Auglýsing: Styrkir til nýsköpunar í jarðvarmanýtingu

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 600 milljónir króna í styrki til nýsköpunar í jarðvarmanýtingu.
Jarðhiti er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga. Yfir 90% af húshitun hér á landi byggir á jarðvarma og um 30% raforkuframleiðslu.
Brýnt er að viðhalda og styrkja enn frekar samkeppnishæfni Íslands á sviði jarðhitanýtingar og ýta undir nýsköpun og tækniþróun á þessu sviði. Í samræmi við þetta hefur umhverfis-, orku og loftslagsráðherra ákveðið að fela Loftslags- og orkusjóði að styrkja nýsköpun á sviði jarðvarmanýtingar um allt að 600 milljónir króna.
Styrkhæfi verkefna og áherslur
Styrkir verða veittir til orkufyrirtækja og annarra fyrirtækja sem nýta jarðvarmaauðlindina. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla undir eftirfarandi áherslur:
A. Ný tækni til raforkuframleiðslu úr jarðvarma
Verkefni á sviði djúpborunar, endurbætt jarðhitakerfi (e. Enhanced Geothermal Systems), raforkuframleiðslu úr lágvarma, nýrrar bortækni og fleira.
B. Fjölnýting jarðhita
Verkefni sem auka verðmætasköpun með beinni eða óbeinni fjölnýtingu jarðhita, til dæmis með nýjum framleiðsluferlum eða notkunarformum, sérstaklega þar sem loftslagsáhrif eru jákvæð og verkefni hafa ekki áður notið stuðnings úr öðrum opinberum sjóðum.
C. Nýting jarðhita til húshitunar
Nýjar aðferðir við nýtingu jarðhita, meðal annars með varmadælum, aukinni nýtni eða hagkvæmni, og uppbyggingu sem dregur úr rafhitunarkostnaði og styður við fjölgun notenda. Almennar boranir eða hefðbundin uppbygging dreifikerfa teljast ekki styrkhæfar.
Við mat á umsóknum skal meðal annars horft til þjóðhagslegrar hagkvæmni, byggðasjónarmiða og áhrifa á nærsvæði, auk gæða gagna og undirbúnings.
Styrkhlutfall, styrkfjárhæðir og fleira
Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að þriðjungi af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Umsækjendur skulu leggja fram mótframlag sem nemur að minnsta kosti tveimur þriðju hluta kostnaðar. Skipting greiðslna skal vera eftirfarandi:
- Framvindugreiðsla (75%) greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna.
- Lokagreiðsla (25%) er greidd þegar lokaskýrsla hefur verið samþykkt.
Umsóknir
Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, þátttakendur og samstarfsaðila.
- Nafn, kennitala, netfang og símanúmer tengiliðar við sjóðinn.
- Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og áherslum Loftslags- og orkusjóðs.
- Lýsing á þekkingu á jarðhita viðkomandi svæðis, með tilvísun í fyrri rannsóknir eftir því sem við á.
- Tíma- og verkáætlun.
- Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
- Lýsing á hagkvæmni verkefnis, að teknu tilliti til síðari áfanga.
Umsóknarfrestur er til 20. desember 2025.
Sótt er um á www.orkusjodur.is










