skoða
27. janúar 2026
Stjórnvaldssekt lögð á þrotabú Fly Play hf.
Umhverfis- og orkustofnun hefur lagt stjórnvaldssekt á þrotabú Fly Play hf. að upphæð 2.347.677.600 krónur. Sektin er lögð á þar sem engum losunarheimildum var skilað fyrir tilskilinn frest vegna losunar frá starfsemi Fly Play hf. á árinu 2024. Heildarlosun Fly Play hf. á árinu 2024, samkvæmt vottaðri losunarskýrslu félagsins, var 164.865 tonn CO₂. Félaginu bar því að standa skil á 164.865 losunarheimildum vegna losunar á árinu 2024, fyrir 30. september 2025, en eitt tonn af CO₂ jafngildir einni losunarheimild. Fjárhæð stjórnvaldssektarinnar er lögbundin og samsvarar 100 evrum í íslenskum krónum vegna hverrar losunarheimildar sem ekki er staðið skil á. Miðað er við viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 30. september 2025. Greiðsla sektarinnar hefur ekki áhrif á skyldu til að standa skil á losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi Fly Play hf. á árinu 2024. Um ákvörðunina Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, flugi og skipaflutningum. Stjórnvaldssektin var lögð á í samræmi við 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.   Þrotabú Fly Play hf. getur skotið ákvörðun um álagningu sektarinnar i til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku hennar.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800