Samráðsfundur og skipun nefndar um endurskoðun fastra matsbreytna
Umhverfis – og orkustofnun og Raforkueftirlitið hafa skipað í nefnd um endurskoðun fastra matsbreytna sem eru notaðar við útreikning á arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna. Endurskoðunin er liður í lögbundnu hlutverki stofnunarinnar og miðar að því að tryggja að arðsemi þessarar starfsemi endurspegli raunverulegan fjármagnskostnað. Nefndin er skipuð eftirtöldum aðilum: Arna G. Tryggvadóttir, sviðsstjóri endurskoðunar hjá PwC. Dr. Hersir Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands. Margit Johanne Robertet, forstöðumaður framtakssjóða Kviku eignastýringar. Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar. Samráðsfundur og gagnaskil Við endurskoðun fastra matsbreytna skal haft samráð við helstu hagsmunaaðila á raforkumarkaði, þar á meðal framleiðendur, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet. Samráðsfundur verður haldinn 15. janúar, þar sem hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig er hægt að senda nefndinni erindi fyrir fundinn á netfangið raforkueftirlit@uos.is. Gögnum og greiningum er hægt að skila til 31. janúar 2026. Bent er á að hlutverk nefndarinnar er afmarkað við endurskoðun fastra matsbreytna og ekki verður fjallað um önnur málefni. Næstu skref Að loknu samráði mun nefndin hefja vinnu við að meta hvort forsendur séu til staðar fyrir endurskoðun fastra matsbreytna, á grundvelli þeirra sjónarmiða og gagna sem berast frá hagsmunaaðilum. Frá vinstri: Margit Johanne Robertet, Hersir Sigurgeirsson, Perla Ösp Ásgeirsdóttir og Arna G. Tryggvadóttir. Lagastoð Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 12. gr. og 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, skal arðsemi flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna af flutnings- og dreifistarfsemi vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði, að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Í ákvæðinu er með nánari hætti fjallað um með hvaða hætti slík arðsemi skuli fundin út. Þá segir einnig að arðsemin skuli ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila. Í reglugerð nr. 192/2016, frá 1. mars 2016, er með nánari hætti fjallað um það hvernig reikna skuli út veginn fjármagnskostnað sem vísað er til í raforkulögum. Jafnframt segir í reglugerðinni að Orkustofnun, nú Umhverfis – og orkustofnun, geti að fengnu áliti sérfróðra aðila og að höfðu samráði við hagsmunaaðila, sbr. 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 17. gr. raforkulaga, lagt fram tillögu til ráðherra um endurskoðun fastra matsbreytna samkvæmt reglugerðinni ef stofnunin telur tilefni til þess, svosem. vegna sérstakra aðstæðna á markaði. Sérfróðir aðilar skv. 1. mgr. eru tilnefndir af Umhverfis- og orkustofnun og skulu þeir hafa sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og fjármagnskostnaðar. Við mat hinna sérfróðu aðila ber þeim að hafa samráð við framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet.