Almennt um ETS-kerfið
Hvernig virkar kerfið?
ETS-kerfið byggir á mengunarbótareglunni (e. polluter pays principle) þar sem kostnaður hlýst af losun gróðurhúsalofttegunda og sá sem mengar borgar fyrir losunina sína. Því minni sem losunin er því minni kostnaður fyrir aðila innan kerfisins.
Gert er ráð fyrir að verð á losunarheimildum hækki eftir sem á líður og losunarheimildum í kerfinu fækkar.
Fyrirtæki skulu gera upp losunina sína innan tilskilins tímaramma og ef það er ekki gert ber lögbæru yfirvaldi að leggja á stjórnvaldssekt.
Þannig greiða þeir sem menga hærra verð, samkvæmt mengunarbótareglunni.
Hvað eru endurgjaldslausar losunarheimildir?
Hluta af losunarheimildum er úthlutað endurgjaldslaust í staðbundnum iðnaði og að hluta til eru þær boðnar upp til kaupa.
Staðbundin starfsemi sem er talin viðkvæm fyrir kolefnisleka fær úthlutað hærra hlutfalli af endurgjaldslausum losunarheimildum.
Endurgjaldslaus úthlutun fer stigminnkandi með árunum og langtímamarkmið ESB er að allar losunarheimildir verði boðnar upp.
Hvert renna tekjur af losunarheimildum?
Tekjur af uppboðum losunarheimilda renna að stærstum hluta til aðildarríkjanna en ESB ríkjum ber að nýta tekjurnar í aðgerðir í loftslagsmálum. Hér á landi renna þessar tekjur í ríkissjóð. Hluti teknanna fer einnig í Nútímavæðingarsjóð og Nýsköpunarsjóð ESB.
Eftir að losunarheimildir eru komnar í umferð eru viðskipti með þær heimil aðilum sem heyra undir gildissvið ETS tilskipunarinnar og öðrum aðilum sem kjósa að eiga slík viðskipti í fjárfestingaskyni eða öðrum tilgangi.
Hver sér um ETS-kerfið á Íslandi?
Umhverfis- og orkustofnun fer með umsjón ETS-kerfisins á Íslandi.
Stofnunin:
- veitir losunarleyfi
- er landsstjórnandi skráningarkerfis með losunarheimildir
- úthlutar endurgjaldslausum losunarheimildum
- tryggir að fyrirtæki uppfylli reglur um vöktun og skýrslugjöf
- sér um beitingu viðurlaga
Hverjir heyra undir kerfið á Íslandi?
Staðbundinn iðnaður
Íslenskir rekstraraðilar staðbundins iðnaðar sem fram koma í I. viðauka laga 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir falla undir ETS-kerfið.

Flug
Flugrekendur með flugrekstrarleyfi gefið út á Íslandi og flugrekendur sem ekki hafa flugrekstrarleyfi útgefið í EES-ríki ef stærsti hluti losunar þeirra, sem fellur undir kerfið, tilheyrir Íslandi á viðmiðunarári.
Reglulega er gefin út reglugerð þar sem listað er út hvaða flugrekendur falla undir hvert aðildarríki.

Sjóflutningar
Skipafélög með heimilisfesti á Íslandi og utan EES-ríkja ef stærsti hluti losunar þeirra fellur undir kerfið á viðmiðunarári.

Var efnið hjálplegt?
Hjálpaðu okkur að bæta gæði efnisins





