109 verkefni hljóta styrk úr Loftslags- og orkusjóði

Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna í styrki til verkefna sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku og loftslagsmála.
Alls hljóta 109 verkefni styrk að þessu sinni:
- 34 verkefni sem fela í sér orkuskipti í samgöngum
- 44 verkefni sem fela í sér orkuskipti í rekstri eða orkusparnað
- 22 í flokki hringrásarhagkerfis
- 9 verkefni í flokki nýsköpunar eða innleiðingar nýrrar tækni
Ávinningur af verkefnunum
Ávinningur vegna styrktra verkefna á sviði orkuskipta í samgöngum og rekstri er metinn 8,7 milljón olíulítrar á ári. Það samsvarar eldsneytisnotkun um það bil 8.655 bíla árlega.
Heildarsamdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda í þessum tveimur flokkum er áætlaður 22.172 tonn CO₂-íg/ári, þar af um 18.528 tonn af CO₂-íg á ári vegna styrktra verkefna á sviði samgangna. Það jafngildir 2,1% af allri losun frá vegasamgöngum árið 2024.
Heildarraforkusparnaður og/eða raforkuframleiðsla vegna allra styrkverkefna í þessum flokkum er áætluð 2,9 GWst/ári.











