Gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsöluorkumarkaði - Verkefnaáætlun

Raforkueftirlitið hefur unnið verkáætlun fyrir gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsölumarkaði í kjölfar þess að umhverfis-, orku og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuviðskipti).
Tilgangur frumvarpsins
Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um tilteknar hátternisreglur í raforkuviðskiptum til að stuðla að gagnsæi og heiðarleika á heildsöluorkumarkaði. Jafnframt er tilgangur frumvarpsins að setja lagaramma um starfsemi viðskiptavettvangi raforku, lýsa hlutverki þeirra og skyldum sem fara með slíka starfsemi og efla eftirlit Raforkueftirlitsins.
Helstu breytingar
Lagt er til að lögfesta ákvæði að fyrirmynd nokkurra gerða Evrópusambandsins á sviði raforkuviðskipta, aðlöguð að íslenskum heildsöluorkumarkaði. Ákvæði frumvarpsins um upplýsingaskyldu og bann við markaðssvikum á sér fyrirmynd í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1227/2011 um heildstæðan og gagnsæjan heildsöluorkumarkað (REMIT-reglugerðin). REMIT-reglugerðin er rammagerð sem síðan er útfærð nánar með framseldum gerðum. Þá hefur Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) það hlutverk að tryggja samræmda túlkun og framkvæmd ákvæða með ýmsum hætti, til dæmis útgáfu leiðbeinandi tilmæla og beitingu stjórnvaldssekta.
Leiðbeinandi tilmæli veita nánari skýringar á ákvæðum laga og reglna, og eru til leiðbeininga um hvað telst til heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta. Tilmælin gefa aðilum fyrirsjáanleika um það hvernig eftirlitsyfirvöld túlka og beita ákvæðum laga og reglugerða.
Í samræmi við uppbyggingu REMIT-reglugerðarinnar og afleiddra heimilda gerir meginefni frumvarpsins ráð fyrir að lögfesta tiltekin rammaákvæði að fyrirmynd REMIT-reglugerðarinnar í lög. Í 20. gr. j. er síðan lagt til að ráðuneytið sé heimilt að útfæra nánari framkvæmd í reglugerð, og að Raforkueftirlitið skuli birta leiðbeiningar um reglufylgni við framangreind rammaákvæði.
Aðlögun að íslensku aðstæðum
Á Íslandi hefur Raforkueftirlitið eftirlit með raforkuviðskiptum og getur gefið leiðbeinandi tilmæli þar um eða beitt stjórnvaldssektum.
Sérstaða íslenska heildsöluorkumarkaðarins felst í einangruðu raforkukerfi þar sem 99.7% af framleiðslu á sér stað með endurnýjanlegri orku og stórri hlutdeild stórnotanda í samanburði við almenna notendur.
Inntak leiðbeininga ACER um túlkun og beitingu REMIT-reglugerðarinnar lúta að öðrum aðstæðum en eru til staðar hér á landi, það er viðskipti yfir landamæri þar sem hærra hlutfall óendurnýjanlegrar orku hefur áhrif á verðmyndun. Leiðbeiningar ACER veita því íslenskum markaðsaðilum takmarkaðan fyrirsjáanleika. Því er nauðsynlegt að leiðbeinandi tilmæli um ákvæði í íslenskum lögum sem eiga fyrirmynd sína að sækja til REMIT-reglugerðarinnar, séu aðlöguð að sérstöðu íslenska heildsöluorkumarkaðarins. Leiðbeiningar Raforkueftirlitsins á grundvelli 20. gr. j. munu taka mið af framangreindu.
Tækifæri til samráðs
Raforkueftirlitið upplýsir hér með hagsmunaaðila um verkáætlun eftirlitsins og tækifæri til samráðs við gerð leiðbeininga á grundvelli 6. gr. frumvarpsins. Verkáætluninni hefur verið skipt upp í fjóra áfanga, skipt upp eftir efnistökum.











