Til baka

27 febrúar 2025

Hvernig verða loftgæðin á morgun?

Umhverfis- og orkustofnun hefur tekið í notkun líkan sem spáir fyrir um loftgæði á höfuðborgarsvæðinu tvo daga fram í tímann.

Nýja spálíkanið er mikil framför í miðlun upplýsinga um loftgæði. Hingað til hefur eingöngu verið hægt að sjá mælingar á loftgæðum þar sem nýjustu tölur eru 10 mínútna gamlar.

Spá um mengun frá umferð

Spálíkanið reiknar mengun fyrir allt höfuðborgarsvæðið út frá umferðarmagni og umferðarhraða á hverjum einasta götulegg. Loftgæðaspáin sýnir því vel hvernig mengunin dreifist um svæðið.

Mengun á höfuðborgarsvæðinu er að langstærstum hluta frá bílaumferð og því er mengunin mest á þeim svæðum sem næst eru stórum umferðargötum.

Image

Spá um styrk svifryks fimmtudaginn 27. febrúar kl 18.

Á myndinni sést vel hvernig styrkur svifryks er mestur (gulur og rauður litur) í nágrenni við stórar umferðaræðar. Einnig sést að mengun er talsvert minni (grænn litur) á svæðum sem eru fjær stórum umferðaræðum. Á svæðum sem eru grá er gert ráð fyrir mjög lítilli mengun.

Veður er ráðandi þáttur í dreifingu loftmengunar. Veðurspáin fyrir það tímabil sem sjá má á meðfylgjandi mynd gerði ráð fyrir hægri suðaustan átt og því er gert ráð fyrir að mengunin dreifst í norðvestur frá helstu umferðaræðum.

Hvar er best að stunda útivist?

Loftgæðaspáin ætti að nýtast vel þeim hópum sem eru viðkvæmir fyrir loftmengun.

Á myndinni má til dæmis sjá að á svæðum eins og Laugardal og Fossvogsdal er mengun mun minni en við miklar umferðaræðar og því heppilegra að stunda útivist á þannig svæðum.

Mengun frá jarðhitavirkjunum og stóriðju

Líkanið sýnir einnig gróflega dreifingu brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og dreifingu brennisteinsdíoxíðs frá stóriðju á Suðvesturlandi.

Loftgæðaspáin er aðgengileg á spa.loftgaedi.is og í gegnum loftgaedi.is

Image

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði spálíkanið

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði spálíkanið formlega í heimsókn hjá Umhverfis- og orkustofnun á Suðurlandsbraut þann 24. febrúar 2025.

óhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, virða fyrir sér nýtt spálíkan um loftgæði.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í teymi loftgæða og losunarheimilda, virða fyrir sér nýtt spálíkan um loftgæði.

Við erum á samfélagsmiðlum

Facebook merki

Umhverfis- og orkustofnun

Suðurlandsbraut 24

108 Reykjavík

--

Rangárvellir 2, hús 8

603 Akureyri

Hafa samband

Netfang: uos@uos.is

Sími: 569 6000

Opið fyrir símtöl milli kl. 8:30 og 15 alla virka daga

Kennitala: 7009241650