Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Auglýsing: Almennir styrkir úr Loftslags- og orkusjóði

Reykjavík - gullið sólarlag.

Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til verkefna sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda á beinni ábyrgð Íslands eða fela í sér nýsköpun og innleiðingu á nýrri tækni á sviði umhverfis- orku og loftslagsmála. Áhersla er lögð á verkefni sem þurfa fjárhagslegum stuðningi sjóðsins að halda til að raungerast. Styrkumsóknir eru afgreiddar samkvæmt reglugerð, nr. 1566/2024, um Loftslags- og orkusjóð.

Heildarupphæð til úthlutunar er 1.300 m.kr.

Verkefni sem styðja við markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda

1.000 m.kr. verður veitt í styrki til verkefna sem styðja beint eða óbeint við markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands. Áhersla er lögð á verkefni sem mæla má beint til samdráttar í losun eða verkefni sem styðja við það markmið.

Orkuskipti í samgöngum

  • Uppbygging hraðhleðslustöðva (150 kW+) og styrking hleðslunets með tilliti til þungaflutninga.
  • Uppbygging orkuinnviða fyrir tæki, þungaflutninga og hópbifreiðar, þar með talið flotabíla og stór atvinnutæki.
  • Uppbygging orkuinnviða fyrir almenningssamgöngur til að styðja orkuskipti í strætisvögnum og öðrum farartækjum í rekstri hins opinbera.
  • Áfyllingarstöðvar fyrir raf- eða lífeldsneyti.

Orkuskipti í rekstri eða orkusparnaður

  • Tækjabúnaður sem nýtir endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis.
  • Lausnir sem stuðla að orkusparnaði og aukinni orkunýtni í atvinnulífi og almennum rekstri
  • Innviðir og tækjastyrkir fyrir vistvæna orkunotkun í höfnum.
  • Orkuskiptaverkefni í skipum og bátum.

Hringrásarhagkerfið

  • Aðgerðir sem draga úr urðun lífræns úrgangs eða minnka losun frá úrgangi
  • Verkefni sem stuðla að endurvinnslu úrgangs, einkum sem næst upprunastað
  • Verkefni sem draga úr hráefnisnotkun eða úr myndun úrgangs.

Verkefni sem fela í sér innleiðingu á nýrri tækni eða nýsköpun á sviði loftslagsmála

Allt að 300 m.kr. verður veitt í styrki til verkefna sem fela í sér innleiðingu á nýrri tækni eða nýsköpun á sviði loftslagsmála. Verkefnin krefjast almennt töluverðrar fjárfestingar til að ná markaðshæfni og óvissa er um áhrif þeirra á markmið landsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Verkefni sem falla í þennan flokk eru meðal annars:

  • Nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála
  • Framleiðsla og dreifing rafeldsneytis og lífeldsneytis (t.d. vetni, rafmetan, e-metanól).
  • Nauðsynlegur búnað fyrir geymslu, flutning, afgreiðslu og nýtingu raf- eða lífeldsneytis (t.d. þjöppur, lagnir, geymslur, dreifikerfi).
  • Verkefni sem tengjast heildstæðum orkuskiptalausnum, svo sem vetnisdölum eða öðrum samþættum orkuskiptaverkefnum.

Í samræmi við ofangreind markmið eru öll hvött til að sækja um til sjóðsins, óháð stærð félaga, stofnana eða kyni umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.

