Vinsamlegast athugaðu að vefurinn er í vinnslu. Ef þú sérð eitthvað sem mætti betur fara, þá máttu láta okkur vita.

Jarðhiti jafnar leikinn - Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 1 milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Á hverju ári ver ríkissjóður rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á svæðum sem nýta rafmagn eða olíu til húshitunar. Tæplega 10% heimila landsins eru á þessum svæðum.

Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið orkuöryggi og bætta orkunýtni hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa 1.000 m. kr í sérstakt jarðhitaleitarátak árin 2025-2028, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með átakinu.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Skilyrði

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.

Sækja um

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Áherslur

Styrkir eru veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila, til rannsóknar á möguleikum til virkjunar og nýtingu jarðvarma.  Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki Loftslags-og orkusjóðs, en einnig skal litið til eftirfarandi:

  • Hvort verkefnið snúi að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  • Hvort fyrri jarðhitarannsóknir á svæðinu sem um ræðir styðji við verkefnið.
  • Hvort verkefnið sé á svæði þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  • Hvort um sé að ræða fjölda væntanlegra notenda og sparnað í niðurgreiðslu rafmagnskostnaðar til húshitunar.
  • Hvort verkefni auki skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggi áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   
  • Hvort verkefnið dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. notkun olíu sem varaafls til húshitunar verði hætt eða hún minnkuð.   
  • Hagvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga.
  • Gæði þeirra áætlana og gagna sem send eru með umsókn, sem og stöðu undirbúnings verkefnis.

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Fylgigögn

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:  

  • Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  • Nafn, kennitala, netfang og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga Loftslags-og orkusjóðs.
  • Lýsing á þekkingu á jarðhita viðkomandi svæðis, með tilvísun í fyrri rannsóknir eftir því sem við á. 
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
  • Lýsing á hagkvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga. 

Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir og fleira

Eftirfarandi skulu vera hámarks styrkhlutföll og styrkfjárhæðir í úthlutunum fyrir styrki vegna jarðhitaleitar:

  • Styrkhlutfall skal vera 2/3 af heildarkostnaði verkefnisins.

Skipting greiðslna til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  • Fyrsta greiðsla við upphaf framkvæmda, 30% af styrkupphæð.
  • Framvindugreiðsla, 30%, greiðist samkvæmt framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
  • Lokagreiðsla, 40% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði. Í þessu felst m.a. að afrit allra gagna hafi borist sjóðnum, þ.á.m. yfirlit yfir kostnað, reikningar, borskýrslur, uppdrættir, skýrslur og greinargerð o.þ.h.

Sé ósamræmi á milli ofangreinds og reglugerðar 1566/2024 skal það gilda sem kemur fram í reglugerð.

