Svifryksmengun um áramótin

Í ár er spáð hægum vindi og úrkomulausu veðri um mestallt landið í kringum áramótin. Ef flugeldanotkun verður svipuð og á fyrri árum gæti svifryksmengun orðið talsverð í þéttbýli. Styrkur svifryks um áramót ræðst mikið af veðri. Ef vindur er undir 2 m/s má búast við mjög mikilli mengun. Búast má við að mengun fari yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu upp úr kvöldmat á gamlárskvöld og vari frameftir nýársnóttu.
Svifryk er heilsuspillandi og getur ýtt undir versnandi einkenni ýmissa sjúkdóma. Einstaklingar með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma ásamt börnum eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Fyrir viðkvæmustu hópana er æskilegast að halda sig innandyra og loka gluggum.
Hægt er að fylgjast með styrk mengunar á loftgæði.is og veðrinu á gottvedur.is.
Umhverfis- og orkustofnun hvetur fólk til að vera vel upplýst um áramótin, stilla flugeldanotkun í hóf og vernda þannig viðkvæma hópa.
Sjá upplýsingasíðu Umhverfis- og orkustofnunar um flugelda.
Ennfremur má finna hér upplýsingar um frágang flugelda eftir áramót.









