Hefurðu skoðað Orkuspá Íslands?

Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Íslendingar endurnota 20 kg á ári

Íslendingar eru sólgnir í notaðar vörur en hingað til hefur ekki verið vitað hversu mikið magn er endurnotað á hverju ári. Ný rannsókn sýnir að endurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/íbúa árið 2023.

Með sífellt vaxandi umsvifum loppumarkaða, samfélagsmiðla og aukinni umhverfisvitund almennings á Íslandi hefur markaður endurnotkunar náð fótfestu. Endurnotkun stuðlar að ríkara hringrásarhagkerfi á Íslandi. Endurnotkun er umhverfisvænni og yfirleitt hagstæðari kostur en kaup á nýjum vörum.

Umhverfisstofnun gaf út skýrslu í lok árs 2024 með niðurstöðum úr kortlagningu á endurnotkun á Íslandi árið 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem endurnotkun hefur verið mæld hér á landi á þessum skala. Skoða skýrsluna.

Hvað er endurnotkun?

Hugtakið endurnotkun er skilgreint í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 sem: „hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.“

Dæmi um endurnotkun er þegar notaðar vörur eru seldar í netsölu, sölutorgum á samfélagsmiðlum, nytjamörkuðum eða afhentar gefins á milli fólks.

Endurnotkun er hluti af úrgangsforvörnum.

Endurnotkun oftast án milliliða

Við mælingar og útreikninga á endurnotkun var notast við samevrópska aðferðarfræði. Endurnotkun var mæld fyrir vöruflokkana:

  • Húsgögn
  • Vefnaðarvörur
  • Raftæki
  • Byggingarefni
  • Annað

Notast var við gögn frá þekktum gagnalindum í bland við hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar. Til að reikna það hlutfall var send út könnun til almennings varðandi endurnotkun á þeirra heimili.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar gáfu mynd á hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar fyrir hvern vöruflokk. Þetta hlutfall var yfir 60% fyrir alla vöruflokka.

Image

Niðurstöður fyrir hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar úr könnun meðal almennings

Föt minna en 3%

Heildarendurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/mann árið 2023. Húsgögn voru stærsti hluti af endurnotkun (40%), næst byggingarefni (29%), raf- og rafeindatæki (14%), vefnaðarvara (3%) og annað (14%), miðað við þyngd.

Image

Skipting endurnotkunar niður á vöruflokka

Þegar skoðað var nánar niður á vöruflokka voru föt stærsti hlutinn af endurnotkun af vefnaðarvörum. Stór markaður hefur myndast á Íslandi fyrir endursölu á fötum og einnig fara notuð föt oft gefins. Stærstur hluti endurnotkunar á byggingarefnum var timbur.

Stækkandi markaður

Sú staðreynd að Íslendingar endurnoti um 20 kg/íbúa af vörum á ári sýnir að hér ríkir endurnotkunarmenning. Stærstur hluti endurnotkunar fer fram í gegn um milliliðalausa farvegi án endurgjalds. Endurnotkun heldur vörum lengur inni í hringrásarhagkerfinu.

Við gagnasöfnun kom í ljós að velta loppumarkaða hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum.

Miðað við þessa stigmögnun má ætla að endurnotkunarmarkaðurinn á Íslandi muni einungis styrkjast í náinni framtíð.

