Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Uppgjör og úthlutun losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Gámaflutningaskip

Þann 30. september síðastliðinn rann út frestur rekstraraðila, sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið), til að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2024, það er uppgjörsfrestur. Alls áttu 17 aðilar sem falla undir ETS-kerfið á Íslandi að skila af sér losunarheimildum vegna losunar ársins 2024: sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði, fimm flugrekendur og sex skipafélög. Allir aðilar skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda innan tímafrestsins nema einn. 

Áður en uppgjörið fór fram, eða 26. júní, fór fram úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til þeirra rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og flugrekenda sem höfðu rétt á slíkri úthlutun. 

Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði 

Sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Eru þetta þrjú álver, eitt kísilver, eitt járnblendiver og eitt gagnaver. Alls skiluðu rekstraraðilarnir af sér 1.899.154 losunarheimildum, en losun frá staðbundnum iðnaði jókst um 4,2% á milli 2023 og 2024. 

Alls fengu fimm rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað þann 26. júní síðastliðinn og var 1.460.661 losunarheimild úthlutað. Breytingar á heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda til einhverra rekstraraðila geta enn átt sér stað vegna breytinga á starfsemisstigi, það er framleiðslu, árið 2024. Þeir rekstraraðilar gætu því átt von á úthlutun fleiri heimilda eða þurft að skila af sér.  

Flugrekendur 

Fimm flugrekendur áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Einn flugrekandi skilaði ekki af sér nægum fjölda losunarheimilda. Heildarlosun frá flugrekendum sem gera upp í ETS-kerfinu á Íslandi var 624.982 tonn CO₂, en flugrekendur skiluðu af sér alls 460.117 losunarheimildum. Losun frá flugrekendum jókst um 2,5% á milli 2023 og 2024. 

Alls fengu þrír flugrekendur úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum þann 26. júní síðastliðinn og var 113.444 losunarheimildum úthlutað. Heimilt er að úthluta viðbótarheimildum endurgjaldslaust til flugrekenda sem fljúga til og frá Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en úthlutun á þeim heimildum hefur ekki átt sér stað. 

Skipafélög 

Í ár þurftu skipafélög í fyrsta skipti að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, en sjóflutningar féllu undir ETS-kerfið frá 1. janúar 2024. Skyldan til að skila af sér losunarheimildum er innleidd í þrepum, en skipafélög áttu að skila af sér losunarheimildum sem jafngiltu 40% af vottaðri losun þeirra árið 2024. Að auki þurfa skipafélög að skila af sér 5% færri losunarheimildum vegna skipa með ísflokk til ársins 2030. Heildarlosun innan ETS-kerfisins frá skipafélögum sem gera upp í því á Íslandi var 98.747 tonn CO₂, en skipafélögin höfðu skyldu til að skila af sér alls 37.989 losunarheimildum vegna þeirrar losunar. Öll skipafélög skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda. 

