Til baka

21 mars 2025

Jöklar á hverfandi hveli - Alþjóðlegur dagur jökla

Á síðustu áratugum hefur rýrnun jökla um allan heim aukist. Rýrnun jökla á Íslandi með því mesta sem þekkist.

Síðan jöklar á Íslandi náðu mestu útbreiðslu í lok 19. aldar hafa þeir minnkað um 20% að flatarmáli. Fram til loka 21. aldar má gera ráð fyrir að jöklar haldi áfram að hörfa og hafa sumir jöklar jafnvel horfið, eins og Okjökull suðvestan Langjökuls er dæmi um. 

Áhrif loftslagsbreytinga

Þegar jöklar hörfa stækka jökullón, ný myndast og önnur hverfa. Ár skipta um farvegi og rennsli vatnsfalla breytast. Landris eykst í nágrenni jökla, fjallshlíðar verða óstöðugar og hætta á skriðuföllum og aurskriðum eykst.

Líklegt er að með hlýnandi loftslagi aflagist árstíðarsveifla afrennslis, hlutfall rigningar í úrkomu aukist að vetri og leysingaflóð að vori minnki að sama skapi. Afrennsli frá jöklum mun aukast, sérstaklega yfir sumartímann, auk þess sem það mun líklega hefjast fyrr að vori og ná lengra fram á haust. Í dragám geta orðið veruleg vetrarflóð. 

Jöklar og afdrif þeirra hafa því bein áhrif á gæði vatns og sjálfbærni þess. Umhverfis- og orkustofnun hefur það hlutverk að innleiða stjórnsýsluramma sem tryggja á góð gæði vatns og sjálfbærni vatns til framtíðar. Hörfun jökla er þar beinn áhrifaþáttur.

Image

Framtíð íslenskra jökla

Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis Ísland. Útreikningar byggðir á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar benda til þess að ef tekst að takmarka hlýnun á 21. öld við 2°C mun rýrnun íslenskra jökla til lok aldarinnar þó verða umtalsverð eða á bilinu 40-50%. Ef hlýnunin verður meiri, verður enn minna eftir af jöklunum við lok aldarinnar

Fyrsti alþjóðadagur jökla

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfandi hveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði héðan í frá sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til þess að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Image

Viðburðir

Í tilefni alþjóðadags jökla og vatns fara fram þrír viðburðir föstudaginn 21. mars.

Í Grósku verður fundur kl. 10:00 í samstarfi Landsvirkjunar, Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans undir yfirskriftinni: Jöklar, orka og vísindi.

Klukkan 14:00 verður haldinn viðburður í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem flutt verða nokkur erindi um jökla og jöklabreytingar og tilkynnt verður um vinningshafa í samkeppni barna og ungmenna um verk tengd jöklum. Að fundinum standa Jöklarannsóknafélags Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrufræðistofnun, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Náttúruverndarstofnun, Náttúruminjasafn Íslands og Íslenska vatnafræðinefndin.

Í beinu framhaldi af fundinum í Veröld verður opnuð kl. 15:30 sýning um jökla í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu.

Öll velkomin.

Við erum á samfélagsmiðlum

Facebook merki

Umhverfis- og orkustofnun

Suðurlandsbraut 24

108 Reykjavík

--

Rangárvellir 2, hús 8

603 Akureyri

Hafa samband

Netfang: uos@uos.is

Sími: 569 6000

Opið fyrir símtöl milli kl. 8:30 og 15 alla virka daga

Kennitala: 7009241650