Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Jarðhiti jafnar leikinn - Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 1 milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Á hverju ári ver ríkissjóður rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á svæðum sem nýta rafmagn eða olíu til húshitunar. Tæplega 10% heimila landsins eru á þessum svæðum.

Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið orkuöryggi og bætta orkunýtni hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa 1.000 m. kr í sérstakt jarðhitaleitarátak árin 2025-2028, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með átakinu.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Skilyrði

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.

Sækja um

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Áherslur

Styrkir eru veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila, til rannsóknar á möguleikum til virkjunar og nýtingu jarðvarma.  Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki Loftslags-og orkusjóðs, en einnig skal litið til eftirfarandi:

  • Hvort verkefnið snúi að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  • Hvort fyrri jarðhitarannsóknir á svæðinu sem um ræðir styðji við verkefnið.
  • Hvort verkefnið sé á svæði þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  • Hvort um sé að ræða fjölda væntanlegra notenda og sparnað í niðurgreiðslu rafmagnskostnaðar til húshitunar.
  • Hvort verkefni auki skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggi áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   
  • Hvort verkefnið dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. notkun olíu sem varaafls til húshitunar verði hætt eða hún minnkuð.   
  • Hagvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga.
  • Gæði þeirra áætlana og gagna sem send eru með umsókn, sem og stöðu undirbúnings verkefnis.

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Fylgigögn

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:  

  • Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  • Nafn, kennitala, netfang og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga Loftslags-og orkusjóðs.
  • Lýsing á þekkingu á jarðhita viðkomandi svæðis, með tilvísun í fyrri rannsóknir eftir því sem við á. 
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
  • Lýsing á hagkvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga. 

Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir og fleira

Eftirfarandi skulu vera hámarks styrkhlutföll og styrkfjárhæðir í úthlutunum fyrir styrki vegna jarðhitaleitar:

  • Styrkhlutfall skal vera 2/3 af heildarkostnaði verkefnisins.

Skipting greiðslna til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  • Fyrsta greiðsla við upphaf framkvæmda, 30% af styrkupphæð.
  • Framvindugreiðsla, 30%, greiðist samkvæmt framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
  • Lokagreiðsla, 40% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði. Í þessu felst m.a. að afrit allra gagna hafi borist sjóðnum, þ.á.m. yfirlit yfir kostnað, reikningar, borskýrslur, uppdrættir, skýrslur og greinargerð o.þ.h.

Sé ósamræmi á milli ofangreinds og reglugerðar 1566/2024 skal það gilda sem kemur fram í reglugerð.

Image

Fleiri fréttir

Skoða
11. desember 2025
Samráðsfundur og skipun nefndar um endurskoðun fastra matsbreytna
Umhverfis- og orkustofnun og Raforkueftirlitið hafa skipað í nefnd um endurskoðun fastra matsbreytna sem eru notaðar við útreikning á arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna. Endurskoðunin er liður í lögbundnu hlutverki stofnunarinnar og miðar að því að tryggja að arðsemi þessarar starfsemi endurspegli raunverulegan fjármagnskostnað. Nefndin er skipuð eftirtöldum aðilum: Arna G. Tryggvadóttir, sviðsstjóri endurskoðunar hjá PwC. Dr. Hersir Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands. Margit Johanne Robertet, forstöðumaður framtakssjóða Kviku eignastýringar.  Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar. Samráðsfundur og gagnaskil  Við endurskoðun fastra matsbreytna skal haft samráð við helstu hagsmunaaðila á raforkumarkaði, þar á meðal framleiðendur, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet. Samráðsfundur verður haldinn 15. janúar, þar sem hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig er hægt að senda nefndinni erindi fyrir fundinn á netfangið raforkueftirlit@uos.is. Gögnum og greiningum er hægt að skila til 31. janúar 2026. Bent er á að hlutverk nefndarinnar er afmarkað við endurskoðun fastra matsbreytna og ekki verður fjallað um önnur málefni. Næstu skref Að loknu samráði mun nefndin hefja vinnu við að meta hvort forsendur séu til staðar fyrir endurskoðun fastra matsbreytna, á grundvelli þeirra sjónarmiða og gagna sem berast frá hagsmunaaðilum. Frá vinstri: Margit Johanne Robertet, Hersir Sigurgeirsson, Perla Ösp Ásgeirsdóttir og Arna G. Tryggvadóttir. Lagastoð Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 12. gr. og 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, skal arðsemi flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna af flutnings- og dreifistarfsemi vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði, að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Í ákvæðinu er með nánari hætti fjallað um með hvaða hætti slík arðsemi skuli fundin út. Þá segir einnig að arðsemin skuli ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila.  Í reglugerð nr. 192/2016, frá 1. mars 2016, er með nánari hætti fjallað um það hvernig reikna skuli út veginn fjármagnskostnað sem vísað er til í raforkulögum. Jafnframt segir í reglugerðinni að Orkustofnun, nú Umhverfis- og orkustofnun, geti að fengnu áliti sérfróðra aðila og að höfðu samráði við hagsmunaaðila, sbr. 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 17. gr. raforkulaga, lagt fram tillögu til ráðherra um endurskoðun fastra matsbreytna samkvæmt reglugerðinni ef stofnunin telur tilefni til þess, svosem. vegna sérstakra aðstæðna á markaði.  Sérfróðir aðilar skv. 1. mgr. eru tilnefndir af Umhverfis- og orkustofnun og skulu þeir hafa sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og fjármagnskostnaðar. Við mat hinna sérfróðu aðila ber þeim að hafa samráð við framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet.  
11. desember 2025
Auglýsing: Styrkir til nýsköpunarlausna frá iðnaði sem fellur undir ETS kerfið
Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til nýsköpunar og tækniþróunar sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið. Í heild eru 400 milljónir króna til úthlutunar  en styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að 200 milljónum króna að hámarki til allt að þriggja ára. Umsóknarfrestur er til 5. febrúar 2026 kl. 15:00. Sótt er um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís. Sækja um styrk Styrkhæfi verkefna og áherslur Styrkhæfar eru umsóknir um þróun á hvers kyns tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS-kerfið. Áhersla verður lögð á verkefni sem skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Einnig verður litið til eftirfarandi þátta: að verkefnið hagnýti grunnþekkingu sem þegar er til staðar, að verkefnið beinist að aðilum sem hafa talsverða möguleika á að draga úr losun, að verkefnið hafi möguleika á að nýtast sem víðast í samfélaginu og hafi áhrif út fyrir einstaka fyrirtæki, félagasamtök og/eða stofnun. Krafa er gerð um tvo samstarfsaðila að lágmarki og skal að minnsta kosti eitt þeirra vera fyrirtæki. Horft verður til þess að forgangsraða verkefnum sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) á hverja styrkkrónu. Fyrirspurnir Almennum spurningum varðandi kallið og umsóknir sem eru í matsferli skal beint til losjodur@rannis.is.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800