Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Hvernig verða loftgæðin á morgun?

Skólavörðuholt séð úr lofti

Umhverfis- og orkustofnun hefur tekið í notkun líkan sem spáir fyrir um loftgæði á höfuðborgarsvæðinu tvo daga fram í tímann.

Nýja spálíkanið er mikil framför í miðlun upplýsinga um loftgæði. Hingað til hefur eingöngu verið hægt að sjá mælingar á loftgæðum þar sem nýjustu tölur eru 10 mínútna gamlar.

Spá um mengun frá umferð

Spálíkanið reiknar mengun fyrir allt höfuðborgarsvæðið út frá umferðarmagni og umferðarhraða á hverjum einasta götulegg. Loftgæðaspáin sýnir því vel hvernig mengunin dreifist um svæðið.

Mengun á höfuðborgarsvæðinu er að langstærstum hluta frá bílaumferð og því er mengunin mest á þeim svæðum sem næst eru stórum umferðargötum.

Image

Spá um styrk svifryks fimmtudaginn 27. febrúar kl 18.

Á myndinni sést vel hvernig styrkur svifryks er mestur (gulur og rauður litur) í nágrenni við stórar umferðaræðar. Einnig sést að mengun er talsvert minni (grænn litur) á svæðum sem eru fjær stórum umferðaræðum. Á svæðum sem eru grá er gert ráð fyrir mjög lítilli mengun.

Veður er ráðandi þáttur í dreifingu loftmengunar. Veðurspáin fyrir það tímabil sem sjá má á meðfylgjandi mynd gerði ráð fyrir hægri suðaustan átt og því er gert ráð fyrir að mengunin dreifst í norðvestur frá helstu umferðaræðum.

Hvar er best að stunda útivist?

Loftgæðaspáin ætti að nýtast vel þeim hópum sem eru viðkvæmir fyrir loftmengun.

Á myndinni má til dæmis sjá að á svæðum eins og Laugardal og Fossvogsdal er mengun mun minni en við miklar umferðaræðar og því heppilegra að stunda útivist á þannig svæðum.

Mengun frá jarðhitavirkjunum og stóriðju

Líkanið sýnir einnig gróflega dreifingu brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og dreifingu brennisteinsdíoxíðs frá stóriðju á Suðvesturlandi.

Loftgæðaspáin er aðgengileg á spa.loftgaedi.is og í gegnum loftgaedi.is

Image

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði spálíkanið

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði spálíkanið formlega í heimsókn hjá Umhverfis- og orkustofnun á Suðurlandsbraut þann 24. febrúar 2025.

óhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, virða fyrir sér nýtt spálíkan um loftgæði.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í teymi loftgæða og losunarheimilda, virða fyrir sér nýtt spálíkan um loftgæði.

