Losunarheimildir flugrekenda í ETS kerfinu

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eða ETS kerfið (e. Emissions Trading System), byggir á því að tiltekin starfsemi á EES svæðinu þurfi losunarheimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstraraðilar sem falla undir kerfið þurfa árlega að afla sér losunarheimilda í samræmi við losun síðastliðins árs og standa skil á þeim í skráningarkerfi með losunarheimildir, hluta af þessum heimildum fá þó aðilar innan vissra geira endurgjaldslaust fyrir 30. september ár hvert.
Ef rekstraraðili gerir ekki upp losunarheimildir innan frestsins ber Umhverfis- og orkustofnun að leggja á stjórnvaldssekt.
Framkvæmd kerfisins á Íslandi
Kerfið er innleitt með lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Umhverfis- og orkustofnun er lögbært stjórnyfirvald ETS kerfisins á Íslandi og fer með framkvæmd laganna.
Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að:
- veita losunarleyfi.
- hafa umsjón með skráningarkerfi með losunarheimildir.
- beita þvingunarúrræðum þegar það á við.
- taka ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og aðlaganir á úthlutun.
- tryggja að aðilar innan kerfisins uppfylli kröfur um vöktun og skýrslugjöf.
Flug í ETS kerfinu
Flug hefur fallið undir ETS kerfið frá árinu 2012 og íslensk flugfélög hafa heyrt undir kerfið frá upphafi.
ETS kerfið nær til flugs:
- á milli flugvalla innan EES.
- frá flugvöllum innan EES til flugvalla í Bretlandi og Sviss.
Flugrekendur þurfa að standa skil á losunarheimildum vegna losunar á ofangreindum flugleiðum. Þegar losun er meiri en sem nemur úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda þurfa flugrekendur að kaupa heimildir á markaði.
Endurgjaldslaus úthlutun losunarheimilda til flugrekenda í ETS hefur farið stigminnkandi árin 2024 og 2025 og mun slík úthlutun hætta frá og með árinu 2026. Á árunum 2024-2030 munu flugrekendur þó geta sótt um úthlutun sérstakra losunarheimilda sem byggja á hversu mikið af sjálfbæru flugeldsneyti þeir nota í flugferðum sem heyra undir ETS kerfið.
Ef flugrekandi gerir ekki upp losunarheimildir á tilskyldum tímafresti ber Umhverfis- og orkustofnun, sem lögbæru stjórnvaldi, að leggja á stjórnvaldssekt.
Viðbótarúthlutun eingöngu fyrir Ísland
Íslandi er heimilt að úthluta flugrekendum auka endurgjaldslausum heimildum árin 2025 og 2026 fyrir flug til og frá Íslandi á flugleiðum sem falla undir ETS kerfið þrátt fyrir að útfösun endurgjaldslausra losunarheimilda í flugi sé lokið. Þetta er ekki viðbót við þær heimildir sem Ísland fær í sinn hlut heldur dragast viðbótarheimildir vegna flugs frá þeim losunarheimildum sem íslenska ríkið myndi annars bjóða upp á uppboði.
Viðbótarúthlutunin er háð því að flugrekandi hafi skilað inn vottaðri kolefnishlutleysisáætlun. Ef flugrekandi fylgir ekki áætluninni skal Umhverfis- og orkustofnun gera kröfu um að losunarheimildunum sé skilað.
Jafnræðisregla gildir milli flugfélaga á sömu leiðum.
Þetta fyrirkomulag er tímabundið og ætlað að mæta sérstöðu Íslands sem landfræðilega afskekkt eyja.
Mynd með frétt: CC BY 4.0 eftir 4300streetcar