Viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans 2025

Í tilefni Loftslagsdagsins þann 1. október 2025, veitti Umhverfis- og orkustofnun í annað sinn viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans. Fyrsta viðurkenningaútgáfan fór fram árið 2024 og markaði upphaf hvatakerfis sem ætlað er að styðja við aðgerðina Full orkuskipti ríkisflota og samgönguþjónustu fyrir 2030.
Markmiðið er skýrt, að allar fólks- og sendibifreiðar í eigu og notkun ríkisins verði alfarið knúnar endurnýjanlegri, íslenskri orku í lok árs 2029. Rafknúnar samgöngur hafa í dag reynst hagkvæmar, áreiðanlegar og vel til þess fallnar að sinna fjölbreyttum verkefnum ríkisstofnana.
Aðgerðin og hvatakerfið
Aðgerðin var unnin í samstarfi við Bílgreinasambandið, sem hefur staðfest að tæknilegir annmarkar standi ekki í vegi fyrir orkuskiptum í flokki fólks- og sendibíla á næstu árum. Nýjar gerðir rafbíla munu áfram styrkja innleiðinguna fram til ársins 2030.
Til að hvetja til framfara fylgist Umhverfis- og orkustofnun með hlutfalli hreinorkubíla í flotum stofnana út frá gögnum Samgöngustofu. Fyrir hvert árangursþrep fá stofnanir viðurkenningar á veggspjaldi með skafmiðum:
brons (30%), silfur (60%), gull (90%) og platína (100%).
Vinna er hafin við endurbætur á Grænu skrefunum og er stefnt að því að hvatakerfi orkuskiptanna færist inn í þann ramma þegar endurbótum lýkur.

Vörðum fyrir árangur í orkuskiptum er skipt niður í 4 þrep, 30, 60, 90 og 100% árangur.
Bronsviðurkenningar 2025
Á Loftslagsdeginum fengu eftirfarandi stofnanir bronsdekk, sem samsvarar því að a.m.k. 30% bílaflotans sé knúinn endurnýjanlegri orku:
- Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
- Seðlabanki Íslands
- Þjóðminjasafn Íslands
- Lögreglustjórinn á Vestfjörðum
- Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra
- Náttúruverndastofnun Íslands

Viðurkenning fyrir bronsdekkið komin í hendurnar á Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Þetta er annað árið í röð sem stofnanir fá viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum og sýnir áframhaldandi skuldbindingu ríkisins við sjálfbærar samgöngur. Stofnanir sem starfa við fjölbreytt og oft krefjandi verkefni hafa þannig náð markverðum árangri í átt að kolefnishlutlausum rekstri.









