Stórar áskoranir framundan í umhverfismálum í Evrópu

Umhverfi í Evrópu stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Náttúran heldur áfram að hnigna og loftslagsbreytingar versna hratt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu, Europe’s Environment, sem birtist í gær.
Þessi þróun hefur áhrif á lífsgæði, öryggi og efnahag í álfunni. Ísland sker sig þó úr á ýmsum sviðum, sérstaklega þegar kemur að framleiðslu sjálfbærrar orku.
Skýrslan varar við því að hnignun umhverfis og loftslagsbreytingar dragi úr samkeppnishæfni Evrópu. Aukin verndun náttúru, minni mengun og aðlögun að loftslagsbreytingum geti hins vegar styrkt samfélög, til dæmis þegar kemur að matvælaöryggi, vatni og flóðavörnum.
Ólíklegt þykir að Evrópa nái markmiðum sínum um líffræðilega fjölbreytni fyrir 2030, þar sem vistkerfi í álfunni versna áfram vegna ósjálfbærrar neyslu og framleiðslu. Vatnsskortur er líka vaxandi vandamál og hefur áhrif á um þriðjung íbúa Evrópu.
Í umfjöllum um Ísland er fjallað um jákvæða þætti eins og lítið af mengunarefnum í lofti, vatnsgæði og hátt hlutfall af sjálfbærri orku. Hins vegar er losun gróðurhúsalofttegunda há miðað við höfðatölu og ferðaþjónusta hefur skapað áskoranir á Íslandi.
Þrátt fyrir að Evrópa hafi náð árangri í að minnka losun hlýnar hún hraðast í heiminum. Það ógnar heilsu, öryggi, vistkerfum, innviðum og efnahag. Loftslagstengdar hamfarir verða tíðari og meiri og því þarf að aðlaga samfélög og hagkerfi að nýjum aðstæðum.
Í skýrslunni er lögð áhersla á að Evrópa þurfi að endurhugsa samband hagkerfis, náttúru og auðlinda. Aðeins með því að endurheimta náttúru verði hægt að tryggja stöðugan efnahag og góð lífsgæði í framtíðinni.
Skýrslan Europe’s Environment 2025 byggir á gögnum frá 38 löndum. Hún er sú ítarlegasta sem hefur verið gerð um stöðu umhverfis og loftslags í Evrópu og kemur út á fimm ára fresti. Þetta er sjöunda skýrslan af þessu tagi.