Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Skýrsla um matarsóun á Íslandi

Pizza á leið í ruslið

Matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum.

Þetta sýna niðurstöður mælinga Umhverfis- og Orkustofnunar. Stofnunin hefur í fyrsta sinn mælt matarsóun í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar áður en nákvæm skýrsla var að koma út, skýrslan er á ensku og hana má finna hér. Í skýrslunni er greint frá aðferðarfræði, helstu skilgreiningum og niðurstöðum rannsóknarinnar.

Ísland hefur sett sér markmið um að draga úr matarsóun, bæði sem hluti af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sem hluta af framlagi okkar til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Lágmörkun matarsóunar er loftslagsmál, efnahagsmál og mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Hvar er mat sóað - graf

Mælingarnar á matarsóun náðu yfir alla hlekki virðiskeðjunnar

Hvar er mat sóað?

Mælingarnar á matarsóun náðu yfir alla hlekki virðiskeðjunnar, þ.e.a.s. frumframleiðslu, vinnslu, framleiðslu, dreifingu og smásölu matvæla, veitingahús, matarþjónustu og heimili. Niðurstöðurnar sýna að matarsóun er fyrst og fremst í frumframleiðslu annars vegar og hins vegar á heimilum.

Matarsóun í frumframleiðslu skýrist fyrst og fremst af umfangsmiklum sjávarútvegi, en þar hefur framleiðslumagnið mest að segja á meðan nýtingin virðist vera góð. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að matarsóun á heimilum hafi ekki aukist frá mælingum árin 2016 og 2019 heldur hafi nokkurn veginn staðið í stað. Erfitt er hins vegar að alhæfa um breytingarnar milli ára þar sem um breytta aðferðafræði er að ræða.

Einna mikilvægast er að minnka matarsóun á heimilum í landinu. Þar tapast mestu verðmætin.  Auk þess verða mestu umhverfisáhrifin þegar mat er sóað á heimilum. Verð á matvælum hefur hækkað nokkuð hratt undanfarið og því til mikils að vinna að draga úr matarsóun með það að markmiði að bæta stöðu heimilanna. Að því sögðu er verkefnið þó ekki einkamál heimilanna og fyrirtæki og framleiðendur þurfa að leggja sitt af mörkum með því að hanna og markaðssetja vörur sínar með matarsóun á heimilum í huga.

Image

Matarsóun í fjórum af fimm hlekkjum virðiskeðjunnar er undir meðaltali Evrópu

Ísland kemur vel út

Matarsóun í fjórum af fimm hlekkjum virðiskeðjunnar er undir meðaltali Evrópu.

Sóun í vinnslu og framleiðslu, smásölu og dreifingu og matarþjónustugeiranum mælist nokkuð undir meðaltali í Evrópu. Umfang matarsóunar á heimilum er svipað því sem gengur og gerist í öðrum Evrópuríkjum. Sóun í frumframleiðslu er nokkuð yfir meðaltali í en helst í hendur við mikla matvælaframleiðslu á hvern Íslending.

Metnaðarfull markmið

Aðgerðaáætlunin, Minni matarsóun, sem ýtt var úr vör haustið 2021 inniheldur 24 aðgerðir sem  draga eiga úr matarsóun og stuðla að því að settum markmiðum Íslands um að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030 verði náð. Mælingarnar í skýrslunni verða notaðar sem grunnlína vegna þessara markmiða.

Staðan á aðgerðunum nú í byrjun árs 2025 er þessi:

Staða aðgerða-tafla

Aðgerðaáætlunin Minni matarsóun inniheldur 24 aðgerðir og svona er staða þeirra í byrjun árs 2025