Fleiri fréttir

Skoða
7. nóvember 2025
Flokkar vinnustaðurinn þinn Allan hringinn?
Má bæta flokkun á þínum vinnustað? Við getum hjálpað!   Kynningarátakið Allan hringinn er hafið. Markmið átaksins er að hvetja vinnustaði til að flokka úrgang betur og veita starfsfólki og stjórnendum ráðleggingar til að bæta flokkun. Sjá nánar á allanhringinn.is   Allan hringinn er samstarfsverkefni á vegum stofnanna, sveitarfélaga, rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu. Á vefsíðunni má finna:    Tékklista til að kanna hvernig vinnustaðurinn stendur sig í flokkun   Upplýsingar um hvernig megi spara pening með því að flokka   Fræðslu um hvaða flokka úrgangs er skylt að flokka skv. lögum   Myndbönd sem kynna fyrirtæki sem eru fyrirmyndir í flokkun   Samræmdar merkingar til notkunar á flokkunarílát   Hagnýt ráð hvernig megi hefja eða bæta flokkun á vinnustaðnum   Dæmi um það hvernig megi koma flokkunarílátum snyrtilega fyrir   Stjórnendur fyrirtækja geta fundið myndir og leiðbeiningar um flokkunartunnur á allanhringinn.is. Fólk flokkar betur heima en í vinnunni Í ár er Allan hringinn kynningarátaki beint til vinnustaða. Markmið verkefnisins árið 2025 er að fræða og aðstoða vinnustaði landsins við að bæta sína flokkun á þeim úrgangi sem verður til hjá þeim. Þar með styrkja hringrásarhagkerfið í íslensku atvinnulífi. Á vefsíðunni má meðal annars finna fjöldann allan af upplýsingum og ráðleggingum sem byggja á niðurstöðum könnunar sem var send til stjórnenda fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka. Flokkar vinnustaðurinn þinn Allan hringinn? Með að „flokka allan hringinn“ er átt við að flokka á þann hátt að sem mest af efnum og auðlindum sem finna má í úrganginum haldist í hringrásinni. Að flokka úrgang vel er grundvallaratriði í úrgangsmeðhöndlun til að halda efnum í hringrás innan hagkerfisins. Samstarfsaðilar Allan hringinn verkefnið er samstarfsverkefni Umhverfis- og orkustofnunar, Úrvinnslusjóðs, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, SORPU, Terra, Hringrásar og Grænna skáta. Auglýsingastofan ENNEMM vann hönnun og framleiðslu efnis fyrir verkefnið Allan hringinn 2025.  Allan hringinn á heimilum 2023 Árið 2023 tóku í gildi lög sem skylduðu einstaklinga og lögaðila (alla vinnnustaði) til að flokka heimilisúrgang sinn í a.m.k. sjö flokka.   Það ár fór Allan hringinn í kynningarátak sem beindist að einstaklingum og heimilum. Þá var verið að kynna þær breytingar sem tóku gildi 2023 í kjölfar gildistöku nýrra laga og hvetja landsmenn alla til að taka þátt í að mynda hringrásarhagkerfi á Íslandi af fullum krafti. Úrgangur sem auðlind Flokka þarf úrgang meira og betur svo hægt sé að endurvinna og endurnýta hann. Hringrásarhugsun þarf við hönnun og vöruþróun og fyrst og fremst huga alls staðar í ferlinu hvar sé hægt að lágmarka sóun og koma í veg fyrir myndun úrgangs. Við þurfum að líta á úrganginn okkar sem auðlind sem við getum endurunnið eða endurnýtt á annan hátt, en ekki efni til förgunar. Tökum öll höndum saman og stuðlum að hringrásarhagkerfi allan hringinn!
3. nóvember 2025
Mikil loftgæði árið 2024 - Ný ársskýrsla loftgæða komin út
Styrkur svifryks (PM₁₀ og PM₂,₅), köfnunarefnisdíoxíðs (NO₂), brennisteinsdíoxíðs (SO₂) og brennisteinsvetnis (H₂S) í andrúmslofti var undir heilsuverndarmörkum í langflestum tilvikum árið 2024. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Umhverfis- og orkustofnunar um loftgæði árið 2024. Einnig er hægt að skoða samantekt úr ársskýrslunni. Í Höfnum á Reykjanesi fór sólarhringsmeðaltalsstyrkur brennisteinsdíoxíðs 5 sinnum yfir mörk og klukkustundarmeðaltalsstyrkur 29 sinnum. Ástæðan er fjöldi eldgosa á Reykjanesi árið 2024. Aðrir mælistaðir á Reykjanesi fóru ekki yfir mörk. Í Hveragerði fór ársmeðaltalsstyrkur brennisteinsvetnis lítillega yfir mörk. Uppruni brennisteinsvetnis í Hveragerði eru jarðvarmavirkjanir í nágrenninu. Mengun af völdum brennisteinsvetnis hefur tærandi áhrif á rafbúnað en langvarandi áhrif hennar á heilsufar fólks hafa lítið verið rannsökuð. Utan þess voru mikil loftgæði á Íslandi árið 2024. Almennt séð eru loftgæði á Íslandi meðal þeirra mestu í Evrópu. Í heildina hafa loftgæði á Íslandi batnað með árunum, eða í það minnsta haldist tiltölulega óbreytt á langflestum stöðum. Í ársskýrslunni er hægt að skoða allar mælingar loftmengunarefna frá upphafi á Íslandi. Þar eru loftgæðamælingar settar í samhengi við gildandi reglugerðir og gögn sett fram í formi mynda og taflna. Ársskýrslan 2024 er áttunda samantekt sinnar tegundar á Íslandi. Henni fylgir einnig fylgiritið: Loftgæði á Íslandi – Umhverfisvísar, vöktun og uppsprettur.
24. október 2025
Uppgjör og úthlutun losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir
