Sjá nýjan vef Orkuspár Íslands

Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Auglýsing: Styrkir til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum

Gróðurhús á Íslandi

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 160 milljónir króna í styrki til orkusparnaðar í garðyrkju.

Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um aukna orkunýtni og markvissari stuðning við bændur hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa 160 m.kr. í sérstakan fjárfestingarstuðning við garðyrkjubændur í ylrækt. Stutt er við innleiðingu á LED-ljósum í gróðurhúsum og öðrum orkusparandi búnaði. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með átakinu.

Með því að skipta úr hefðbundnum háþrýstilömpum (HPS) yfir í LED-lýsingu má draga úr raforkunotkun í garðyrkju um 40–60%. Slík fjárfesting skilar sér í lægri orkureikningum fyrir bændur, sparnaði í niðurgreiðslum fyrir ríkissjóð og raforkusparnaði fyrir samfélagið allt.

Aðgerðin tekur mið af sambærilegum stuðningi í Hollandi þar sem stjórnvöld hafa sett sér það markmið að gera gróðurhúsarækt kolefnishlutlausa fyrir árið 2040.

Um veitingu styrkja fer samkvæmt reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024.

Styrkhæfi verkefna og áherslur

Styrkir verða veittir til framleiðenda garðyrkjuafurða. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins, og horft verður til eftirfarandi forgangsröðunar við úthlutun:

  • Verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu.
  • Verkefni sem auka rekstrarhagkvæmni í rekstri gróðurhúss.
  • Lausnir sem auka tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar.
  • Verkefni sem nýtast sem fyrirmynd fyrir aðra í greininni.
  • Hvort verkefni hafi áður hlotið stuðning frá Loftslags- og orkusjóði.

Styrkhlutfall og styrkfjárhæðir

Hámarks styrkhlutfall og styrkfjárhæð í úthlutunum fyrir styrki vegna framleiðenda garðyrkjuafurða skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án vsk.) og að hámarki 15 m.kr. fyrir hvern framleiðenda garðyrkjuafurða.

Skipting greiðsla til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  • Framvindugreiðsla, 70%, greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
  • Lokagreiðsla, 30% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði.

Fylgigögn

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:

  • Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  • Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga, þ. á m. 30. gr. reglugerðar nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð.
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 6. júní 2025.

