Staða fráveitumála 2024

Skýrsla um stöðu fráveitumála á Íslandi fyrir árið 2024 er komin út. Skýrslan byggir á gögnum frá heilbrigðiseftirlitum, sveitarfélögum og rekstraraðilum um land allt.
Helstu niðurstöður
Eins og árið 2022 eru Borgarnes og Dalvík einu þéttbýlin sem uppfylla kröfur um hreinsun samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Viðkomandi þéttbýli eiga að uppfylla kröfur um viðeigandi hreinsun sem í þessum tilfellum er grófhreinsun.
Flest þéttbýli á landinu beita enn grófhreinsun, sem er einungis forhreinsun þar sem rusl og aðskotahlutir eru síaðir frá vatni áður en frekari hreinsun fer fram. Niðurstöður skýrslunnar sýna að:
- 82% íbúa eru tengdir grófhreinsun.
- 14% íbúa hafa enga hreinsun.
- 1% íbúa tengjast eins þreps hreinsun - þar sem bæði svifagnir og lífrænt efni eru fjarlægð að hluta.
Árið 2024 höfðu þrjú þéttbýli fengið samþykkt að skilgreina viðtaka sem „síður viðkvæman“. Tvö hafa bæst við árið 2025. Þetta gerir þeim kleift að beita minni hreinsun, eins þreps hreinsun í stað tveggja þrepa, að því gefnu að vatnshlotið haldist í góðu vistfræðilegu ástandi.
Vöktun ábótavant
Margir viðtakar hafa ekki verið vaktaðir nægilega vel og fá sveitarfélög framkvæma reglulegar mælingar í fráveitum eða viðtökum. Þörf er á að uppfæra og gefa út ný starfsleyfi fyrir fráveitur, sem heilbrigðiseftirlit landsins vinna nú að.
Bætt gagnavinnsla
Erfitt er að meta magn seyru sem er safnað vegna þess að hingað til hefur seyra og ristarúrgangur verið skráð sem sami úrgangsflokkur. Gerðar hafa verið úrbætur á því og það ættu að vera betri upplýsingar um magn seyru í næstu gagnaskilum.
Vilji til úrbóta
Verkefni næstu ára í fráveitumálunum eru fjölmörg en mikilvægt er að ljúka við endurskoðun á reglugerð um fráveitur og skólp og gefa út og/eða uppfæra starfsleyfi fyrir fráveitur. Í vatnaáætlun Íslands 2022–2027 er fráveita skilgreind sem einn helsti álagsþáttur á vatn og verður áfram unnið að úrbótum í samræmi við aðgerðaáætlun hennar.
Úrbætur í fráveitu taka oft nokkurn tíma og því eru breytingar á milli gagnaskila frekar litlar eins og er. Greina má þó meiri áhuga og vilja til úrbóta í fráveitumálum.
Samantektin nær til 90% íbúa
Stöðuskýrsla fráveitumála nær til 29 þéttbýla, sem losa um eða yfir 2.000 pe. Það samsvarar um 344.237 íbúum eða um 90% af íbúafjölda á Íslandi.
Umhverfis- og orkustofnun tekur saman upplýsingar um stöðu fráveitumála á Íslandi á tveggja ára fresti.
Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög og heilbrigðiseftirlit
Umhverfis- og orkustofnun hefur unnið að ýmsum leiðbeiningum til að styðja sveitarfélög og heilbrigðiseftirlit við framkvæmd reglugerða. Meðal þeirra eru:
- Leiðbeiningar um útreikninga á skólpmagni.
- Skilgreiningu viðtaka.
- Eftirlitsmælingar og vöktun.
- Samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir hreinsistöðvar.









