Uppgjör og úthlutun losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Þann 30. september síðastliðinn rann út frestur rekstraraðila, sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið), til að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2024, það er uppgjörsfrestur. Alls áttu 17 aðilar sem falla undir ETS-kerfið á Íslandi að skila af sér losunarheimildum vegna losunar ársins 2024: sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði, fimm flugrekendur og sex skipafélög. Allir aðilar skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda innan tímafrestsins nema einn.
Áður en uppgjörið fór fram, eða 26. júní, fór fram úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til þeirra rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og flugrekenda sem höfðu rétt á slíkri úthlutun.
Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði
Sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Eru þetta þrjú álver, eitt kísilver, eitt járnblendiver og eitt gagnaver. Alls skiluðu rekstraraðilarnir af sér 1.899.154 losunarheimildum, en losun frá staðbundnum iðnaði jókst um 4,2% á milli 2023 og 2024.
Alls fengu fimm rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað þann 26. júní síðastliðinn og var 1.460.661 losunarheimild úthlutað. Breytingar á heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda til einhverra rekstraraðila geta enn átt sér stað vegna breytinga á starfsemisstigi, það er framleiðslu, árið 2024. Þeir rekstraraðilar gætu því átt von á úthlutun fleiri heimilda eða þurft að skila af sér.
Flugrekendur
Fimm flugrekendur áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Einn flugrekandi skilaði ekki af sér nægum fjölda losunarheimilda. Heildarlosun frá flugrekendum sem gera upp í ETS-kerfinu á Íslandi var 624.982 tonn CO₂, en flugrekendur skiluðu af sér alls 460.117 losunarheimildum. Losun frá flugrekendum jókst um 2,5% á milli 2023 og 2024.
Alls fengu þrír flugrekendur úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum þann 26. júní síðastliðinn og var 113.444 losunarheimildum úthlutað. Heimilt er að úthluta viðbótarheimildum endurgjaldslaust til flugrekenda sem fljúga til og frá Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en úthlutun á þeim heimildum hefur ekki átt sér stað.
Skipafélög
Í ár þurftu skipafélög í fyrsta skipti að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, en sjóflutningar féllu undir ETS-kerfið frá 1. janúar 2024. Skyldan til að skila af sér losunarheimildum er innleidd í þrepum, en skipafélög áttu að skila af sér losunarheimildum sem jafngiltu 40% af vottaðri losun þeirra árið 2024. Að auki þurfa skipafélög að skila af sér 5% færri losunarheimildum vegna skipa með ísflokk til ársins 2030. Heildarlosun innan ETS-kerfisins frá skipafélögum sem gera upp í því á Íslandi var 98.747 tonn CO₂, en skipafélögin höfðu skyldu til að skila af sér alls 37.989 losunarheimildum vegna þeirrar losunar. Öll skipafélög skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda.











