Mikil loftgæði árið 2024 - Ný ársskýrsla loftgæða komin út

Styrkur svifryks (PM₁₀ og PM₂,₅), köfnunarefnisdíoxíðs (NO₂), brennisteinsdíoxíðs (SO₂) og brennisteinsvetnis (H₂S) í andrúmslofti var undir heilsuverndarmörkum í langflestum tilvikum árið 2024.
Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Umhverfis- og orkustofnunar um loftgæði árið 2024. Einnig er hægt að skoða samantekt úr ársskýrslunni.
Í Höfnum á Reykjanesi fór sólarhringsmeðaltalsstyrkur brennisteinsdíoxíðs 5 sinnum yfir mörk og klukkustundarmeðaltalsstyrkur 29 sinnum. Ástæðan er fjöldi eldgosa á Reykjanesi árið 2024. Aðrir mælistaðir á Reykjanesi fóru ekki yfir mörk.
Í Hveragerði fór ársmeðaltalsstyrkur brennisteinsvetnis lítillega yfir mörk. Uppruni brennisteinsvetnis í Hveragerði eru jarðvarmavirkjanir í nágrenninu. Mengun af völdum brennisteinsvetnis hefur tærandi áhrif á rafbúnað en langvarandi áhrif hennar á heilsufar fólks hafa lítið verið rannsökuð.
Utan þess voru mikil loftgæði á Íslandi árið 2024. Almennt séð eru loftgæði á Íslandi meðal þeirra mestu í Evrópu.
Í heildina hafa loftgæði á Íslandi batnað með árunum, eða í það minnsta haldist tiltölulega óbreytt á langflestum stöðum.
Í ársskýrslunni er hægt að skoða allar mælingar loftmengunarefna frá upphafi á Íslandi. Þar eru loftgæðamælingar settar í samhengi við gildandi reglugerðir og gögn sett fram í formi mynda og taflna.
Ársskýrslan 2024 er áttunda samantekt sinnar tegundar á Íslandi. Henni fylgir einnig fylgiritið: Loftgæði á Íslandi – Umhverfisvísar, vöktun og uppsprettur.











