Vinsamlegast athugaðu að vefurinn er í vinnslu. Ef þú sérð eitthvað sem mætti betur fara, þá máttu láta okkur vita.

Jarðhiti jafnar leikinn - Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 1 milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Á hverju ári ver ríkissjóður rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á svæðum sem nýta rafmagn eða olíu til húshitunar. Tæplega 10% heimila landsins eru á þessum svæðum.

Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið orkuöryggi og bætta orkunýtni hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa 1.000 m. kr í sérstakt jarðhitaleitarátak árin 2025-2028, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með átakinu.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Skilyrði

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.

Sækja um

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Áherslur

Styrkir eru veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila, til rannsóknar á möguleikum til virkjunar og nýtingu jarðvarma.  Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki Loftslags-og orkusjóðs, en einnig skal litið til eftirfarandi:

  • Hvort verkefnið snúi að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  • Hvort fyrri jarðhitarannsóknir á svæðinu sem um ræðir styðji við verkefnið.
  • Hvort verkefnið sé á svæði þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  • Hvort um sé að ræða fjölda væntanlegra notenda og sparnað í niðurgreiðslu rafmagnskostnaðar til húshitunar.
  • Hvort verkefni auki skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggi áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   
  • Hvort verkefnið dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. notkun olíu sem varaafls til húshitunar verði hætt eða hún minnkuð.   
  • Hagvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga.
  • Gæði þeirra áætlana og gagna sem send eru með umsókn, sem og stöðu undirbúnings verkefnis.

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Fylgigögn

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:  

  • Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  • Nafn, kennitala, netfang og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga Loftslags-og orkusjóðs.
  • Lýsing á þekkingu á jarðhita viðkomandi svæðis, með tilvísun í fyrri rannsóknir eftir því sem við á. 
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
  • Lýsing á hagkvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga. 

Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir og fleira

Eftirfarandi skulu vera hámarks styrkhlutföll og styrkfjárhæðir í úthlutunum fyrir styrki vegna jarðhitaleitar:

  • Styrkhlutfall skal vera 2/3 af heildarkostnaði verkefnisins.

Skipting greiðslna til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  • Fyrsta greiðsla við upphaf framkvæmda, 30% af styrkupphæð.
  • Framvindugreiðsla, 30%, greiðist samkvæmt framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
  • Lokagreiðsla, 40% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði. Í þessu felst m.a. að afrit allra gagna hafi borist sjóðnum, þ.á.m. yfirlit yfir kostnað, reikningar, borskýrslur, uppdrættir, skýrslur og greinargerð o.þ.h.

Sé ósamræmi á milli ofangreinds og reglugerðar 1566/2024 skal það gilda sem kemur fram í reglugerð.

Image

Tengt efni

Fleiri fréttir

Skoða
8. júlí 2025
Nýjungar á vefnum
Í upphafi árs tók Umhverfis- og orkustofnun við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Samhliða því var nýr vefur, uos.is, settur í loftið til að halda utan um sameiginleg málefni stofnunarinnar. Við höfum nú stigið næsta skref í vefþróuninni með uppfærðum og endurbættum vef sem býður upp á ýmsar gagnlegar nýjungar, auk þess sem hann hefur fengið ferskt útlit og nútímalegri ásýnd. Vinnan fór fram í samstarfi við vefstofuna Visku. Meðal helstu nýjunga: Yfirlit efnis tengt stofnuninni – þú getur nálgast allt okkar efni á einum stað, jafnvel þótt megnið af því sé vistað enn um sinn á vefum forvera okkar. Heildstæð leit – þú getur leitað í fréttum, opinberum birtingum og öðru efni á vefnum, auk þess sem við vísum í efni af öðrum vefum stofnunarinnar. Samskiptaform – ef þú átt erindi við stofnunina hvetjum við þig til að nota þar til gert form á vefnum, sem hjálpar þér við að koma erindinu í réttar hendur. Viðburðayfirlit – allar helstu upplýsingar um viðburði á vegum stofnunarinnar má nú finna á einum stað. Staða loftgæða – loftgæði í Reykjavík og á Akureyri eru sýnileg á forsíðu vefsins auk vísunar í mælistöðvar um land allt. Vefurinn er annars í stöðugri þróun og við tökum fagnandi ábendingum um það sem mætti bæta. Efni á vefum forvera okkar verður svo fasað út á næstu mánuðum og fær þá nýtt heimili á vef stofnunarinnar.
Um stofnunina
8. júlí 2025
Styrkir til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum
Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til kaupa á hreinorku vöru- og hópbifreiðum: Hreinorku vörubifreiðar (N2 eða N3) Hreinorku hópbifreið (M2 eða M3)
4. júlí 2025
Skert þjónusta 21. júlí - 1. ágúst
Á tímabilinu 21. júlí - 1. ágúst 2025 verður lágmarksþjónusta við afgreiðslu erinda hjá Umhverfis- og orkustofnun. Við hvetjum þau sem þurfa að setja erindi í farveg að gera það fyrir eða eftir þetta tímabil.
Um stofnunina
2. júlí 2025
Raforkueftirlitið birtir uppgjör tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024
Raforkueftirlitið hefur lokið uppgjöri tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024. Tekjumörk setja sérleyfisfyrirtækjum í flutningi og dreifingu raforku mörk varðandi leyfðar tekjur og útgjöld. Tekjuheimildir Landsnets voru vanteknar um 44.424 þús.kr. fyrir almenna notendur og ofteknar um 858.645 þús.kr. fyrir stórnotendur. Við árslok 2024 voru uppsafnaðar vanteknar tekjur Landsnets: -8,3% af tekjumörkum fyrir almenna notendur (634.195 þús.kr.) -8,5% af tekjumörkum fyrir stórnotendur (1.046.331 þús.kr.) Fyrir almenna notendur getur þetta leitt til hækkunar á flutningsgjaldi í framtíðinni í þeim tilgangi að bæta upp fyrir vanteknar tekjur. Fyrir stórnotendur er aftur á móti líklegt að flutningsgjöld lækki til þess að leiðrétta ofteknar tekjur. Markmið að tryggja skilvirkni Markmiðið með setningu viðmiðunarútgjalda er að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri sérleyfisfyrirtækjanna. Á hverju ári fer svo fram uppgjör fyrir nýliðið ár þar sem bókhald sérleyfisfyrirtækja er borið saman við sett tekjumörk. Bókhald vegna tekjumarka fylgir raforkulögum en er þó að miklu leyti hliðstætt ársreikningum sérleyfisfyrirtækjanna. Setning tekjumarka 2021-2025 Tekjumörk miðast nú við setningu tekjumarka 2021-2025 sem eru meðaltal útgjalda á tímabilinu 2015-2019, uppfærð með vísitölu neysluverðs og launavísitölu ásamt afskriftum og leyfðri arðsemi af fastafjármunum og veltufjármunum. Gjaldskrár raforkuflutnings, sem notendur greiða, taka annars vegar mið af tekjumörkum og hins vegar kerfisþjónustu og flutningstöpum. Ný setning tekjumarka fyrir flutningsfyrirtækið tekur gildi 15. september 2025 og mun byggja á meðaltal útgjalda flutningsfyrirtækisins á tímabilinu 2020-2024. Greining á skilvirkni í vinnslu Raforkueftirlitið vinnur að greiningu á skilvirkni flutningsfyrirtækisins. Niðurstaða þess verður grundvöllur að ákvörðun að mögulegri hagræðingarkröfu sem yrði síðar innleidd í setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins.  
Raforkueftirlitið

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, 603 Akureyri

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík