Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Jöklar á hverfandi hveli - Alþjóðlegur dagur jökla

Á síðustu áratugum hefur rýrnun jökla um allan heim aukist. Rýrnun jökla á Íslandi með því mesta sem þekkist.

Síðan jöklar á Íslandi náðu mestu útbreiðslu í lok 19. aldar hafa þeir minnkað um 20% að flatarmáli. Fram til loka 21. aldar má gera ráð fyrir að jöklar haldi áfram að hörfa og hafa sumir jöklar jafnvel horfið, eins og Okjökull suðvestan Langjökuls er dæmi um. 

Áhrif loftslagsbreytinga

Þegar jöklar hörfa stækka jökullón, ný myndast og önnur hverfa. Ár skipta um farvegi og rennsli vatnsfalla breytast. Landris eykst í nágrenni jökla, fjallshlíðar verða óstöðugar og hætta á skriðuföllum og aurskriðum eykst.

Líklegt er að með hlýnandi loftslagi aflagist árstíðarsveifla afrennslis, hlutfall rigningar í úrkomu aukist að vetri og leysingaflóð að vori minnki að sama skapi. Afrennsli frá jöklum mun aukast, sérstaklega yfir sumartímann, auk þess sem það mun líklega hefjast fyrr að vori og ná lengra fram á haust. Í dragám geta orðið veruleg vetrarflóð. 

Jöklar og afdrif þeirra hafa því bein áhrif á gæði vatns og sjálfbærni þess. Umhverfis- og orkustofnun hefur það hlutverk að innleiða stjórnsýsluramma sem tryggja á góð gæði vatns og sjálfbærni vatns til framtíðar. Hörfun jökla er þar beinn áhrifaþáttur.

Image

Framtíð íslenskra jökla

Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis Ísland. Útreikningar byggðir á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar benda til þess að ef tekst að takmarka hlýnun á 21. öld við 2°C mun rýrnun íslenskra jökla til lok aldarinnar þó verða umtalsverð eða á bilinu 40-50%. Ef hlýnunin verður meiri, verður enn minna eftir af jöklunum við lok aldarinnar

Fyrsti alþjóðadagur jökla

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfandi hveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði héðan í frá sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til þess að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Image

Viðburðir

Í tilefni alþjóðadags jökla og vatns fara fram þrír viðburðir föstudaginn 21. mars.

Í Grósku verður fundur kl. 10:00 í samstarfi Landsvirkjunar, Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans undir yfirskriftinni: Jöklar, orka og vísindi.

Klukkan 14:00 verður haldinn viðburður í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem flutt verða nokkur erindi um jökla og jöklabreytingar og tilkynnt verður um vinningshafa í samkeppni barna og ungmenna um verk tengd jöklum. Að fundinum standa Jöklarannsóknafélags Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrufræðistofnun, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Náttúruverndarstofnun, Náttúruminjasafn Íslands og Íslenska vatnafræðinefndin.

Í beinu framhaldi af fundinum í Veröld verður opnuð kl. 15:30 sýning um jökla í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu.

Öll velkomin.

