Orkuspá Íslands 2025 - 2050: Mikil óvissa framundan og þörf á skýrri stefnumörkun

Ný orkuspá fyrir Ísland, unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofun, og Raforkueftirlitinu, sýnir að fram undan eru umtalsverðar áskoranir og mikil óvissa í þróun raforkumála. Orkuspáin var kynnt í Hörpu þann 1. desember.
Spáin gerir ráð fyrir hægari aukningu á almennri raforkunotkun en áður var talið. Ástæður eru meðal annars seinkanir í virkjunarframkvæmdum, óvissa um uppbyggingu vindorku, og samdráttur í eftirspurn stórnotenda, einkum í kísilmálm- og gagnaversiðnaði.
Aukning í framboði raforku verður því hægari en áður var spáð. Þá hafa bilanir, viðskiptahöft og breytt alþjóðlegt efnahagsumhverfi áhrif á markaðinn. Hægari uppbygging nýrra viðskiptavina eykur enn á óvissuna.
Þrátt fyrir þetta má sjá jákvæða þróun í orkuskiptum innanlands, þar sem þau hafa þegar skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hins vegar er ljóst að markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2030 munu ekki nást án frekari aðgerða og skýrari stefnumörkunar.
Orkuspánni er ætlað að varpa ljósi á stöðu og þróun orkumála á Íslandi og skapa um leið umræðu um orkumál.
„Þessi spá sýnir meiri óvissu en oft áður, en um leið ýmis tækifæri til að lágmarka hana og mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið um orkuskipti og hagvöxt. Það er ljóst að öflugt flutningskerfi raforku mun leika lykilhlutverk í því að ná þessum markmiðum,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.

Mynd: Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.
„Orkuspá Íslands er ekki pólitísk yfirlýsing, hún er verkfæri. Hún er landakort sem gefur okkur innsýn inn í hvað er framundan. Og eins og allir vita að þá eru góð landakort verkfæri sem gera okkur kleift að ná áfangastað á öruggan hátt,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis og orkustofnunar.
Um er að ræða bæði grunn- og háspá, sem skiptist í raforku-, orkuskipta- og jarðvarmaspá. Hægt er að nálgast helstu niðurstöður á vefnum orkuspaislands.is, sem Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagmála opnaði á kynningarfundinum.

Mynd: Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Gerð orkuspár Íslands er afrakstur náinnar samvinnu Landsnets, Umhverfis- og orkustofnunar og Raforkueftirlitsins. Þetta samstarf tryggir að spáin byggi á traustum grunni, sameiginlegri þekkingu og heildstæðu yfirliti yfir þróun orkumála í landinu. Slík samvinna er lykilforsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um orkuskipti, uppbyggingu innviða og framtíðarhagvöxt.









