Til baka
14. apríl 2025
Íslendingar æfa björgun og viðbrögð við olíuleka á Norðurskautinu

Fulltrúar Umhverfis- og orkustofnunar og Landhelgisgæslunnar tóku þátt í alþjóðlegri æfingu í Tromsö í Noregi. Þar var björgun og viðbrögð við stórslysum á hafi æfð af þjóðum við Norðurskautið.
Poppkorn í stað olíu
Áhugaverð nýjung á æfingunni var notkun á poppkorni til að líkja eftir olíu sem lekur í sjó. Poppkornið flýtur á yfirborðinu og sést vel úr þyrlum og flugvélum, sem auðveldar þátttakendum að æfa hvernig á að kortleggja og safna menguninni saman í sérstakar olíugirðingar.

Poppkorn var notað til að líkja eftir olíu í sjónum.
Æfðu viðbrögð við skipsskaða og olíuleka
Varðskipið Þór tók þátt í æfingunni og með í áhöfninni var forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar, Gestur Pétursson. Æfingin fól bæði í sér leit og björgun vegna skipskaða og að bregðast við olíuleka – frá flutningaskipi og farþegaskipi.

Varðskipið Þór tók þátt í æfingunni og sést hér á siglingu úti fyrir Tromsö.
Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri í teymi mengunareftirlits hjá Umhverfis- og orkustofnun, og Einar Valsson, skipherra á Freyju hjá Landhelgisgæslunni, hafa tekið þátt í undirbúningi undanfarið ár. Þau tóku þátt í æfingunni frá stjórnstöð.

Olíuupptökutækið um borð í Þór.
Samstarf um öruggari og umhverfisvænni siglingar
Æfingin er hluti af samstarfi innan Arctic Coast Guard Forum, þar sem landhelgisgæslur Norðurskautsríkja vinna saman að öruggari og umhverfisvænni siglingastarfsemi á norðurslóðum. Æfingar sem þessi fara fram annað hvert ár.