Hefurðu skoðað Orkuspá Íslands?

Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Losunarheimildir flugrekenda í ETS kerfinu

Ef flugrekandi gerir ekki upp losunarheimildir fyrir 30. september ár hvert ber Umhverfis- og orkustofnun að leggja á stjórnvaldssekt.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eða ETS kerfið (e. Emissions Trading System), byggir á því að tiltekin starfsemi á EES svæðinu þurfi losunarheimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstraraðilar sem falla undir kerfið þurfa árlega að afla sér losunarheimilda í samræmi við losun síðastliðins árs og standa skil á þeim í skráningarkerfi með losunarheimildir. Hluta af þessum heimildum fá aðilar innan vissra geira endurgjaldslaust.

Skilafrestur til að standa skil á losunarheimildum er fyrir 30. september ár hvert vegan losunar ársins á undan.

Ef rekstraraðili gerir ekki upp losunarheimildir innan frestsins ber Umhverfis- og orkustofnun að leggja á stjórnvaldssekt.

Framkvæmd kerfisins á Íslandi

Kerfið er innleitt með lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Umhverfis- og orkustofnun er lögbært stjórnvald ETS kerfisins á Íslandi og fer með framkvæmd laganna.

Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að:

  • veita losunarleyfi.
  • hafa umsjón með skráningarkerfi með losunarheimildir.
  • beita þvingunarúrræðum þegar það á við.
  • taka ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og aðlaganir á úthlutun.
  • tryggja að aðilar innan kerfisins uppfylli kröfur um vöktun og skýrslugjöf.

Flug í ETS kerfinu

Flug hefur fallið undir ETS kerfið frá árinu 2012 og íslensk flugfélög hafa heyrt undir kerfið frá upphafi.

ETS kerfið nær til flugs:

  • á milli flugvalla innan EES.
  • frá flugvöllum innan EES til flugvalla í Bretlandi og Sviss.

Flugrekendur þurfa að standa skil á losunarheimildum vegna losunar á ofangreindum flugleiðum. Þegar losun er meiri en sem nemur úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda þurfa flugrekendur að kaupa heimildir á markaði.

Endurgjaldslaus úthlutun losunarheimilda til flugrekenda í ETS hefur farið stigminnkandi árin 2024 og 2025 og mun slík úthlutun hætta frá og með árinu 2026. Á árunum 2024-2030 munu flugrekendur þó geta sótt um úthlutun sérstakra losunarheimilda sem byggja á hversu mikið af sjálfbæru flugeldsneyti þeir nota í flugferðum sem heyra undir ETS kerfið.

Ef flugrekandi gerir ekki upp losunarheimildir á tilskyldum tímafresti ber Umhverfis- og orkustofnun, sem lögbæru stjórnvaldi, að leggja á stjórnvaldssekt.

Viðbótarúthlutun eingöngu fyrir Ísland

Íslandi er heimilt að úthluta flugrekendum auka endurgjaldslausum heimildum árin 2025 og 2026 fyrir flug til og frá Íslandi á flugleiðum sem falla undir ETS kerfið þrátt fyrir að útfösun endurgjaldslausra losunarheimilda í flugi sé lokið. Þetta er ekki viðbót við þær heimildir sem Ísland fær í sinn hlut heldur dragast viðbótarheimildir vegna flugs frá þeim losunarheimildum sem íslenska ríkið myndi annars bjóða upp á uppboði.

Viðbótarúthlutunin er háð því að flugrekandi hafi skilað inn vottaðri kolefnishlutleysisáætlun. Ef flugrekandi fylgir ekki áætluninni skal Umhverfis- og orkustofnun gera kröfu um að losunarheimildunum sé skilað.

Jafnræðisregla gildir milli flugfélaga á sömu leiðum.

Þetta fyrirkomulag er tímabundið og ætlað að mæta sérstöðu Íslands sem landfræðilega afskekkt eyja.

