Auglýsing: Styrkir til loftslagsvænna tæknilausna í landbúnaði

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 80 milljónir króna í styrki til loftslagsvænna tæknilausna í landbúnaði.
Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um eflingu nýsköpunar í landbúnaði og markvissari stuðning við bændur hafa Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, og Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, ákveðið að ráðstafa 80 m.kr. í sérstakan fjárfestingarstuðning við bændur. Stutt er við innleiðingu á tækni sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með minni áburðarnotkun.
Styrkumsóknir eru afgreiddar samkvæmt reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð.
Aðferðir nákvæmnislandbúnaðar við áburðardreifingu skila sér í bættri nýtingu næringarefna, minni losun gróðurhúsalofttegunda og bættum rekstri. Árangur getur verið breytilegur eftir ræktunaraðstæðum en áhrifin eru alltaf jákvæð. Búnaðurinn er þó dýr og þessum styrkveitingum er ætlað að koma til móts við það.
Styrkhæfi verkefna og áherslur
Styrkir verða veittir til framleiðenda landbúnaðarafurða, sem uppfylla skilyrði 4. mgr. 30. gr. búvörulaga, vegna fjárfestingar í tækjakaupum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar í landbúnaði.
Jafnframt er heimilt að veita styrki til kaupa á búnaði sem keyptur er í samstarfi aðila, svo sem í gegnum búnaðarfélag eða verktaka sem annast áburðardreifingu fyrir bændur. Dæmi um styrkhæf tækjakaup eru eftirfarandi:
- GPS tækni fyrir bætta nákvæmni við áburðardreifingu
- Tækni til niðurfellingar/-lagningar á áburði
- Önnur tæki sem bætt geta nýtingu áburðar og minnkað áburðarnotkun í landbúnaði
Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins og horft verður til þess að forgangsraða verkefnum sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) á hverja styrkkrónu.
Auk framangreindra sjónarmiða er heimilt við mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar að taka tillit til sjónarmiða er fram koma í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um Loftslags- og orkusjóð eftir því sem við á.
Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir og fleira
Hámarks styrkhlutfall skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án vsk.) og styrkfjárhæð í hverri úthlutun skal nema að hámarki 10 milljónum króna fyrir hvern framleiðanda landbúnaðarafurða. Styrkur greiðist samkvæmt samningi og framlagningu staðfestingar á kaupum búnaðar.
Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
- Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
- Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga, þ. á m. 35. gr.
- Tíma- og verkáætlun.
- Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
Umsóknarfrestur er til 22. desember 2025.
Sótt er um á www.orkusjodur.is