Sótt er um á www.orkusjodur.is

Image

Fleiri fréttir

Skoða
6. janúar 2026
Nýtt mælaborð Raforkueftirlitsins lítur dagsins ljós  
Raforkueftirlitið hefur tekið í notkun nýtt sjálfvirkt mælaborð Raforkuvísa sem markar tímamót í framsetningu upplýsinga. Með mælaborðinu birtast nýjar upplýsingar mun tíðar, yfirsýn yfir breytingar og þróun eykst til muna, og styður þessi breyting við raforkumarkaðinn, almenning og stjórnvöld með gagnsærri framsetningu. Kerfið byggir á umfangsmikilli sjálfvirkni sem eykur afköst starfsmanna og veitir svigrúm fyrir dýpri og tíðari greiningar. Þannig skapast ráðrúm til að miðla niðurstöðum oftar en áður. Markmiðið er að mælaborðið verði smám saman að fullu sjálfvirkt og að skýrslur byggi á nýjustu og sem áreiðanlegustu gögnum á hverjum tíma.   Fjöldi nýjunga Með innleiðingu nýja mælaborðsins breytist einnig birtingarhraði gagna. Skammtímamarkaðsverð verða nú uppfærð vikulega og önnur raforkuverð, ásamt upplýsingum um framleiðslu og notkun, birt mánaðarlega. Upplýsingar um truflanir verða svo teknar saman árlega og birtar af START hópnum á truflanir.is. Í stað þess að notendur þurfi að bíða eftir ársfjórðungslegum samantektum verður nú hægt að fylgjast með þróuninni talsvert nær rauntíma.  Í fyrsta sinn eru markaðsverð raforku tekin saman og birt á einum stað hjá Raforkueftirlitinu. Á mælaborðinu má meðal annars sjá grunnorkuverð, stundarmánaðarverð, meðal jöfnunarorkuverð og fleira. Einnig eru birt dagleg meðaltöl fyrir skammtímaverð, þar á meðal fyrir Elmu, Vonarskarð og jöfnunarorkumarkað Landsnets. Þetta gerir samanburð einfaldari, styrkir upplýsingaflæði og stuðlar að gagnsærri umræðu um verðmyndun.  Að auki er nýtt yfirlit yfir gjaldskrár sérleyfisfyrirtækja. Raforkueftirlitið birtir nú vegið meðalverð gjaldskráa dreifiveitna ásamt gjaldskrá flutningsfyrirtækisins. Hægt er að skoða gjöld bæði verðbætt með vísitölu og á verðlagi hvers árs. Með þessu verður mun auðveldara að fylgjast með þróun kostnaðar og meta breytingar yfir lengri tíma.  Horft fram á veginn Nýjustu Raforkuvísar sýna jafnframt að staða og horfur raforkuöryggis á fjórða ársfjórðungi 2025 og 2026 hafa áfram batnað. Mat á raforkuöryggi byggir á spám um framboð og eftirspurn. Núverandi stórnotkun hefur dregist saman tímabundið, allra helst vegna samdráttar á málmframleiðslu, og þar með er meira framboð til staðar en undir eðlilegum kringumstæðum.  Nýja mælaborðið er aðeins fyrsta skrefið í lengra ferðalagi. Á næstu mánuðum verður áfram unnið að aukinni sjálfvirkni, skýrari framsetningu gagna og öðrum greiningum Raforkueftirlitsins. Með þessu styrkir Raforkueftirlitið hlutverk sitt sem miðlari áreiðanlegra upplýsinga og leggur grunn að betri, gagnsærri og upplýstri ákvarðanatöku í orkumálum landsins. 
7. janúar 2026
Námskeið í meðferð notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands heldur námskeið í meðferð notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna dagana 19. febrúar til 12. mars 2026.  Námskeiðið verður kennt í fjarkennslu. Námskeiðið er fyrir þau sem hyggjast sækja um eða endurnýja notendaleyfi fyrir: Plöntuverndarvörum í landbúnaði og garðyrkju, þar með talið garðaúðun Útrýmingarefnum við eyðingu meindýra Hvort tveggja af ofangreindu Einnig er í boði að ljúka einungis námshluta fyrir ábyrgðaraðila í markaðssetningu notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Þessi kostur hentar aðilum sem starfa sinna vegna hyggjast taka að sér hlutverk ábyrgðaraðila hjá dreifingaraðila notendaleyfisskyldra vara. Námskrá námskeiðsins byggist á ákvæðum í reglugerð um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Til þess að ljúka náminu þarf að standast próf í lok námskeiðsins. Að námi loknu þurfa þau sem vilja öðlast réttindi til að kaupa og nota notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur og/eða útrýmingarefni að sækja um notendaleyfi til Umhverfis- og orkustofnunar. Dreifandi notendaleyfisskyldra vara skal tilnefna ábyrgðaraðila í gegnum Island.is. Skráning og nánari upplýsingar um námskeiðið eru að finna á heimasíðu Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands. Umsóknarfrestur er til 13. febrúar 2026.
7. janúar 2026
Námskeið í sóttvörnum vegna húðrofs - febrúar 2026
Umhverfis- og orkustofnun stendur fyrir námskeiðum í sóttvörnum fyrir þau sem framkvæma hvers kyns húðrof, svo sem húðgötun, húðflúrun, fegrunarflúrun og nálastungur. Námskeiðið er skylda fyrir þau sem hafa ekki lokið námi á heilbrigðissviði sem felur í sér fræðslu um smitgát og sóttvarnir. Frá og með 1. janúar 2026 þurfa allir sem stunda húðrof að geta framvísað staðfestingu þess efnis að þeir hafi setið námskeiðið eða séu með tilskylda menntun á heilbrigðissviði. Sjá nánar í 2. mgr. 34. gr. rg. nr. 903/2024 um hollustuhætti. Information on the course in English Um námskeiðið Á námskeiðinu verður farið yfir alla þætti sem snúa að framkvæmd húðrofs með sérstaka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti. Námskeiðið er blanda af fyrirlestrum og sýnikennslu. Í lok námskeiðs þurfa þátttakendur að standast hæfnispróf. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis eigið snjalltæki til að taka hæfnisprófið á. Kennarar á námskeiðinu eru: Ása S. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur Brynjar Björnsson, húðflúrari Ísak S. Bragason, teymisstjóri í teymi efnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri í teymi eftirlits hjá Umhverfis- og orkustofnun Stella Hrönn Jóhannsdóttir, sérfræðingur hollustuhátta hjá Umhverfis- og orkustofnun Dagsetningar Mánudagurinn 9. febrúar frá kl. 9 – 16. Kennt á íslensku. Síðasti skráningardagur er 2. febrúar. Síðasti greiðsludagur 8. febrúar.   Föstudagurinn 13. febrúar frá kl. 9 – 16. Kennt á ensku. Síðasti skráningardagur er 5. febrúar. Síðasti greiðsludagur 11. febrúar. Information on the course in English Námskeiðsgjald Námskeiðsgjald er 49.900 kr. Greiðsluseðill verður sendur í heimabanka umsækjanda og afrit af reikningi á mínar síður á island.is. Staðsetning Námskeiðið verður haldið á Hótel Reykjavík Grand, Sigtúni 28, 105 Reykjavík. Skráning Skráning fer fram á https://gogn.ust.is/ Skráning er staðfest þegar námskeiðsgjöld hafa verið greidd. Lágmarksfjöldi Lágmarksfjöldi á námskeiðið er 20 manns. Námskeiðið fellur niður ef ekki næst lágmarks þátttaka. Námskeiðið er fyrir þau sem framkvæma nálastungur, fegrunarflúrun, húðgötun og húðflúrun.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800