Fleiri fréttir

Skoða
11. desember 2025
Skipun WACC – nefndar  
Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 12. gr. og 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, skal arðsemi flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna af flutnings- og dreifistarfsemi vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði, að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Í ákvæðinu er með nánari hætti fjallað um með hvaða hætti slík arðsemi skuli fundin út. Þá segir einnig að arðsemin skuli ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila.  Í reglugerð nr. 192/2016, frá 1. mars 2016, er með nánari hætti fjallað um það hvernig reikna skuli út veginn fjármagnskostnað sem vísað er til í raforkulögum. Jafnframt segir í reglugerðinni að Orkustofnun, nú Umhverfis – og orkustofnun, geti að fengnu áliti sérfróðra aðila og að höfðu samráði við hagsmunaaðila, sbr. 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 17. gr. raforkulaga, lagt fram tillögu til ráðherra um endurskoðun fastra matsbreytna samkvæmt reglugerðinni ef stofnunin telur tilefni til þess, s.s. vegna sérstakra aðstæðna á markaði.  Sérfróðir aðilar skv. 1. mgr. eru tilnefndir af Umhverfis- og orkustofnun og skulu þeir hafa sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og fjármagnskostnaðar. Við mat hinna sérfróðu aðila ber þeim að hafa samráð við framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet.   Forstjóri Umhverfis – og orkustofnunar og sviðsstjóri Raforkueftirlitsins hafa nú skipað sérfróða aðila í nefnd um endurskoðun fastra matsbreytna og er nefndin skipuð eftirtöldum aðilum.   Dr. Hersir Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands  Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar  Margit Johanne Robertet, forstöðumaður framtakssjóða Kviku eignastýringar   Arna G. Tryggvadóttir, sviðsstjóri endurskoðunar hjá PwC.     Samráðsfundur og gagnaskil   Samráðsfundur verður haldinn 15. janúar nk. þar sem hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum. Aðilar geta sent nefndinni erindi fyrir fundinn á raforkueftirlit@uos.is auk þess sem hagsmunaðilum er gefinn kostur á að senda gögn og greiningar til 31. janúar 2026, en bent er á að nefndin hefur einungis það lögbundna hlutverk að fjalla um fastar matsbreytur í samræmi við 7. gr. reglugerðar nr. 192/2016. Ekki er gert ráð fyrir erindum um önnur atriði.   Að loknum samráðsfundi mun nefndin hefja vinnu við að meta forsendur fyrir endurskoðun fasta matsbreytna á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lögð hafa verið fram af hálfu hagsmunaaðila. 
11. desember 2025
Auglýsing: Styrkir til nýsköpunarlausna frá iðnaði sem fellur undir ETS kerfið
Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til nýsköpunar og tækniþróunar sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið. Í heild eru 400 milljónir króna til úthlutunar  en styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að 200 milljónum króna að hámarki til allt að þriggja ára. Umsóknarfrestur er til 5. febrúar 2026 kl. 15:00. Sótt er um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís. Sækja um styrk Styrkhæfi verkefna og áherslur Styrkhæfar eru umsóknir um þróun á hvers kyns tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið. Áhersla verður lögð á verkefni sem skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Einnig verður litið til eftirfarandi þátta: að verkefnið hagnýti grunnþekkingu sem þegar er til staðar, að verkefnið beinist að aðilum sem hafa talsverða möguleika á að draga úr losun, að verkefnið hafi möguleika á að nýtast sem víðast í samfélaginu og hafi áhrif út fyrir einstaka fyrirtæki, félagasamtök og/eða stofnun. Krafa er gerð um tvo samstarfsaðila að lágmarki og skal að minnsta kosti eitt þeirra vera fyrirtæki. Horft verður til þess að forgangsraða verkefnum sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) á hverja styrkkrónu. Fyrirspurnir Almennum spurningum varðandi kallið og umsóknir sem eru í matsferli skal beint til losjodur@rannis.is.
1. desember 2025
Orkuspá Íslands 2025 - 2050: Mikil óvissa framundan og þörf á skýrri stefnumörkun 
Ný orkuspá fyrir Ísland, unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofun, og Raforkueftirlitinu, sýnir að fram undan eru umtalsverðar áskoranir og mikil óvissa í þróun raforkumála. Orkuspáin var kynnt í Hörpu þann 1. desember. Spáin gerir ráð fyrir hægari aukningu í raforkunotkun en áður var talið. Ástæður eru meðal annars seinkanir í virkjunarframkvæmdum, óvissa um uppbyggingu vindorku, og samdráttur í eftirspurn stórnotenda, einkum í kísilmálm- og gagnaversiðnaði.  Aukning í framboði raforku verður því hægari en áður var spáð. Þá hafa bilanir, tollar og breytt alþjóðlegt efnahagsumhverfi áhrif á markaðinn. Hægari uppbygging nýrra viðskiptavina eykur enn á óvissuna.  Þrátt fyrir þetta má sjá jákvæða þróun í orkuskiptum innanlands, þar sem þau hafa þegar skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem vaxtatækifæri eru til staðar hjá gagnaverum og nýr iðnaður er að vaxa. Hins vegar er ljóst að markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2030 munu ekki nást án frekari aðgerða og skýrari stefnumörkunar.  Orkuspánni er ætlað að varpa ljósi á stöðu og þróun orkumála á Íslandi og skapa um leið umræðu um orkumál.   „Þessi spá sýnir meiri óvissu en oft áður, en um leið ýmis tækifæri til að lágmarka hana og mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið um orkuskipti og hagvöxt. Það er ljóst að öflugt flutningskerfi raforku mun leika lykilhlutverk í því að ná þessum markmiðum,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.    Mynd: Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar. „Orkuspá Íslands er ekki pólitísk yfirlýsing, hún er verkfæri. Hún er landakort sem gefur okkur innsýn inn í hvað er framundan. Og eins og allir vita að þá eru góð landakort verkfæri sem gera okkur kleift að ná áfangastað á öruggan hátt,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis og orkustofnunar.  Um er að ræða bæði grunn- og háspá, sem skiptist í raforku-, orkuskipta- og jarðvarmaspá. Hægt er að nálgast helstu niðurstöður á vefnum orkuspaislands.is, sem Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagmála opnaði á kynningarfundinum. Mynd: Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gerð orkuspár Íslands er afrakstur náinnar samvinnu Landsnets, Umhverfis- og orkustofnunar og Raforkueftirlitsins. Þetta samstarf tryggir að spáin byggi á traustum grunni, sameiginlegri þekkingu og heildstæðu yfirliti yfir þróun orkumála í landinu. Slík samvinna er lykilforsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um orkuskipti, uppbyggingu innviða og framtíðarhagvöxt.   

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800