Image

Tengt efni

Fleiri fréttir

Skoða
30. júní 2025
Safír fyrstir á Íslandi til að hljóta Svansvottun samkvæmt nýjum nýbyggingarviðmiðum
Byggingaverktakinn Safír hefur stigið stórt skref í átt að sjálfbærari framtíð með aðgerðum sem stuðla að vistvænni byggingariðnaði. Um er að ræða Orkureit A sem er stærsta verkefnið hingað til sem hlýtur Svansvottun í einu lagi – og jafnframt fyrsta verkefnið á Íslandi sem hlýtur vottun samkvæmt nýjustu útgáfu Svansins fyrir nýbyggingar, útgáfu 4. Saman eru þetta fjórir reitir og yfir 400 íbúðir sem verða byggðar en nú eru íbúðir komnar í sölu fyrir A og D reit. Tímamótaverkefni Svansvottunin byggir á heildrænni nálgun á umhverfisáhrifum bygginga og tekur meðal annars til efnisvals, orkunýtni, innivistar, hringrásarhagkerfisins og fleiru. „Viðmið Svansins eru hert reglulega til að samræmast þeirri tækni og þróun sem byggist upp á markaðnum hvað varðar umhverfismál. Í þessari nýjustu útgáfu nýbyggingarviðmiðanna voru kröfurnar hertar töluvert ásamt því að nýjar kröfur bættust við. Það er því virkilega mikill sigur að vera fyrst á landinu til að hljóta Svansleyfi samkvæmt þessum nýju viðmiðum“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins. Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri Safír segir „það hafa verið mikilvægt fyrir Safír að byggja íbúðir sem standast háar kröfur um innivist ásamt því að vera leiðandi í umhverfismálum sem verða sífellt meira áberandi í byggingarframvkæmdum.“ Það er mikilvægt að fyrirtæki eins og Safír axli ábyrgð og sýni frumkvæði og leggi sitt af mörkum til að takmarka umhverfisáhrif bygginga og leiða þróunina áfram. Svanurinn kemur til móts við BREEAM Ánægjulegt er að sjá hvernig umhverfisvottanir geta unnið saman en deiliskipulag Orkureitsins hefur verið vottað samkvæmt BREEAM communities og er fyrsta verkefnið hér á landi til að hljóta einkunnina excellent.  Vottunin gerir kröfur um að reiturinn uppfylli ákveðin skilyrði sem samsvara að einhverju leyti því sem Svansvottunin leggur upp með. Þess vegna hafa frá upphafi verið settar metnaðarfullar kröfur fyrir reitinn, meðal annars um betri orkunýtni bygginga, notkun blágrænna ofanvatnslausna og vistvænt efnisval. Safír hefur tekið þessum kröfum fagnandi og gengið lengra. Fyrirtækið hefur til að mynda þegar valið álklæðningar með háu endurvinnsluhlutfalli, endurnotað timbur sem var á lóðinni fyrir og sýnt vilja til að vinna markvisst með umhverfismál á hönnunar- og framkvæmdastigum. Slíkar ákvarðanir undirstrika mikilvægi þess að byggingarverktakar taki virkan þátt í vistvænna efnisvali og sjálfbærri þróun. Frumkvæði Safírs í þessu verkefni sýnir að metnaður og ábyrgð geta skilað raunverulegum árangri – bæði fyrir umhverfið og framtíð mannvirkjageirans.
Safír
Hringrásarhagkerfi
Svansmerkið
30. júní 2025
Umsóknir í Loftslags- og orkusjóð 2025: Sjöföld eftirspurn eftir almennum styrkjum
Mikill áhugi er á úthlutunum úr Loftslags- og orkusjóði í ár. Alls bárust 292 umsóknir frá 188 lögaðilum. Sótt var um 8,9 milljarða króna í heildina sem er um sjöföld eftirspurn eftir því fjármagni sem auglýst var til úthlutunar. Áætluð heildarfjárfesting vegna þessara verkefna eru 49 milljarða króna. Auglýst var eftir verkefnum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á beina ábyrgð Íslands eða fela í sér nýsköpun og innleiðingu á nýrri tækni á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Í ár er lögð áhersla á verkefni sem þurfa á fjárhagslegum stuðningi sjóðsins að halda til að raungerast. Verkefnin eru afar fjölbreytt og snerta á ýmsum þáttum orkuskipta, hringrásarhagkerfis og nýsköpunar. Fjöldi umsókna eftir flokkum var eftirfarandi: Hringrásarhagkerfið: 51 Innleiðing nýrrar tækni eða nýsköpun: 69 Orkuskipti í rekstri eða orkusparnaður: 98 Orkuskipti í samgöngum: 74 Auglýst var eftir umsóknum um almenna styrki þann 23. apríl 2025 og rann umsóknarfrestur út þann 1. júní. Farið verður yfir allar umsóknir á næstu vikum og gera má ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar liggi fyrir í haust. Styrkumsóknir verða afgreiddar samkvæmt áherslum í auglýsingu og reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð.