Mynd með frétt: CC BY 4.0 eftir 4300streetcar

Fleiri fréttir

Skoða
1. desember 2025
Orkuspá Íslands 2025 - 2050: Mikil óvissa framundan og þörf á skýrri stefnumörkun 
Ný orkuspá fyrir Ísland, unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofun, og Raforkueftirlitinu, sýnir að fram undan eru umtalsverðar áskoranir og mikil óvissa í þróun raforkumála. Orkuspáin var kynnt í Hörpu þann 1. desember. Spáin gerir ráð fyrir hægari aukningu í raforkunotkun en áður var talið. Ástæður eru meðal annars seinkanir í virkjunarframkvæmdum, óvissa um uppbyggingu vindorku, og samdráttur í eftirspurn stórnotenda, einkum í kísilmálm- og gagnaversiðnaði.  Aukning í framboði raforku verður því hægari en áður var spáð. Þá hafa bilanir, tollar og breytt alþjóðlegt efnahagsumhverfi áhrif á markaðinn. Hægari uppbygging nýrra viðskiptavina eykur enn á óvissuna.  Þrátt fyrir þetta má sjá jákvæða þróun í orkuskiptum innanlands, þar sem þau hafa þegar skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem vaxtatækifæri eru til staðar hjá gagnaverum og nýr iðnaður er að vaxa. Hins vegar er ljóst að markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2030 munu ekki nást án frekari aðgerða og skýrari stefnumörkunar.  Orkuspánni er ætlað að varpa ljósi á stöðu og þróun orkumála á Íslandi og skapa um leið umræðu um orkumál.   „Þessi spá sýnir meiri óvissu en oft áður, en um leið ýmis tækifæri til að lágmarka hana og mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið um orkuskipti og hagvöxt. Það er ljóst að öflugt flutningskerfi raforku mun leika lykilhlutverk í því að ná þessum markmiðum,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.    Mynd: Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar. „Orkuspá Íslands er ekki pólitísk yfirlýsing, hún er verkfæri. Hún er landakort sem gefur okkur innsýn inn í hvað er framundan. Og eins og allir vita að þá eru góð landakort verkfæri sem gera okkur kleift að ná áfangastað á öruggan hátt,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis og orkustofnunar.  Um er að ræða bæði grunn- og háspá, sem skiptist í raforku-, orkuskipta- og jarðvarmaspá. Hægt er að nálgast helstu niðurstöður á vefnum orkuspaislands.is, sem Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagmála opnaði á kynningarfundinum. Mynd: Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gerð orkuspár Íslands er afrakstur náinnar samvinnu Landsnets, Umhverfis- og orkustofnunar og Raforkueftirlitsins. Þetta samstarf tryggir að spáin byggi á traustum grunni, sameiginlegri þekkingu og heildstæðu yfirliti yfir þróun orkumála í landinu. Slík samvinna er lykilforsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um orkuskipti, uppbyggingu innviða og framtíðarhagvöxt.   
27. nóvember 2025
Viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans 2025
Í tilefni Loftslagsdagsins þann 1. október 2025, veitti Umhverfis- og orkustofnun í annað sinn viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans. Fyrsta viðurkenningaútgáfan fór fram árið 2024 og markaði upphaf hvatakerfis sem ætlað er að styðja við aðgerðina Full orkuskipti ríkisflota og samgönguþjónustu fyrir 2030. Markmiðið er skýrt, að allar fólks- og sendibifreiðar í eigu og notkun ríkisins verði alfarið knúnar endurnýjanlegri, íslenskri orku í lok árs 2029. Rafknúnar samgöngur hafa í dag reynst hagkvæmar, áreiðanlegar og vel til þess fallnar að sinna fjölbreyttum verkefnum ríkisstofnana. Aðgerðin og hvatakerfið Aðgerðin var unnin í samstarfi við Bílgreinasambandið, sem hefur staðfest að tæknilegir annmarkar standi ekki í vegi fyrir orkuskiptum í flokki fólks- og sendibíla á næstu árum. Nýjar gerðir rafbíla munu áfram styrkja innleiðinguna fram til ársins 2030. Til að hvetja til framfara fylgist Umhverfis- og orkustofnun með hlutfalli hreinorkubíla í flotum stofnana út frá gögnum Samgöngustofu. Fyrir hvert árangursþrep fá stofnanir viðurkenningar á veggspjaldi með skafmiðum: brons (30%), silfur (60%), gull (90%) og platína (100%). Vinna er hafin við endurbætur á Grænu skrefunum og er stefnt að því að hvatakerfi orkuskiptanna færist inn í þann ramma þegar endurbótum lýkur. Vörðum fyrir árangur í orkuskiptum er skipt niður í 4 þrep, 30, 60, 90 og 100% árangur. Bronsviðurkenningar 2025 Á Loftslagsdeginum fengu eftirfarandi stofnanir bronsdekk, sem samsvarar því að a.m.k. 30% bílaflotans sé knúinn endurnýjanlegri orku: Lögreglustjórinn á Suðurnesjum Seðlabanki Íslands Þjóðminjasafn Íslands Lögreglustjórinn á Vestfjörðum Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra Náttúruverndastofnun Íslands Viðurkenning fyrir bronsdekkið komin í hendurnar á Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þetta er annað árið í röð sem stofnanir fá viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum og sýnir áframhaldandi skuldbindingu ríkisins við sjálfbærar samgöngur. Stofnanir sem starfa við fjölbreytt og oft krefjandi verkefni hafa þannig náð markverðum árangri í átt að kolefnishlutlausum rekstri. Þau Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður og Guðmundur Lúðvík Gunnarsson framkvæmdastjórni fjármálasviðs safnsins, veittu bronsdekkinu viðtöku með bros á vör. Stoltur lögreglumaður á Ísafirði tekur við bronsdekkinu fyrir hönd embættis Lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800