Hefur þú valið sölufyrirtæki rafmagns?
Dreifiveitan færir þér rafmagnið en þú velur þér raforkusalann
Varst þú að fá sms frá dreifiveitu um að þú þurfir að velja þér raforkusala? Hér eru leiðbeiningar um hvernig þú átt að bera þig að:
Hvenær þarft þú að velja raforkusala?
Þú þarft að velja raforkusala ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við raforkusala síðastliðna 90 daga. Til dæmis ef:
- Þú er að kaupa þína fyrstu íbúð
- Það tekur einhvern tíma að skipta um húsnæði
- Þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti
- Þú ert að taka við/yfir sem orkugreiðandi í eigin húsnæði frá maka
Þá er mikilvægt að hafa samband við þann raforkusala sem þú kýst að vera í viðskiptum við og gera raforkusölusamning.
Hvað gerist ef þú velur ekki raforkusala?
Ef þú ert ekki búin/n að gera samning við raforkusala innan 30 daga frá notendaskiptum geta dreifiveiturnar stöðvað raforkuafhendingu til þín. Dreifiveiturnar þurfa að senda þér skriflega viðvörun fyrst.
Hvað ef þú vilt skipta um raforkusala?
Ef þú vilt skipta og eiga viðskipti við annan raforkusala hefur þú samband við það fyrirtæki sem þú vilt eiga í viðskiptum og þau sjá um söluaðilaskiptin.
Getur þú valið dreifiveitu fyrir raforku?
Þú getur ekki valið þér dreifiveitu. Ein dreifiveita sér um dreifingu raforku á hverjum stað. Fimm dreifiveitur eru starfandi á Íslandi. Þær eru: HS Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, Veitur og RARIK.
Dreifiveitur mega ekki hafa aðkomu að vali þínu á raforkusala með því að gefa upp kjör raforkusölufyrirtækja.
Var efnið hjálplegt?
Hjálpaðu okkur að bæta gæði efnisins