Ísland aðstoðar Búlgaríu við að þróa löggjöf um jarðhita

Í sex mánaða samstarfsverkefni Umhverfis- og orkustofnunar og orkumálaráðuneytis Búlgaríu hefur verið unnið að umbótum á regluverki landsins um jarðhita. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES og miðar að því að efla sjálfbæra orkunýtingu og styðja við græn orkuskipti í Evrópu.
Skýrari og einfaldari löggjöf
Markmið verkefnisins var að móta sérhæfða löggjöf fyrir nýtingu jarðhita í Búlgaríu og aðgreina hana frá öðrum jarðefnaeldsneytisauðlindum. Með nýju regluverki verður auðveldara að nýta jarðhita á hagkvæman og öruggan hátt, auka fjárfestingar og stuðla að sjálfbærri orkuvinnslu.
Íslensk þekking leiðir veginn
Umhverfis- og orkustofnun stýrði verkefninu í samstarfi við búlgarska orkumálaráðuneytið og ráðgjafarfyrirtækið Elements by BBA//Fjeldco, auk íslenskra fyrirtækja á borð við ÍSOR, Verkís, Intellecon og Reykjavik Geothermal. Hópurinn vann greiningu á gildandi löggjöf og lagði fram tillögur að einföldun leyfisferla, auknu gagnsæi og betri aðgangi að gögnum.
„Það er mikilvægt að íslensk fyrirtæki miðli af þeirri þekkingu sem hér hefur skapast í rannsóknum og þróun jarðhita,“ segir Baldvin Björn Haraldsson, stjórnarformaður Elements by BBA//Fjeldco.
Baldur Pétursson, verkefnastjóri hjá Umhverfis- og orkustofnun, bætir við: „Verkefnið sýnir hvernig íslensk reynsla getur nýst öðrum ríkjum við að efla sjálfbærni og orkuöryggi.“