Vinsamlegast athugaðu að vefurinn er í vinnslu. Ef þú sérð eitthvað sem mætti betur fara, þá máttu láta okkur vita.

Íslendingar endurnota 20 kg á ári

Hringrásarhagkerfi

Íslendingar eru sólgnir í notaðar vörur en hingað til hefur ekki verið vitað hversu mikið magn er endurnotað á hverju ári. Ný rannsókn sýnir að endurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/íbúa árið 2023.

Með sífellt vaxandi umsvifum loppumarkaða, samfélagsmiðla og aukinni umhverfisvitund almennings á Íslandi hefur markaður endurnotkunar náð fótfestu. Endurnotkun stuðlar að ríkara hringrásarhagkerfi á Íslandi. Endurnotkun er umhverfisvænni og yfirleitt hagstæðari kostur en kaup á nýjum vörum.

Umhverfisstofnun gaf út skýrslu í lok árs 2024 með niðurstöðum úr kortlagningu á endurnotkun á Íslandi árið 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem endurnotkun hefur verið mæld hér á landi á þessum skala. Skoða skýrsluna.

Hvað er endurnotkun?

Hugtakið endurnotkun er skilgreint í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 sem: „hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.“

Dæmi um endurnotkun er þegar notaðar vörur eru seldar í netsölu, sölutorgum á samfélagsmiðlum, nytjamörkuðum eða afhentar gefins á milli fólks.

Endurnotkun er hluti af úrgangsforvörnum.

Endurnotkun oftast án milliliða

Við mælingar og útreikninga á endurnotkun var notast við samevrópska aðferðarfræði. Endurnotkun var mæld fyrir vöruflokkana:

  • Húsgögn
  • Vefnaðarvörur
  • Raftæki
  • Byggingarefni
  • Annað

Notast var við gögn frá þekktum gagnalindum í bland við hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar. Til að reikna það hlutfall var send út könnun til almennings varðandi endurnotkun á þeirra heimili.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar gáfu mynd á hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar fyrir hvern vöruflokk. Þetta hlutfall var yfir 60% fyrir alla vöruflokka.

Image

Niðurstöður fyrir hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar úr könnun meðal almennings

Föt minna en 3%

Heildarendurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/mann árið 2023. Húsgögn voru stærsti hluti af endurnotkun (40%), næst byggingarefni (29%), raf- og rafeindatæki (14%), vefnaðarvara (3%) og annað (14%), miðað við þyngd.

Image

Skipting endurnotkunar niður á vöruflokka

Þegar skoðað var nánar niður á vöruflokka voru föt stærsti hlutinn af endurnotkun af vefnaðarvörum. Stór markaður hefur myndast á Íslandi fyrir endursölu á fötum og einnig fara notuð föt oft gefins. Stærstur hluti endurnotkunar á byggingarefnum var timbur.

Stækkandi markaður

Sú staðreynd að Íslendingar endurnoti um 20 kg/íbúa af vörum á ári sýnir að hér ríkir endurnotkunarmenning. Stærstur hluti endurnotkunar fer fram í gegn um milliliðalausa farvegi án endurgjalds. Endurnotkun heldur vörum lengur inni í hringrásarhagkerfinu.

Við gagnasöfnun kom í ljós að velta loppumarkaða hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum.

Miðað við þessa stigmögnun má ætla að endurnotkunarmarkaðurinn á Íslandi muni einungis styrkjast í náinni framtíð.

