Flokkar vinnustaðurinn þinn Allan hringinn?

Má bæta flokkun á þínum vinnustað? Við getum hjálpað!
Kynningarátakið Allan hringinn er hafið. Markmið átaksins er að hvetja vinnustaði til að flokka úrgang betur og veita starfsfólki og stjórnendum ráðleggingar til að bæta flokkun. Sjá nánar á allanhringinn.is
Allan hringinn er samstarfsverkefni á vegum stofnanna, sveitarfélaga, rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu.
Á vefsíðunni má finna:
- Tékklista til að kanna hvernig vinnustaðurinn stendur sig í flokkun
- Upplýsingar um hvernig megi spara pening með því að flokka
- Fræðslu um hvaða flokka úrgangs er skylt að flokka skv. lögum
- Myndbönd sem kynna fyrirtæki sem eru fyrirmyndir í flokkun
- Samræmdar merkingar til notkunar á flokkunarílát
- Hagnýt ráð hvernig megi hefja eða bæta flokkun á vinnustaðnum
- Dæmi um það hvernig megi koma flokkunarílátum snyrtilega fyrir

Stjórnendur fyrirtækja geta fundið myndir og leiðbeiningar um flokkunartunnur á allanhringinn.is.
Fólk flokkar betur heima en í vinnunni
Í ár er Allan hringinn kynningarátaki beint til vinnustaða. Markmið verkefnisins árið 2025 er að fræða og aðstoða vinnustaði landsins við að bæta sína flokkun á þeim úrgangi sem verður til hjá þeim. Þar með styrkja hringrásarhagkerfið í íslensku atvinnulífi.
Á vefsíðunni má meðal annars finna fjöldann allan af upplýsingum og ráðleggingum sem byggja á niðurstöðum könnunar sem var send til stjórnenda fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka.
Flokkar vinnustaðurinn þinn Allan hringinn?
Með að „flokka allan hringinn“ er átt við að flokka á þann hátt að sem mest af efnum og auðlindum sem finna má í úrganginum haldist í hringrásinni. Að flokka úrgang vel er grundvallaratriði í úrgangsmeðhöndlun til að halda efnum í hringrás innan hagkerfisins.

Samstarfsaðilar
Allan hringinn verkefnið er samstarfsverkefni Umhverfis- og orkustofnunar, Úrvinnslusjóðs, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, SORPU, Terra, Hringrásar og Grænna skáta.
Auglýsingastofan ENNEMM vann hönnun og framleiðslu efnis fyrir verkefnið Allan hringinn 2025.
Allan hringinn á heimilum 2023
Árið 2023 tóku í gildi lög sem skylduðu einstaklinga og lögaðila (alla vinnnustaði) til að flokka heimilisúrgang sinn í a.m.k. sjö flokka.
Það ár fór Allan hringinn í kynningarátak sem beindist að einstaklingum og heimilum. Þá var verið að kynna þær breytingar sem tóku gildi 2023 í kjölfar gildistöku nýrra laga og hvetja landsmenn alla til að taka þátt í að mynda hringrásarhagkerfi á Íslandi af fullum krafti.
Úrgangur sem auðlind
Flokka þarf úrgang meira og betur svo hægt sé að endurvinna og endurnýta hann. Hringrásarhugsun þarf við hönnun og vöruþróun og fyrst og fremst huga alls staðar í ferlinu hvar sé hægt að lágmarka sóun og koma í veg fyrir myndun úrgangs.
Við þurfum að líta á úrganginn okkar sem auðlind sem við getum endurunnið eða endurnýtt á annan hátt, en ekki efni til förgunar.
Tökum öll höndum saman og stuðlum að hringrásarhagkerfi allan hringinn!











