Er örplast á sjávarbotninum umhverfis Ísland?

Umhverfis- og orkustofnun lét nýverið taka setsýni á fimm stöðum á sjávarbotni í Faxaflóa til þess að kanna umfang örplasts. Niðurstöður eru væntanlegar á næsta ári.
Sýnatökustaðir

Sýni voru tekin á fimm stöðum í Faxaflóa.
Meira örplast frá skólpi
Árið 2023 var gerð forkönnun á umfangi örplasts í sjávarseti í Faxaflóa. Þá sýndu niðurstöður að magn og gerðir örplastsagna voru mjög breytilegar á milli sýnatökustaða.
Fjöldi örplastagna var hæstur á stöðvum 3 og 5. Stöð 3 er við skólpútrás.
Helstu plastgerðir sem fundust voru:
- 74% PP - Til dæmis notað í matarumbúðir, húsgögn og textíl.
- 16% PE - Til dæmis notað í eldhúsáhöld, leikföng, rör og plastpoka.
- 5% akrýlöt/pólýúretan/lakk.
- 2% PS - Til dæmis frauðplast.
- 1% manngerður sellulósi.
- 1% EVA - Mjúkt plast, til dæmis notað í sandala, jógamottur, baðleikföng og einangrun í snúrum.
- 1% PVC - Hart plast, til dæmis notað í leikföng, gólfefni, skó, töskur.
- 1% PA - Til dæmis notað í nælonsokkabuxur og veiðafæri.
Stöðvar 3 og 5 sýndu meiri fjölbreytileika á plastgerðum, þar á meðal akrýlöt/pólýúretan/lakk, PVC, PA og manngerðan sellúlósa.
Nánar um mismunandi tegundir plasts hjá Sænsku efnastofnuninni.

Sérfræðingar á rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum sáu um sýnatökurnar.
Örplast víða í vistkerfinu
Aðrar rannsóknir á örplasti á Íslandi hafa sýnt að það finnst víða, meðal annars í kræklingi, maga fýla og fiska (þorski og ufsa). Þetta bendir til þess að örplast sé nú þegar til staðar í vistkerfum við Ísland, þó að umfang þess sé lítt þekkt og mælingar á örplasti í botnseti hafi verið mjög fáar.
Sjávarbotninn gefur góða mynd
Það er mikilvægt að fylgjast með örplasti á sjávarbotni því mikið af því örplasti sem fer í hafið sekkur á botninn og safnast þar fyrir. Þannig virkar sjávarbotninn eins og geymsla fyrir örplast og sýnir hvernig mengunin hefur safnast upp og ástand sjávarins til lengri tíma. Með vöktuninni er hægt að:
- Fá vísbendingar um mengunarstig og þróun þess yfir tíma.
- Greina mögulegar uppsprettur, til dæmis frá skólpi eða iðnaði við strendur.
- Meta áhrif á lífríki, þar sem botndýr geta innbyrt örplast sem síðan fer upp fæðukeðjuna.
- Styðja við stefnumótun og aðgerðir til að draga úr plastmengun í hafinu.
Framkvæmd og greining
Sýnatökurnar voru framkvæmdar af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Sýnin eru svo send til Bretlands á sérhæfða rannsóknastofu Cefas (Centre for Environment Fisheries and Aquaculture Science) sem sér um greiningar á örplastinu í sýnunum.
Von er á niðurstöðum á næsta ári.

Plastflaska sem fannst í strandhreinsun í Engey árið 2023.
Ráð til að sporna við örplasti
Hvað geta einstaklingar gert til að sporna við örplasti í umhverfinu?
- Minnka plastnotkun almennt. Velja fjölnota poka, drykkjarflöskur og matarílát í stað einnota plastvara. Forðast vörur í óþarfa plastumbúðum.
- Þvottur og fataval. Gerviefni eins og pólýester, nælon og akrýl losa örplast í þvotti. Velja fatnað úr náttúrulegum trefjum (bómull, ull, hör). Nota þvottapoka eða síur (t.d. Guppyfriend eða Filtrol) sem fanga örplast úr skolvatni.
- Rétt flokkun og förgun úrgangs. Tryggja að plast fari í endurvinnslu og ekki út í náttúruna. Ekki sturta bleyjum, blautklútum eða hreinlætisvörum í klósettið — mörg þessara efna innihalda plast.
- Vanda val á snyrtivörum. Velja vörur merktar microplastic-free eða biodegradable. Forðast skrúbbvörur með plastögnum (oft merkt sem „polyethylene“ eða „polypropylene“ í innihaldslýsingu).