Sótt er um á www.orkusjodur.is

Image

Fleiri fréttir

Skoða
1. desember 2025
Orkuspá Íslands 2025 - 2050: Mikil óvissa framundan og þörf á skýrri stefnumörkun 
Ný orkuspá fyrir Ísland, unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofun, og Raforkueftirlitinu, sýnir að fram undan eru umtalsverðar áskoranir og mikil óvissa í þróun raforkumála. Orkuspáin var kynnt í Hörpu þann 1. desember. Spáin gerir ráð fyrir hægari aukningu í raforkunotkun en áður var talið. Ástæður eru meðal annars seinkanir í virkjunarframkvæmdum, óvissa um uppbyggingu vindorku, og samdráttur í eftirspurn stórnotenda, einkum í kísilmálm- og gagnaversiðnaði.  Aukning í framboði raforku verður því hægari en áður var spáð. Þá hafa bilanir, tollar og breytt alþjóðlegt efnahagsumhverfi áhrif á markaðinn. Hægari uppbygging nýrra viðskiptavina eykur enn á óvissuna.  Þrátt fyrir þetta má sjá jákvæða þróun í orkuskiptum innanlands, þar sem þau hafa þegar skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda auk þess sem vaxtatækifæri eru til staðar hjá gagnaverum og nýr iðnaður er að vaxa. Hins vegar er ljóst að markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2030 munu ekki nást án frekari aðgerða og skýrari stefnumörkunar.  Orkuspánni er ætlað að varpa ljósi á stöðu og þróun orkumála á Íslandi og skapa um leið umræðu um orkumál.   „Þessi spá sýnir meiri óvissu en oft áður, en um leið ýmis tækifæri til að lágmarka hana og mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið um orkuskipti og hagvöxt. Það er ljóst að öflugt flutningskerfi raforku mun leika lykilhlutverk í því að ná þessum markmiðum,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.    Mynd: Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar. „Orkuspá Íslands er ekki pólitísk yfirlýsing, hún er verkfæri. Hún er landakort sem gefur okkur innsýn inn í hvað er framundan. Og eins og allir vita að þá eru góð landakort verkfæri sem gera okkur kleift að ná áfangastað á öruggan hátt,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis og orkustofnunar.  Um er að ræða bæði grunn- og háspá, sem skiptist í raforku-, orkuskipta- og jarðvarmaspá. Hægt er að nálgast helstu niðurstöður á vefnum orkuspaislands.is, sem Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagmála opnaði á kynningarfundinum. Mynd: Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gerð orkuspár Íslands er afrakstur náinnar samvinnu Landsnets, Umhverfis- og orkustofnunar og Raforkueftirlitsins. Þetta samstarf tryggir að spáin byggi á traustum grunni, sameiginlegri þekkingu og heildstæðu yfirliti yfir þróun orkumála í landinu. Slík samvinna er lykilforsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um orkuskipti, uppbyggingu innviða og framtíðarhagvöxt.   
27. nóvember 2025
Viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans 2025
Í tilefni Loftslagsdagsins þann 1. október 2025, veitti Umhverfis- og orkustofnun í annað sinn viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans. Fyrsta viðurkenningaútgáfan fór fram árið 2024 og markaði upphaf hvatakerfis sem ætlað er að styðja við aðgerðina Full orkuskipti ríkisflota og samgönguþjónustu fyrir 2030. Markmiðið er skýrt, að allar fólks- og sendibifreiðar í eigu og notkun ríkisins verði alfarið knúnar endurnýjanlegri, íslenskri orku í lok árs 2029. Rafknúnar samgöngur hafa í dag reynst hagkvæmar, áreiðanlegar og vel til þess fallnar að sinna fjölbreyttum verkefnum ríkisstofnana. Aðgerðin og hvatakerfið Aðgerðin var unnin í samstarfi við Bílgreinasambandið, sem hefur staðfest að tæknilegir annmarkar standi ekki í vegi fyrir orkuskiptum í flokki fólks- og sendibíla á næstu árum. Nýjar gerðir rafbíla munu áfram styrkja innleiðinguna fram til ársins 2030. Til að hvetja til framfara fylgist Umhverfis- og orkustofnun með hlutfalli hreinorkubíla í flotum stofnana út frá gögnum Samgöngustofu. Fyrir hvert árangursþrep fá stofnanir viðurkenningar á veggspjaldi með skafmiðum: brons (30%), silfur (60%), gull (90%) og platína (100%). Vinna er hafin við endurbætur á Grænu skrefunum og er stefnt að því að hvatakerfi orkuskiptanna færist inn í þann ramma þegar endurbótum lýkur. Vörðum fyrir árangur í orkuskiptum er skipt niður í 4 þrep, 30, 60, 90 og 100% árangur. Bronsviðurkenningar 2025 Á Loftslagsdeginum fengu eftirfarandi stofnanir bronsdekk, sem samsvarar því að a.m.k. 30% bílaflotans sé knúinn endurnýjanlegri orku: Lögreglustjórinn á Suðurnesjum Seðlabanki Íslands Þjóðminjasafn Íslands Lögreglustjórinn á Vestfjörðum Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra Náttúruverndastofnun Íslands Viðurkenning fyrir bronsdekkið komin í hendurnar á Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þetta er annað árið í röð sem stofnanir fá viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum og sýnir áframhaldandi skuldbindingu ríkisins við sjálfbærar samgöngur. Stofnanir sem starfa við fjölbreytt og oft krefjandi verkefni hafa þannig náð markverðum árangri í átt að kolefnishlutlausum rekstri. Þau Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður og Guðmundur Lúðvík Gunnarsson framkvæmdastjórni fjármálasviðs safnsins, veittu bronsdekkinu viðtöku með bros á vör. Stoltur lögreglumaður á Ísafirði tekur við bronsdekkinu fyrir hönd embættis Lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800