Image

Ítarefni um matarsóun og rannsóknir

Fleiri fréttir

Skoða
19. nóvember 2025
Auglýsing: Styrkir til loftslagsvænna tæknilausna í landbúnaði
Loftslags- og orkusjóður auglýsir 80 milljónir króna í styrki til loftslagsvænna tæknilausna í landbúnaði. Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um eflingu nýsköpunar í landbúnaði og markvissari stuðning við bændur hafa Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, og Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, ákveðið að ráðstafa 80 m.kr. í sérstakan fjárfestingarstuðning við bændur. Stutt er við innleiðingu á tækni sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með minni áburðarnotkun. Styrkumsóknir eru afgreiddar samkvæmt reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð. Aðferðir nákvæmnislandbúnaðar við áburðardreifingu skila sér í bættri nýtingu næringarefna, minni losun gróðurhúsalofttegunda og bættum rekstri. Árangur getur verið breytilegur eftir ræktunaraðstæðum en áhrifin eru alltaf jákvæð. Búnaðurinn er þó dýr og þessum styrkveitingum er ætlað að koma til móts við það. Styrkhæfi verkefna og áherslur Styrkir verða veittir til framleiðenda landbúnaðarafurða, sem uppfylla skilyrði 4. mgr. 30. gr. búvörulaga, vegna fjárfestingar í tækjakaupum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar í landbúnaði. Jafnframt er heimilt að veita styrki til kaupa á búnaði sem keyptur er í samstarfi aðila, svo sem í gegnum búnaðarfélag eða verktaka sem annast áburðardreifingu fyrir bændur. Dæmi um styrkhæf tækjakaup eru eftirfarandi: GPS tækni fyrir bætta nákvæmni við áburðardreifingu Tækni til niðurfellingar/-lagningar á áburði Önnur tæki sem bætt geta nýtingu áburðar og minnkað áburðarnotkun í landbúnaði Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins og horft verður til þess að forgangsraða verkefnum sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) á hverja styrkkrónu. Auk framangreindra sjónarmiða er heimilt við mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar að taka tillit til sjónarmiða er fram koma í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um Loftslags- og orkusjóð eftir því sem við á. Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir og fleira Hámarks styrkhlutfall skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án vsk.) og styrkfjárhæð í hverri úthlutun skal nema að hámarki 10 milljónum króna fyrir hvern framleiðanda landbúnaðarafurða.  Styrkur greiðist samkvæmt samningi og framlagningu staðfestingar á kaupum búnaðar. Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn: Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru. Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn. Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga, þ. á m. 35. gr. Tíma- og verkáætlun. Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun. Umsóknarfrestur er til 22. desember 2025. Sótt er um á www.orkusjodur.is
17. nóvember 2025
Auglýsing: Styrkir til nýsköpunar í jarðvarmanýtingu
Loftslags- og orkusjóður auglýsir 600 milljónir króna í styrki til nýsköpunar í jarðvarmanýtingu. Jarðhiti er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga. Yfir 90% af húshitun hér á landi byggir á jarðvarma og um 30% raforkuframleiðslu. Brýnt er að viðhalda og styrkja enn frekar samkeppnishæfni Íslands á sviði jarðhitanýtingar og ýta undir nýsköpun og tækniþróun á þessu sviði. Í samræmi við þetta hefur umhverfis-, orku og loftslagsráðherra ákveðið að fela Loftslags- og orkusjóði að styrkja nýsköpun á sviði jarðvarmanýtingar um allt að 600 milljónir króna. Styrkhæfi verkefna og áherslur Styrkir verða veittir til orkufyrirtækja og annarra fyrirtækja sem nýta jarðvarmaauðlindina. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla undir eftirfarandi áherslur: A.     Ný tækni til raforkuframleiðslu úr jarðvarma Verkefni á sviði djúpborunar, endurbætt jarðhitakerfi (e. Enhanced Geothermal Systems), raforkuframleiðslu úr lágvarma, nýrrar bortækni og fleira. B.     Fjölnýting jarðhita Verkefni sem auka verðmætasköpun með beinni eða óbeinni fjölnýtingu jarðhita, til dæmis með nýjum framleiðsluferlum eða notkunarformum, sérstaklega þar sem loftslagsáhrif eru jákvæð og verkefni hafa ekki áður notið stuðnings úr öðrum opinberum sjóðum. C.    Nýting jarðhita til húshitunar Nýjar aðferðir við nýtingu jarðhita, meðal annars með varmadælum, aukinni nýtni eða hagkvæmni, og uppbyggingu sem dregur úr rafhitunarkostnaði og styður við fjölgun notenda. Almennar boranir eða hefðbundin uppbygging dreifikerfa teljast ekki styrkhæfar. Við mat á umsóknum skal meðal annars horft til þjóðhagslegrar hagkvæmni, byggðasjónarmiða og áhrifa á nærsvæði, auk gæða gagna og undirbúnings. Styrkhlutfall, styrkfjárhæðir og fleira Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að þriðjungi af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Umsækjendur skulu leggja fram mótframlag sem nemur að minnsta kosti tveimur þriðju hluta kostnaðar. Skipting greiðslna skal vera eftirfarandi: Framvindugreiðsla (75%) greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna. Lokagreiðsla (25%) er greidd þegar lokaskýrsla hefur verið samþykkt. Umsóknir Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn: Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, þátttakendur og samstarfsaðila. Nafn, kennitala, netfang og símanúmer tengiliðar við sjóðinn. Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og áherslum Loftslags- og orkusjóðs. Lýsing á þekkingu á jarðhita viðkomandi svæðis, með tilvísun í fyrri rannsóknir eftir því sem við á. Tíma- og verkáætlun. Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun. Lýsing á hagkvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga. Umsóknarfrestur er til 20. desember 2025. Sótt er um á www.orkusjodur.is

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800