Tengt efni

Fleiri fréttir

Skoða
8. júlí 2025
Nýjungar á vefnum
Í upphafi árs tók Umhverfis- og orkustofnun við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Samhliða því var nýr vefur, uos.is, settur í loftið til að halda utan um sameiginleg málefni stofnunarinnar. Við höfum nú stigið næsta skref í vefþróuninni með uppfærðum og endurbættum vef sem býður upp á ýmsar gagnlegar nýjungar, auk þess sem hann hefur fengið ferskt útlit og nútímalegri ásýnd. Vinnan fór fram í samstarfi við vefstofuna Visku. Meðal helstu nýjunga: Yfirlit efnis tengt stofnuninni – þú getur nálgast allt okkar efni á einum stað, jafnvel þótt megnið af því sé vistað enn um sinn á vefum forvera okkar. Heildstæð leit – þú getur leitað í fréttum, opinberum birtingum og öðru efni á vefnum, auk þess sem við vísum í efni af öðrum vefum stofnunarinnar. Samskiptaform – ef þú átt erindi við stofnunina hvetjum við þig til að nota þar til gert form á vefnum, sem hjálpar þér við að koma erindinu í réttar hendur. Viðburðayfirlit – allar helstu upplýsingar um viðburði á vegum stofnunarinnar má nú finna á einum stað. Staða loftgæða – loftgæði í Reykjavík og á Akureyri eru sýnileg á forsíðu vefsins auk vísunar í mælistöðvar um land allt. Vefurinn er annars í stöðugri þróun og við tökum fagnandi ábendingum um það sem mætti bæta. Efni á vefum forvera okkar verður svo fasað út á næstu mánuðum og fær þá nýtt heimili á vef stofnunarinnar.
Um stofnunina
8. júlí 2025
Styrkir til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum
Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum: Hreinorku vörubifreiðar (N2 eða N3) Hreinorku hópbifreið (M2 eða M3)
4. júlí 2025
Skert þjónusta 21. júlí - 1. ágúst
Á tímabilinu 21. júlí - 1. ágúst 2025 verður lágmarksþjónusta við afgreiðslu erinda hjá Umhverfis- og orkustofnun. Við hvetjum þau sem þurfa að setja erindi í farveg að gera það fyrir eða eftir þetta tímabil.
Um stofnunina
30. júní 2025
Safír fyrstir á Íslandi til að hljóta Svansvottun samkvæmt nýjum nýbyggingarviðmiðum
Byggingaverktakinn Safír hefur stigið stórt skref í átt að sjálfbærari framtíð með aðgerðum sem stuðla að vistvænni byggingariðnaði. Um er að ræða Orkureit A sem er stærsta verkefnið hingað til sem hlýtur Svansvottun í einu lagi – og jafnframt fyrsta verkefnið á Íslandi sem hlýtur vottun samkvæmt nýjustu útgáfu Svansins fyrir nýbyggingar, útgáfu 4. Saman eru þetta fjórir reitir og yfir 400 íbúðir sem verða byggðar en nú eru íbúðir komnar í sölu fyrir A og D reit. Tímamótaverkefni Svansvottunin byggir á heildrænni nálgun á umhverfisáhrifum bygginga og tekur meðal annars til efnisvals, orkunýtni, innivistar, hringrásarhagkerfisins og fleiru. „Viðmið Svansins eru hert reglulega til að samræmast þeirri tækni og þróun sem byggist upp á markaðnum hvað varðar umhverfismál. Í þessari nýjustu útgáfu nýbyggingarviðmiðanna voru kröfurnar hertar töluvert ásamt því að nýjar kröfur bættust við. Það er því virkilega mikill sigur að vera fyrst á landinu til að hljóta Svansleyfi samkvæmt þessum nýju viðmiðum“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins. Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri Safír segir „það hafa verið mikilvægt fyrir Safír að byggja íbúðir sem standast háar kröfur um innivist ásamt því að vera leiðandi í umhverfismálum sem verða sífellt meira áberandi í byggingarframvkæmdum.“ Það er mikilvægt að fyrirtæki eins og Safír axli ábyrgð og sýni frumkvæði og leggi sitt af mörkum til að takmarka umhverfisáhrif bygginga og leiða þróunina áfram. Svanurinn kemur til móts við BREEAM Ánægjulegt er að sjá hvernig umhverfisvottanir geta unnið saman en deiliskipulag Orkureitsins hefur verið vottað samkvæmt BREEAM communities og er fyrsta verkefnið hér á landi til að hljóta einkunnina excellent.  Vottunin gerir kröfur um að reiturinn uppfylli ákveðin skilyrði sem samsvara að einhverju leyti því sem Svansvottunin leggur upp með. Þess vegna hafa frá upphafi verið settar metnaðarfullar kröfur fyrir reitinn, meðal annars um betri orkunýtni bygginga, notkun blágrænna ofanvatnslausna og vistvænt efnisval. Safír hefur tekið þessum kröfum fagnandi og gengið lengra. Fyrirtækið hefur til að mynda þegar valið álklæðningar með háu endurvinnsluhlutfalli, endurnotað timbur sem var á lóðinni fyrir og sýnt vilja til að vinna markvisst með umhverfismál á hönnunar- og framkvæmdastigum. Slíkar ákvarðanir undirstrika mikilvægi þess að byggingarverktakar taki virkan þátt í vistvænna efnisvali og sjálfbærri þróun. Frumkvæði Safírs í þessu verkefni sýnir að metnaður og ábyrgð geta skilað raunverulegum árangri – bæði fyrir umhverfið og framtíð mannvirkjageirans.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, 603 Akureyri

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík