Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Uppgjör í sjóflutningum

Í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfi)

Hverjir að taka þátt?

Um 3.300 skipafélög falla undir kerfið.

Kerfið nær til farþega- og flutningaskipa sem eru 5.000 brúttótonn eða stærri, óháð því hvaða fána þau sigla undir eða í hvaða ríki þau eða skipafélögin sem reka þau eru skráð, svo lengi sem skipin sigla til, frá eða á milli hafna innan evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Skipafélög sem reka slík skip þurfa að skila losunarheimildum vegna losunar koldíoxíðs (CO₂).

Af hverju eru sjóflutningar í ETS-kerfinu?

Sjóflutningar valda umtalsverðri losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu og losunin eykst ár frá ári.
Til að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákvað Evrópusambandið að sjóflutningar skyldu falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið).

Hvernig er þetta innleitt?

Skyldan til að gera upp losun verður tekin upp í áföngum. Gera þarf upp losunarheimildir vegna:

  • 40% losunar ársins 2024.
  • 70% losunar ársins 2025.
  • 100%  losunar ársins 2026 og eftir það.


Engum losunarheimildum verður úthlutað endurgjaldslaust, þannig að skipafélög þurfa að kaupa allar losunarheimildir sem þau þurfa.

Ísland og ETS í sjóflutningum

Eitt íslenskt skipafélag, Eimskip, er hluti af kerfinu.

Skipafélögum sem reka skip sem falla undir ETS-kerfið er úthlutað umsjónarríki og heyrir hvert skipafélag aðeins undir eitt umsjónarríki.

Framkvæmdastjórn ESB gefur reglulega út lista yfir hvaða skipafélög falla undir umsjá hvers ríkis sem tekur þátt í ETS-kerfinu.

Skipafélag er undir umsjón Íslands ef eitthvað af eftirfarandi á við:

  1. Félagið er skráð á Íslandi.
  2. Flestar ferðir þess síðustu fjögur ár áður en listinn var gefinn út hófust eða lauk í íslenskri höfn.
  3. Það fór engar ferðir innan EES á undangengnum fjórum árum áður en listinn var gefinn út, en fyrsta ferð þess eftir útgáfu listans hófst eða endaði í íslenskri höfn.


Fyrsti listinn yfir umsjónarríki skipafélaga var gefinn út árið 2024.

Úthlutun og uppgjör

Fyrir 30. júní ár hvert fá þeir rekstraraðilar og flugrekendur sem eiga rétt á endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað fyrir yfirstandandi ár. Í síðasta lagi 30. september ár hvert þurfa svo þeir rekstraraðilar og flugrekendur sem falla undir ETS kerfið að gera upp losun ársins á undan í skráningarkerfi með losunarheimildir.

Úthlutun og uppgjör fyrir sjóflutninga

Umsjónarríki

Ísland er einnig umsjónarríki fyrir nokkur erlend skipafélög sem skráð eru utan EES. Eftirfarandi skipafélög eru undir umsjón Íslands í nóvember 2025:

  • Anglo-Eastern Cruise Management (skráð í Bandaríkjunum)
  • Compass Shipping 37 Co. Ltd. (skráð á Marshalleyjum)
  • Eimskip (skráð á Íslandi)
  • Hinase Ship Management Co. Ltd. (skráð í Japan)
  • LFonds Management Pvt. Ltd. (skráð í Indlandi)
  • Lindbland Expeditions LLC (skráð í Bandaríkjunum)
  • Salaverry Maritime Co. Ltd. (skráð á Marshalleyjum)
  • Vega Shipping LLC (skráð í Sameinuðu arabísku furstadæmunum)

Gildissvið

Kerfið um sjóflutninga nær til:

  • allrar losunar vegna ferða milli hafna innan EES.
  • allrar losunar á meðan skip er í höfn á EES-svæðinu.
  • helmings losunar vegna ferða milli hafnar í EES og hafnar í þriðja ríki.


Frá árinu 2026 þurfa skipafélög einnig að skila af sér losunarheimildum vegna metans (CH₄) og glaðlofts (N₂O) sem myndast við brennslu jarðefnaeldsneytis.

Skipafélög gera upp losunina árlega með því að skila losunarheimildum í skráningarkerfið (e. Union Registry) sem samsvara raunverulegri losun síðasta árs.

Almennt um ETS-kerfið

Undanþágur

Skipafélög mega skila af sér 5% færri heimildum vegna losunar frá skipum með ísflokk til ársins 2030. Skip með ísflokk eru sérstaklega hönnuð til að geta siglt í gegnum ís og eru því þyngri og losa meira af gróðurhúsalofttegundum en sambærileg skip sem ekki hafa ísflokk.

Aðrar undanþágur frá því að skila af sér losunarheimildum eru til staðar fyrir skipafélög sem gilda til ársins 2030, til dæmis vegna ferða á milli ríkis og ystu svæða sama ríkis (til dæmis á milli Spánar og Kanaríeyja eða Portúgals og Asóreyja). Þessar undanþágur hafa þó lítil eða engin áhrif á skyldur þeirra skipafélaga sem falla undir umsjón Íslands.

Ef félag skilar ekki nægum heimildum af sér ber yfirvöldum að beita viðurlögum eða sektum.

Nýjar kröfur og framtíðarsýn

Frá árinu 2025 þurfa skipafélög einnig að fylgjast með og skila skýrslu um losun frá:

  • aflandsskipum (e. offshore ships) sem eru 5.000 brúttótonn eða stærri (uppgjör hefst 2028 vegna losunar ársins 2027).
  • aflandsskipum og almennum flutningaskipum sem eru 400–5.000 brúttótonn.

Árið 2027 verður tekin ákvörðun um hvort þessi minni skip muni falla undir ETS-kerfið.

Var efnið hjálplegt?

Hjálpaðu okkur að bæta gæði efnisins

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800