Iðnaður
Í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfi)
Hverjir taka þátt?
Rúmlega 8.600 staðbundin evrópsk fyrirtæki í iðnaði og orkuvinnslu falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
- Um 71% fyrirtækjanna losa minna en 50.000 tonn koldíoxíðsígilda á ári.
- Um 22% losa 50.000-500.000 tonn á ári.
- Um 7% losa meira en 500.000 tonn.
Ísland og ETS
Ísland hefur verið virkur þátttakandi í ETS-kerfinu frá árinu 2013.
Fyrirtæki sem falla undir kerfið þurfa að vera með losunarleyfi hjá Umhverfis- og orkustofnun.
Hér á landi fellur losun koldíoxíðs og perflúorkolefna (PFC) frá álframleiðslu undir kerfið sem og koldíoxíð frá kísilmálmframleiðslu, kísiljárnframleiðslu, steinullarframleiðslu og verksmiðjum með heildarnafnvarmaafl yfir 20 MW (gagnaver (varaafl) og fiskimjölsverksmiðjum).
Á Íslandi eru tíu fyrirtæki í þessum flokkum, en sjö þeirra taka fullan þátt í ETS-kerfinu. Þau eru:
- Álverin Rio Tinto Alcan, Norðurál og Alcoa Fjarðaál
- Kísiljárnverið Elkem
- Kísilverið PCC Bakki
- Gagnaverið Verne Holdings
- Geymsla á CO₂ Carbfix
Þrjú fyrirtæki undanþegin
Eftirfarandi fyrirtæki eru undanþegin ETS-kerfinu skv. 20. gr. laga 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarhemildir. Þessir aðilar þurfa vakta losun sína, skila skýrslum til Umhverfis- og orkustofnunar og greiða losunargjald í ríkissjóð sem byggist á raunlosun þeirra.
- Fiskmjölsverksmiðja Brim á Akranesi
- Loðnuvinnslan
- Steinull
Úthlutun og uppgjör
Fyrir 30. júní ár hvert fá þeir rekstraraðilar og flugrekendur sem eiga rétt á endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað fyrir yfirstandandi ár. Í síðasta lagi 30. september ár hvert þurfa svo þeir rekstraraðilar og flugrekendur sem falla undir ETS kerfið að gera upp losun ársins á undan í skráningarkerfi með losunarheimildir.

Uppgjör losunarheimilda
Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði þurfa að gera upp losun sína árlega fyrir losun ársins á undan. Uppgjör losunarheimilda á sér stað í sérstöku skráningarkerfi með losunarheimildir.
Ein heimild samsvarar einu tonni af koldíoxíðígildum.
Ef losunin er meiri en rekstraraðilar hafa fengið úthlutað, þurfa þeir að kaupa heimildir á markaði.
Ef rekstraraðili afhendir ekki nægar heimildir, ber lögbæru yfirvaldi að leggja á stjórnvaldssekt sem nemur 100 evrum á hvert tonn sem ekki hefur verið gert upp fyrir tilskilinn tímaramma.
Útreikningar endurgjaldslausra losunarheimilda
Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði geta sótt um endurgjaldslausar losunarheimildir fyrir hluta af losun sinni.
Úthlutunin byggir á:
- sögulegri starfsemi (e. historical activity level - HAL)
- árangursviðmiðum (e. Benchmark - BM) - byggð á árangri fyrirtækja sem hafa minnkað losun mest
- leiðréttingum með kolefnislekastuðli (e. Carbon leakage exposure factor - CLEF)
- þverfaglegum leiðréttingarstuðli (e. Cross sectoral correction factor - CSCF)
Hvað er kolefnisleki?
Það er talin hætta á að ákveðin starfsemi kunni að bregðast við íþyngjandi kröfum um samdrátt í losun með því að flytjast til ríkja þar sem ekki eru gerðar sambærilegar kröfur. Þetta kallast kolefnisleki.
Starfsemi á kolefnislekalista fær fleiri endurgjaldslausar losunarheimildir en önnur starfsemi til að koma í veg fyrir kolefnisleka, þetta á meðal annars við um framleiðslu á áli, kísilmálmi og kísiljárni.

Breytingar framundan
Útfösun endurgjaldslausra losunarheimilda og CBAM-kerfið
Með innleiðingu aðlögunarkerfis við landamæri vegna kolefnis (e. Carbon Border Adjustment Mechanism – CBAM) mun úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til fyrirtækja sem eru talin viðkvæm fyrir kolefnisleka fasast út.
Til að byrja með mun það ná til framleiðslu á járni, stáli, áli og tilbúnum áburði (CBAM vörur) en búist við að það nái til fleiri geira á næstu árum.
Kerfið leggur sérstakt kolefnisgjald á innflutning CBAM vara.
Gjaldið byggist á því hversu mikið er losað við framleiðslu varanna og verði á losunarheimildum í ETS-kerfinu.
Úthlutun endurgjaldslausra heimilda lækkar árlega frá 2026 til 2034 þegar hún verður að fullu aflögð.
Orkuúttekt
Rekstraraðilar hafa til loka árs 2027 til að framkvæma orkuúttekt hjá faggildum sérfræðingi.
Vorið 2029 eru skil á skýrslu um grunngögn með umsókn um endurgjaldslausar losunarheimildir fyrir viðskiptatímabilið sem byrjar 2031. Með þessari umsókn skal sýna fram á að tilmælum í orkuúttekt hafi verið hrundið í framkvæmd.
Ef tilmælum orkuúttektar hefur ekki verið hrundið í framkvæmd skerðist úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda um 20%.
Rekstraraðilar fá árlega tækifæri til að sýna fram á að tilmælum hafi verið hrundið í framkvæmd síðar og geta þá endurheimt þessar 20% endurgjaldslausra losunarheimilda sem skertar voru.
Samantekt
- ETS-kerfið nær yfir stóran hluta evrópsks iðnaðar.
- Fyrirtækin þurfa að fylgjast með losuninni sinni, kaupa losunarheimildir ef upp á vantar eftir úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og greiða sektir ef þau standa ekki skil á uppgjöri.
- ESB vinnur nú að breytingum sem draga smám saman úr endurgjaldslausum úthlutunum og gera kerfið samræmdara og réttlátara.
Var efnið hjálplegt?
Hjálpaðu okkur að bæta gæði efnisins