Fleiri fréttir

Skoða
9. nóvember 2025
10 tonn af textílúrgangi á dag
Íslendingar losa sig við hátt í 10 tonn af fötum á dag. Gæði á fötum fara dvínandi. Aðeins um lítill hluti af fötunum kemst í endurnotkun innanlands. Saman gegn sóun og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa blásið til herferðar til að vekja athygli á textílvandanum. Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til að: Kaupa minna Nýta betur þann textíl sem það á Ókeypis sendingarkostnaður, rándýr langtímaáhrif Frá árinu 2023 hafa sveitarfélög borið ábyrgð á því að safna fötum, skóm og öðrum textíl sem íbúar vilja losa sig við. Söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun á þessum úrgangi hefur reynst sveitarfélögunum mjög íþyngjandi og kostnaðarsöm. Þessum kostnaði væri betur varið í önnur verkefni innan sveitarfélaganna. Föt í verri gæðum Eftirspurn eftir notuðum fötum hefur dregist mikið saman á heimsvísu. Ástæðuna má rekja til uppgangs hraðtísku og aukinna fatakaupa. Á sama tíma og magnið hefur aukist hafa gæði fatanna versnað. Í dag endar hluti notaða textílsins sem sendur er úr landi í brennslu til orkuendurnýtingar. Það er textíll sem hvorki er hæfur til endurnotkunar né endurvinnslu vegna gæða. Brennsla til orkuendurnýtingar er skárri leið fyrir notuð föt en urðun. Besta leiðin er auðvitað að minnka sóun og nýta fötin sín vel og lengi. Mikilvægt að flokka Enn er mikilvægt að fólk haldi áfram að flokka textíl rétt. Endurvinnsla, endurnotkun og endurnýting á textíl er mun skárri leið fyrir umhverfið en að láta urða hann. Hvað er hægt að gera? Það er margt sem við getum gert til að vera partur af lausninni. Það mikilvægasta er að draga úr neyslu þar sem innkaupin ráðast í dag að miklu leyti af löngun en ekki þörfum. Einnig eru til ýmis ráð til að auka líftíma fatnaðar, sem samræmist hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Kaupa minna af fötum Nota fötin lengur Kaupa notað Leigja eða fá lánaðar flíkur við sérstök tilefni Koma fötum í áframhaldandi notkun Skila fötum á rétta staði Eftirspurn eftir notuðum fötum hefur dregist mikið saman á heimsvísu.
13. nóvember 2025
Er örplast á sjávarbotninum umhverfis Ísland?
Umhverfis- og orkustofnun lét nýverið taka setsýni á fimm stöðum á sjávarbotni í Faxaflóa til þess að kanna umfang örplasts.  Niðurstöður eru væntanlegar á næsta ári. Sýnatökustaðir Sýni voru tekin á fimm stöðum í Faxaflóa. Meira örplast frá skólpi Árið 2023 var gerð forkönnun á umfangi örplasts í sjávarseti í Faxaflóa. Þá sýndu niðurstöður að magn og gerðir örplastsagna voru mjög breytilegar á milli sýnatökustaða. Fjöldi örplastagna var hæstur á stöðvum 3 og 5. Stöð 3 er við skólpútrás.   Helstu plastgerðir sem fundust voru: 74% PP - Til dæmis notað í matarumbúðir, húsgögn og textíl. 16% PE - Til dæmis notað í eldhúsáhöld, leikföng, rör og plastpoka. 5% akrýlöt/pólýúretan/lakk. 2% PS - Til dæmis frauðplast. 1% manngerður sellulósi. 1% EVA - Mjúkt plast, til dæmis notað í sandala, jógamottur, baðleikföng og einangrun í snúrum. 1% PVC - Hart plast, til dæmis notað í leikföng, gólfefni, skó, töskur. 1% PA - Til dæmis notað í nælonsokkabuxur og veiðafæri. Stöðvar 3 og 5 sýndu meiri fjölbreytileika á plastgerðum, þar á meðal akrýlöt/pólýúretan/lakk, PVC, PA og manngerðan sellúlósa. Nánar um mismunandi tegundir plasts hjá Sænsku efnastofnuninni. Sérfræðingar á rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum sáu um sýnatökurnar. Örplast víða í vistkerfinu Aðrar rannsóknir á örplasti á Íslandi hafa sýnt að það finnst víða, meðal annars í kræklingi, maga fýla og fiska (þorski og ufsa). Þetta bendir til þess að örplast sé nú þegar til staðar í vistkerfum við Ísland, þó að umfang þess sé lítt þekkt og mælingar á örplasti í botnseti hafi verið mjög fáar. Sjávarbotninn gefur góða mynd Það er mikilvægt að fylgjast með örplasti á sjávarbotni því mikið af því örplasti sem fer í hafið sekkur á botninn og safnast þar fyrir. Þannig virkar sjávarbotninn eins og geymsla fyrir örplast og sýnir hvernig mengunin hefur safnast upp og ástand sjávarins til lengri tíma. Með vöktuninni er hægt að: Fá vísbendingar