Loftslags- og orkusjóður
25. júní 2025
Stjórnvaldssekt lögð á Bláfugl ehf.
Umhverfis- og orkustofnun hefur lagt stjórnvaldssekt á flugfélagið Bláfugl ehf. að upphæð 125.623.520 króna vegna vanrækslu flugrekandans á að standa skil á nægjanlegum fjölda losunarheimilda vegna losunar á árinu 2023. Fjárhæð stjórnvaldssektarinnar er lögbundin og samsvarar 100 evrum í íslenskum krónum vegna hverrar losunarheimildar sem ekki er staðið skil á, en eitt tonn af CO₂ jafngildir einni losunarheimild. Álagning sektarinnar hefur ekki áhrif á skyldur flugrekandans til að standa skil á losunarheimildum sem að uppá vantaði vegna losunar á árinu 2023. Um ákvörðunina Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, flugi og skipaflutningum. Síðasti dagur til að gera upp losunarheimildir fyrir losun sem átti sér stað á árinu 2023 var 30. september 2024. Á þeim tímapunkti hafði flugrekandinn ekki staðið skil á nægjanlegum fjölda losunarheimilda miðað við losun á árinu 2023. Upp á vantaði 8.336 losunarheimildir. Stjórnvaldssektin var lögð á í samræmi við 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.   Bláfugl ehf. hefur rétt á að skjóta ákvörðuninni til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku hennar.
Bláfugl ehf.
Losunarheimildir
20. júní 2025
Pólland og Ísland efla samstarf um jarðhita með Geothermal Synergy verkefninu
Samstarf Íslands og Póllands um jarðhita hefur styrkst með Geothermal Synergy verkefninu sem lauk nýverið. Markmið verkefnisins var að stuðla að þekkingarmiðlun, stefnumótun og aukinni getu Póllands á sviði jarðhita, með þátttöku stjórnvalda, stofnana og sérfræðinga beggja landa. „Þökk sé þessu samstarfi hefur Póllandi tekist að auka þjálfun sérfræðinga og auka hæfni á sviði jarðhitanýtingar - sérstaklega meðal sveitarstjórna - og hvetja til aukinna fjárfestinga í þessum endurnýjanlega orkugjafa,“ sagði Krzysztof Galos, aðstoðarráðherra loftslags- og umhverfismála Póllands. Meðal hápunkta verkefnisins voru kynningarfundur og vefnámskeið, ráðstefna í Rúmeníu, lokaráðstefna og námsferð pólskrar sendinefndar til Íslands í febrúar 2025. Þar tóku þátt fulltrúar frá loftslags- og umhverfisráðuneyti Póllands, MEERI PAS og sveitarfélagasamtökum. Meginmarkmið ferðarinnar var að skoða hvernig Ísland hefur nýtt jarðvarma til að tryggja orkuöryggi og sjálfbærni og ræða möguleika Póllands á þátttöku í evrópska rannsóknarsamstarfinu GEOTHERMICA. Á dagskrá Íslandsheimsóknarinnar voru fundir með utanríkisráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og Umhverfis- og orkustofnun, þar sem alls staðar var beint sjónum áframhaldandi samstarfi. Jóhannn Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Krzysztof Galos, aðstoðarumhverfis- og loftslagsráðherra Póllands. (Mynd: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti). Samvinna landanna á sviði jarðhita á sér langa sögu. Pólskir nemendur hafa stundað nám í jarðhitavísindum á Íslandi frá því á tíunda áratugnum og fjölmörg sameiginleg verkefni hafa verið unnin á síðustu árum, meðal annars í gegnum EES-styrkjaáætlunina. Ítarleg samantekt á Geothermal Synergy verkefninu og öðrum samstarfsverkefnum Póllands og Íslands á seinustu árum Hópurinn heimsótti meðal annars Carbfix og Jarðhitagarð ON á Hellisheiði.
Alþjóðlegt samstarf
Orkuskipti og orkunýtni

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, 603 Akureyri

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík