Svifryk
Andrúmsloftið getur innihaldið mikinn fjölda agna. Þessar agnir eru bæði á föstu formi sem og í vökvaformi. Stærð þeirra er mjög breytileg. Áhrif svifryks á heilsu ráðast að miklu leyti af stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega verri en þær grófu. Því smærri sem agnirnar eru því dýpra ná þær niður í lungun og því verri eru þær fyrir heilsuna.
Mælieiningar og flokkun
Svifryksagnir eru mældar í míkrómetrum (µm).
Svifryk inniheldur agnir sem eru undir 10 µm. Svifryki er skipt í gróft, fínt og örfínt svifryk.
- Gróft svifryk: Agnir sem eru 2,5 til 10 µm í þvermál.
- Fínt svifryk: Agnir sem eru minni en 2,5 µm í þvermál.
- Örfínt svifryk: Agnir sem eru minni en 1 µm í þvermál.
Til að setja smæð þessara svifryksagna í samhengi þá má nefna að þvermál mannshárs er um 60 µm.
Heilsufarsleg áhrif
Áhrif svifryks á heilsu ráðast að miklu leyti af stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega verri en þær grófu.
Agnir minni en 10 µm ná auðveldlega djúpt niður í lungun. Áhrifi á heilsu ráðast af því hversu lengi og oft menguðu lofti er andað að sér. Einnig skiptir máli hvort hættuleg efni eru í rykinu. Dæmi um hættuleg efni eru þungmálmar eða PAH efni (fjölarómatísk vetniskolefni).
Fólk finnur mismikið fyrir áhrifum svifryks. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmari fyrir fyrir áhrifum svifryks heldur en heilsuhraustir.
Aðstæður þar sem hækkun getur orðið á styrk svifryks
- Eldsumbrot: Styrkur svifryks getur orðið mjög hár í öskufalli. Einnig í öskufoki, jafnvel mörgum vikum eftir goslok. Einnig getur SO₂ gas frá eldgosum hvarfast yfir í súlfatagnir (SO₄) sem eru meira ertandi heldur en gasið.
- Stilla og þurrt loft: Mengun safnast upp þegar loftið er hreyfingarlaust, einkum á köldum vetrardögum.
- Mikil umferð: Í nágrenni við umferðarþungar götur getur svifryksmengun orðið töluverð. Mengun minnkar þó hratt með aukinni fjarlægð og þar munar um hverja tíu metra. Einnig er rétt að hafa í huga að útbreiðsla mengunar ræðst af vindátt. Þannig er minni mengun vindmengin við götu og meiri mengun hlémegin.
- Jarðvegsfok: Vindur getur feykt upp ögnum úr jarðvegi og hækkað styrk svifryks. Víða meðfram suðurströndinni og inn á hálendi eru gróðurlaus svæði þar sem mikið sandfok getur orðið í hvassviðri. Sandfok getur borist langar vegalengdir. Sandfok frá Landeyjarsandi getur til dæmis borist yfir höfuðborgarsvæðið í hvassri suðaustanátt ef þurrt er í veðri. Það getur gerst nokkrum sinnum á hverju ári.

Uppsprettur svifryks
Efnasamsetning svifryksagna er mjög breytileg. Eiginleikar agnanna ráðast af uppruna þeirra. Dæmi um efni eru sót, steinryk, málmryk, súlföt, kalk og salt. Stærri agnir geta verið frjókorn, sandur eða silt.
Fínni svifryksagnir eru flestar af mannavöldum. Þær koma aðallega frá bruna eldsneytis. Grófari agnir eiga uppruna sinn í náttúrulegum uppsprettum.
Svifryk af mannavöldum kemur frá nánast allri starfsemi. Mest kemur þó frá eldsneytisbruna, umferð og iðnaði. Náttúrulegar uppsprettur eru til dæmis uppblástur jarðvegs, eldgos og sjávarúði.
Niðurstöður tveggja rannsókna á samsetningu svifryks í Reykjavík veturna 2003 og 2015 sýna fram á að stór meirihluti svifryks í Reykjavík er af mannavöldum.
Var efnið hjálplegt?
Hjálpaðu okkur að bæta gæði efnisins