um mengunarstig og þróun þess yfir tíma. Greina mögulegar uppsprettur, til dæmis frá skólpi eða iðnaði við strendur. Meta áhrif á lífríki, þar sem botndýr geta innbyrt örplast sem síðan fer upp fæðukeðjuna. Styðja við stefnumótun og aðgerðir til að draga úr plastmengun í hafinu. Framkvæmd og greining Sýnatökurnar voru framkvæmdar af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum. Sýnin eru svo send til Bretlands á sérhæfða rannsóknastofu Cefas (Centre for Environment Fisheries and Aquaculture Science) sem sér um greiningar á örplastinu í sýnunum. Von er á niðurstöðum á næsta ári. Plastflaska sem fannst í strandhreinsun í Engey árið 2023. Ráð til að sporna við örplasti Hvað geta einstaklingar gert til að sporna við örplasti í umhverfinu? Minnka plastnotkun almennt. Velja fjölnota poka, drykkjarflöskur og matarílát í stað einnota plastvara. Forðast vörur í óþarfa plastumbúðum. Þvottur og fataval. Gerviefni eins og pólýester, nælon og akrýl losa örplast í þvotti. Velja frekar fatnað úr náttúrulegum trefjum (bómull, ull, hör) þegar þess er kostur. Rétt flokkun og förgun úrgangs. Tryggja að plast fari í endurvinnslu og ekki út í náttúruna. Ekki sturta bleyjum, blautklútum eða hreinlætisvörum í klósettið — mörg þessara efna innihalda plast. Vanda val á snyrtivörum. Velja vörur merktar microplastic-free eða biodegradable. Forðast skrúbbvörur með plastögnum (oft merkt sem „polyethylene“ eða „polypropylene“ í innihaldslýsingu).
13. nóvember 2025
Arctic Bio Hack: Íslenska sauðkindin í brennidepli
Íslenska sauðkindin var í sviðsljósinu í norrænu hugmyndahraðhlaupi á sviði líftækni og hringrásarlausna sem fór fram í Reykjavík um miðjan október. Yfirskriftin var Arctic Bio Hack. Þátttakendur frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og Noregi unnu að nýjum leiðum til að nýta hliðarafurðir úr landbúnaði, með áherslu á ull, blóð, bein og innyfli. Markmiðið var að breyta „úrgangi“ í verðmæti og finna loftslagsvænar og staðbundnar lausnir með verðmætasköpun að leiðarljósi. Nýstárlegar hugmyndir til að fullnýta afurðir Hugmyndirnar sem spruttu upp á viðburðinum spönnuðu vítt svið. Til dæmis: Aðferð til að þurrka blóð sem hluta af vinnsluferli sláturhúsa og einangra þannig mikilvæg bætiefni sem nýtast í önnur matvæli. Eldtefjandi húðunarefni unnið úr duftuðum beinum. Tveggja daga dagskrá Hugmyndahraðhlaupið stóð yfir í tvo daga. Fyrri daginn var lögð áhersla á að veita þátttakendum innblástur, að móta teymi og kynna verkfæri eins og Lean Canvas. Seinni daginn fengu þátttakendur þjálfun í kynningum. Í lok viðburðarins höfðu myndast fjögur teymi sem kynntu frumlegar hugmyndir og skýrar verkáætlanir um næstu skref. Flytja þekkingu milli landa og atvinnugreina Arctic Bio Hack sýnir að samvinna þvert á lönd og landsvæði er mikilvæg fyrir nýsköpun. Með því að fá ólíka aðila að sama borði færist þekking á milli landa og atvinnugreina. Það hraðar framþróun, eykur líkur á nýjum lausnum og styrkir nýsköpunarumhverfið. Þátttakendahópurinn var mjög fjölbreyttur. Þar á meðal voru: Sauðfjárbændur. Lífefnafræðingar. Hönnuðir. Landsliðsmenn í matreiðslu. Raðfrumkvöðlar. Umhverfisfræðingar. Aðilar úr vinnslu og rannsóknum. „Vikan í Reykjavík var ótrúlega hvetjandi. Sama hvort unnið er með fisk eða kind, þá eru áskoranirnar þær sömu og tækifærin líka,“ sagði Andreas Lyhammer sem tók þátt í Arctic Bio Hack í annað sinn. Heimsókn hans undirstrikar hvernig Arctic Bio Hack tengir saman hugvit og iðnað. Fyrirtækið hans Havdis var stofnað út frá vinnu Arctic Bio Hack í sumar. Þar var áhersla á fullnýtingu þorsks. Samstarfsverkefni Arctic Bio Hack á Íslandi er samstarfsverkefni KLAK - Icelandic Startups, VIS, Bioregion Institute og Hringrásarklasans hjá Umhverfis- og orkustofnun sem tengir saman hugvit, vísindi og iðnað. Fulltrúar Umhverfis- og orkustofnunar í Arctic Bio Hack voru Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, Þorbjörg Sandra Bakke teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis og Halla Einarsdóttir, umhverfisverkfræðingur á skrifstofu forstjóra.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800