Þann 30. september síðastliðinn rann út frestur rekstraraðila, sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið), til að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2024, það er uppgjörsfrestur. Alls áttu 17 aðilar sem falla undir ETS-kerfið á Íslandi að skila af sér losunarheimildum vegna losunar ársins 2024: sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði, fimm flugrekendur og sex skipafélög. Allir aðilar skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda innan tímafrestsins nema einn.  Áður en uppgjörið fór fram, eða 26. júní, fór fram úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til þeirra rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og flugrekenda sem höfðu rétt á slíkri úthlutun.  Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði  Sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Eru þetta þrjú álver, eitt kísilver, eitt járnblendiver og eitt gagnaver. Alls skiluðu rekstraraðilarnir af sér 1.899.154 losunarheimildum, en losun frá staðbundnum iðnaði jókst um 4,2% á milli 2023 og 2024.  Alls fengu fimm rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað þann 26. júní síðastliðinn og var 1.460.661 losunarheimild úthlutað. Breytingar á heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda til einhverra rekstraraðila geta enn átt sér stað vegna breytinga á starfsemisstigi, það er framleiðslu, árið 2024. Þeir rekstraraðilar gætu því átt von á úthlutun fleiri heimilda eða þurft að skila af sér.   Flugrekendur  Fimm flugrekendur áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Einn flugrekandi skilaði ekki af sér nægum fjölda losunarheimilda. Heildarlosun frá flugrekendum sem gera upp í ETS-kerfinu á Íslandi var 624.982 tonn CO₂, en flugrekendur skiluðu af sér alls 460.117 losunarheimildum. Losun frá flugrekendum jókst um 2,5% á milli 2023 og 2024.  Alls fengu þrír flugrekendur úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum þann 26. júní síðastliðinn og var 113.444 losunarheimildum úthlutað. Heimilt er að úthluta viðbótarheimildum endurgjaldslaust til flugrekenda sem fljúga til og frá Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en úthlutun á þeim heimildum hefur ekki átt sér stað.  Skipafélög  Í ár þurftu skipafélög í fyrsta skipti að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, en sjóflutningar féllu undir ETS-kerfið frá 1. janúar 2024. Skyldan til að skila af sér losunarheimildum er innleidd í þrepum, en skipafélög áttu að skila af sér losunarheimildum sem jafngiltu 40% af vottaðri losun þeirra árið 2024. Að auki þurfa skipafélög að skila af sér 5% færri losunarheimildum vegna skipa með ísflokk til ársins 2030. Heildarlosun innan ETS-kerfisins frá skipafélögum sem gera upp í því á Íslandi var 98.747 tonn CO₂, en skipafélögin höfðu skyldu til að skila af sér alls 37.989 losunarheimildum vegna þeirrar losunar. Öll skipafélög skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda. 
23. október 2025
Gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsöluorkumarkaði - Verkefnaáætlun
Raforkueftirlitið hefur unnið verkáætlun fyrir gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsölumarkaði í kjölfar þess að umhverfis-, orku og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuviðskipti). Tilgangur frumvarpsins Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um tilteknar hátternisreglur í raforkuviðskiptum til að stuðla að gagnsæi og heiðarleika á heildsöluorkumarkaði. Jafnframt er tilgangur frumvarpsins að setja lagaramma um starfsemi viðskiptavettvangi raforku, lýsa hlutverki þeirra og skyldum sem fara með slíka starfsemi og efla eftirlit Raforkueftirlitsins. Helstu breytingar Lagt er til að lögfesta ákvæði að fyrirmynd nokkurra gerða Evrópusambandsins á sviði raforkuviðskipta, aðlöguð að íslenskum heildsöluorkumarkaði. Ákvæði frumvarpsins um upplýsingaskyldu og bann við markaðssvikum á sér fyrirmynd í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1227/2011 um heildstæðan og gagnsæjan heildsöluorkumarkað (REMIT-reglugerðin). REMIT-reglugerðin er rammagerð sem síðan er útfærð nánar með framseldum gerðum. Þá hefur Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) það hlutverk að tryggja samræmda túlkun og framkvæmd ákvæða með ýmsum hætti, til dæmis útgáfu leiðbeinandi tilmæla og beitingu stjórnvaldssekta. Leiðbeinandi tilmæli veita nánari skýringar á ákvæðum laga og reglna, og eru til leiðbeininga um hvað telst til heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta. Tilmælin gefa aðilum fyrirsjáanleika um það hvernig eftirlitsyfirvöld túlka og beita ákvæðum laga og reglugerða. Í samræmi við uppbyggingu REMIT-reglugerðarinnar og afleiddra heimilda gerir meginefni frumvarpsins ráð fyrir að lögfesta tiltekin rammaákvæði að fyrirmynd REMIT-reglugerðarinnar í lög. Í 20. gr. j. er síðan lagt til að ráðuneytið sé heimilt að útfæra nánari framkvæmd í reglugerð, og að Raforkueftirlitið skuli birta leiðbeiningar um reglufylgni við framangreind rammaákvæði. Aðlögun að íslensku aðstæðum Á Íslandi hefur Raforkueftirlitið eftirlit með raforkuviðskiptum og getur gefið leiðbeinandi tilmæli þar um eða beitt stjórnvaldssektum. Sérstaða íslenska heildsöluorkumarkaðarins felst í einangruðu raforkukerfi þar sem 99.7% af framleiðslu á sér stað með endurnýjanlegri orku og stórri hlutdeild stórnotanda í samanburði við almenna notendur. Inntak leiðbeininga ACER um túlkun og beitingu REMIT-reglugerðarinnar lúta að öðrum aðstæðum en eru til staðar hér á landi, það er viðskipti yfir landamæri þar sem hærra hlutfall óendurnýjanlegrar orku hefur áhrif á verðmyndun. Leiðbeiningar ACER veita því íslenskum markaðsaðilum takmarkaðan fyrirsjáanleika. Því er nauðsynlegt að leiðbeinandi tilmæli um ákvæði í íslenskum lögum sem eiga fyrirmynd sína að sækja til REMIT-reglugerðarinnar, séu aðlöguð að sérstöðu íslenska heildsöluorkumarkaðarins. Leiðbeiningar Raforkueftirlitsins á grundvelli 20. gr. j. munu taka mið af framangreindu. Tækifæri til samráðs Raforkueftirlitið upplýsir hér með hagsmunaaðila um verkáætlun eftirlitsins og tækifæri til samráðs við gerð leiðbeininga á grundvelli 6. gr. frumvarpsins. Verkáætluninni hefur verið skipt upp í fjóra áfanga, skipt upp eftir efnistökum.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800