Arctic Bio Hack: Íslenska sauðkindin í brennidepli

Íslenska sauðkindin var í sviðsljósinu í norrænu hugmyndahraðhlaupi á sviði líftækni og hringrásarlausna sem fór fram í Reykjavík um miðjan október. Yfirskriftin var Arctic Bio Hack.
Þátttakendur frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og Noregi unnu að nýjum leiðum til að nýta hliðarafurðir úr landbúnaði, með áherslu á ull, blóð, bein og innyfli. Markmiðið var að breyta „úrgangi“ í verðmæti og finna loftslagsvænar og staðbundnar lausnir með verðmætasköpun að leiðarljósi.

Nýstárlegar hugmyndir til að fullnýta afurðir
Hugmyndirnar sem spruttu upp á viðburðinum spönnuðu vítt svið. Til dæmis:
- Aðferð til að þurrka blóð sem hluta af vinnsluferli sláturhúsa og einangra þannig mikilvæg bætiefni sem nýtast í önnur matvæli.
- Eldtefjandi húðunarefni unnið úr duftuðum beinum.
Tveggja daga dagskrá
Hugmyndahraðhlaupið stóð yfir í tvo daga. Fyrri daginn var lögð áhersla á að veita þátttakendum innblástur, að móta teymi og kynna verkfæri eins og Lean Canvas. Seinni daginn fengu þátttakendur þjálfun í kynningum. Í lok viðburðarins höfðu myndast fjögur teymi sem kynntu frumlegar hugmyndir og skýrar verkáætlanir um næstu skref.

Flytja þekkingu milli landa og atvinnugreina
Arctic Bio Hack sýnir að samvinna þvert á lönd og landsvæði er mikilvæg fyrir nýsköpun. Með því að fá ólíka aðila að sama borði færist þekking á milli landa og atvinnugreina. Það hraðar framþróun, eykur líkur á nýjum lausnum og styrkir nýsköpunarumhverfið.
Þátttakendahópurinn var mjög fjölbreyttur. Þar á meðal voru:
- Sauðfjárbændur.
- Lífefnafræðingar.
- Hönnuðir.
- Landsliðsmenn í matreiðslu.
- Raðfrumkvöðlar.
- Umhverfisfræðingar.
- Aðilar úr vinnslu og rannsóknum.

„Vikan í Reykjavík var ótrúlega hvetjandi. Sama hvort unnið er með fisk eða kind, þá eru áskoranirnar þær sömu og tækifærin líka,“ sagði Andreas Lyhammer sem tók þátt í Arctic Bio Hack í annað sinn. Heimsókn hans undirstrikar hvernig Arctic Bio Hack tengir saman hugvit og iðnað. Fyrirtækið hans Havdis var stofnað út frá vinnu Arctic Bio Hack í sumar. Þar var áhersla á fullnýtingu þorsks.

Samstarfsverkefni
Arctic Bio Hack á Íslandi er samstarfsverkefni KLAK - Icelandic Startups, VIS, Bioregion Institute og Hringrásarklasans hjá Umhverfis- og orkustofnun sem tengir saman hugvit, vísindi og iðnað.
Fulltrúar Umhverfis- og orkustofnunar í Arctic Bio Hack voru Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, Þorbjörg Sandra Bakke teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis og Halla Einarsdóttir, umhverfisverkfræðingur á skrifstofu forstjóra.
Myndir frá Arctic Bio Hack

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025


Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025

Gefið út 13 nóvember 2025