Fleiri fréttir

Skoða
13. október 2025
Losunarheimildir flugrekenda í ETS kerfinu
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eða ETS kerfið (e. Emissions Trading System), byggir á því að tiltekin starfsemi á EES svæðinu þurfi losunarheimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstraraðilar sem falla undir kerfið þurfa árlega að afla sér losunarheimilda í samræmi við losun síðastliðins árs og standa skil á þeim í skráningarkerfi með losunarheimildir. Hluta af þessum heimildum fá aðilar innan vissra geira endurgjaldslaust. Skilafrestur til að standa skil á losunarheimildum er fyrir 30. september ár hvert vegan losunar ársins á undan. Ef rekstraraðili gerir ekki upp losunarheimildir innan frestsins ber Umhverfis- og orkustofnun að leggja á stjórnvaldssekt. Framkvæmd kerfisins á Íslandi Kerfið er innleitt með lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Umhverfis- og orkustofnun er lögbært stjórnvald ETS kerfisins á Íslandi og fer með framkvæmd laganna. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að: veita losunarleyfi. hafa umsjón með skráningarkerfi með losunarheimildir. beita þvingunarúrræðum þegar það á við. taka ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og aðlaganir á úthlutun. tryggja að aðilar innan kerfisins uppfylli kröfur um vöktun og skýrslugjöf. Flug í ETS kerfinu Flug hefur fallið undir ETS kerfið frá árinu 2012 og íslensk flugfélög hafa heyrt undir kerfið frá upphafi. ETS kerfið nær til flugs: á milli flugvalla innan EES. frá flugvöllum innan EES til flugvalla í Bretlandi og Sviss. Flugrekendur þurfa að standa skil á losunarheimildum vegna losunar á ofangreindum flugleiðum. Þegar losun er meiri en sem nemur úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda þurfa flugrekendur að kaupa heimildir á markaði. Endurgjaldslaus úthlutun losunarheimilda til flugrekenda í ETS hefur farið stigminnkandi árin 2024 og 2025 og mun slík úthlutun hætta frá og með árinu 2026. Á árunum 2024-2030 munu flugrekendur þó geta sótt um úthlutun sérstakra losunarheimilda sem byggja á hversu mikið af sjálfbæru flugeldsneyti þeir nota í flugferðum sem heyra undir ETS kerfið. Ef flugrekandi gerir ekki upp losunarheimildir á tilskyldum tímafresti ber Umhverfis- og orkustofnun, sem lögbæru stjórnvaldi, að leggja á stjórnvaldssekt. Viðbótarúthlutun eingöngu fyrir Ísland Íslandi er heimilt að úthluta flugrekendum auka endurgjaldslausum heimildum árin 2025 og 2026 fyrir flug til og frá Íslandi á flugleiðum sem falla undir ETS kerfið þrátt fyrir að útfösun endurgjaldslausra losunarheimilda í flugi sé lokið. Þetta er ekki viðbót við þær heimildir sem Ísland fær í sinn hlut heldur dragast viðbótarheimildir vegna flugs frá þeim losunarheimildum sem íslenska ríkið myndi annars bjóða upp á uppboði. Viðbótarúthlutunin er háð því að flugrekandi hafi skilað inn vottaðri kolefnishlutleysisáætlun. Ef flugrekandi fylgir ekki áætluninni skal Umhverfis- og orkustofnun gera kröfu um að losunarheimildunum sé skilað. Jafnræðisregla gildir milli flugfélaga á sömu leiðum. Þetta fyrirkomulag er tímabundið og ætlað að mæta sérstöðu Íslands sem landfræðilega afskekkt eyja. Mynd með frétt: CC BY 4.0 eftir 4300streetcar
8. október 2025
Einhugur um samvinnu og framtíð í jafnvægi – Loftslagsdagurinn 2025
Yfir 500 þátttakendur tóku þátt í Loftslagsdeginum þann 1. október 2025. Yfirskrift dagsins, „Framtíð í jafnvægi – Hvernig finnum við jafnvægi milli náttúru og aðgerða?“, var leiðarljós allra erinda og umræðna. Viðburðurinn fór fram í Hörpu og í streymi og var vel sóttur af fjölbreyttum hópi fulltrúa úr röðum almennings, stjórnvalda, vísindafólks, atvinnulífs og nemenda. Færri komust að en vildu í Hörpu. Metnaðarfull markmið skila okkur lengra Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar, opnaði Loftslagsdaginn með ávarpi þar sem hann líkti baráttunni við loftslagsvána við ferðalag á ókannað landsvæði. Í ávarpinu lagði hann áherslu á að metnaðarfull markmið séu lykillinn að árangri. „Metnaðarfull markmið skila okkur lengra en þegar markmiðin byggjast einungis á lágmarkskröfum til okkar sjálfra“ sagði Gestur. Hann benti á að Ísland hafi þegar stigið mikilvæg skref, meðal annars með markmiðinu um kolefnishlutleysi árið 2040, og undirstrikaði að verkefnið krefjist samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs, vísindasamfélags og almennings. „Með metnaði, jákvæðu hugarfari og sameiginlegri ábyrgð munum við ná langt“ sagði Gestur að lokum. Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar, flutti opnunarávarp. Góðar og slæmar fréttir úr losunarbókhaldi Birgir Urbancic Ásgeirsson, sérfræðingur í teymi losunarbókhalds, flutti erindi um nýjustu gögn og stöðu losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Hann fór yfir helstu flokka losunar og greindi þróun undanfarinna ára. Birgir lagði áherslu á nokkrar góðar fréttir í erindi sínu: Sexföldun á bindingu kolefnis í skóglendi síðan um síðustu aldamót 30% samdráttur í losun frá urðun úrgangs á síðustu 20 árum Yfir 90% samdráttur í innflutningi á kæliefnum sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir á síðustu 6 árum 40% samdráttur í olíunotkun fiskiskipa frá aldamótum Birgir fjallaði einnig um áskoranir fram undan: Endurheimt votlendis gengur hægt Enn of mikil olíunotkun, þar með talið í bílum Losun frá landbúnaði og iðnaði hefur lítið breyst Kynningin byggði á nýjum bráðabirgðatölum um sögulega losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem komu út nýlega ásamt framreikningum um losun byggðir á forgangsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem voru kynntar í september 2025.   Birgir Urbancic Ásgeirsson fjallaði um losunarbókhald Íslands á mannamáli. Spáð í orkuspilin Losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum gætið minnkað um 49% árið 2030 frá 2005. Aflaverðmætið hefur aukist um 95% frá árinu 2005. Þannig hefur skilvirkni aukist og fiskiskipin skapa meira verðmæti fyrir hverja losunareiningu. Þetta kom fram í erindi Jóns Ásgeirs Haukdal Þorvaldssonar, teymisstjóra í teymi orkuskipta og orkunýtni um stöðu orkumála á Íslandi. Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson rýndi í orkutölurnar. Jón Ásgeir spáði fyrir um hvernig nýjar forgangsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum munu hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda í flokknum „samfélagslosun“: 38% samdráttur í losun frá jarðefnaeldsneyti (8% frá vegasamgöngum, 49% frá fiskiskipum og 71% vegna annars bruna) 4% samdráttur í losun frá landbúnaði 24% samdráttur í losun frá F-gösum og jarðvarmavirkjunum 49% samdráttur frá úrgangi Samanlagt yrði 28% samdráttur frá samfélagslosun en Ísland er með markmið um  41% samdrátt árið 2030 gagnvart Parísarsamningnum. Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri á sviði orkuskipta og hringrásarhagkerfis, fjallaði um orkuskipti. Hann bar meðal annars saman stöðu orkuskipta í vegasamgöngum og á hafi. Lokaorð Sigurðar voru: „Á þessum 8 mínútum spöruðu rafbílar innflutning á um 750 lítrum af erlendri olíu, sem gerir 1.700 kg minni losun CO₂ - eru orkuskiptin ekki bara rugl?“ Hringrás lífsgæða og hamingju Nicole Keller, teymisstjóri í teymi losunarbókhalds, biðlaði til stjórnenda á vinnustöðum að nýta öll tækifæri til að skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólki líður vel, það væri loftslagsmálum í hag. Vellíðan leiðir til betri ákvarðana sem leiða aftur til meiri vellíðan og betri lífsgæða. „Ástand taugakerfisins mótar hvort við erum þröngsýn og hrædd við breytingar eða getum hugsað stórt, sótt fram, og tekið góðar ákvarðanir“ sagði Nicole. Þorbjörg Sandra Bakke, teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis, fjallaði um hvernig hringrásarhagkerfið getur beinlínis aukið hamingju. Til dæmis getur einföld aðgerð eins og að fá lánað hjá nágrönnum aukið vellíðan og eflt tengsl. Hvað eru lífsgæði? spurði Nicole Keller. Jörðin sem ég ann Fjórar kynslóðir sameinuðust í söng á Loftslagsdaginn. Kór náttúruverndarsamtakanna Aldin, kór FÍH, Ljóti kórinn og kór Mýrarhúsaskóla fluttu „Jörðin sem ég ann“ eftir Magnús Þór Sigmundsson. Magnús var viðstaddur í salnum. Atriðið hlaut mikið lof og standandi lófaklapp. Atriðið var skipulagt af Aldin en kórstjórar voru Nanna Hlíf Ingvadóttir og Una Stefánsdóttir.
6. október 2025
Ísland aðstoðar Búlgaríu við að þróa löggjöf um jarðhita
Í sex mánaða samstarfsverkefni Umhverfis- og orkustofnunar og orkumálaráðuneytis Búlgaríu hefur verið unnið að umbótum á regluverki landsins um jarðhita. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES og miðar að því að efla sjálfbæra orkunýtingu og styðja við græn orkuskipti í Evrópu. Skýrari og einfaldari löggjöf Markmið verkefnisins var að móta sérhæfða löggjöf fyrir nýtingu jarðhita í Búlgaríu og aðgreina hana frá öðrum jarðefnaeldsneytisauðlindum. Með nýju regluverki verður auðveldara að nýta jarðhita á hagkvæman og öruggan hátt, auka fjárfestingar og stuðla að sjálfbærri orkuvinnslu. Íslensk þekking leiðir veginn Umhverfis- og orkustofnun stýrði verkefninu í samstarfi við búlgarska orkumálaráðuneytið og ráðgjafarfyrirtækið Elements by BBA//Fjeldco, auk íslenskra fyrirtækja á borð við ÍSOR, Verkís, Intellecon og Reykjavik Geothermal. Hópurinn vann greiningu á gildandi löggjöf og lagði fram tillögur að einföldun leyfisferla, auknu gagnsæi og betri aðgangi að gögnum. „Það er mikilvægt að íslensk fyrirtæki miðli af þeirri þekkingu sem hér hefur skapast í rannsóknum og þróun jarðhita,“ segir Baldvin Björn Haraldsson, stjórnarformaður Elements by BBA//Fjeldco. Baldur Pétursson, verkefnastjóri hjá Umhverfis- og orkustofnun, bætir við: „Verkefnið sýnir hvernig íslensk reynsla getur nýst öðrum ríkjum við að efla sjálfbærni og orkuöryggi.“

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800