Merki Umhverfis- og orkustofnunar

Styrkir til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum

Gróðurhús á Íslandi

Loftslags- og orkusjóður auglýsir 160 milljónir króna í styrki til orkusparnaðar í garðyrkju.

Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um aukna orkunýtni og markvissari stuðning við bændur hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa 160 m.kr. í sérstakan fjárfestingarstuðning við garðyrkjubændur í ylrækt. Stutt er við innleiðingu á LED-ljósum í gróðurhúsum og öðrum orkusparandi búnaði. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með átakinu.

Með því að skipta úr hefðbundnum háþrýstilömpum (HPS) yfir í LED-lýsingu má draga úr raforkunotkun í garðyrkju um 40–60%. Slík fjárfesting skilar sér í lægri orkureikningum fyrir bændur, sparnaði í niðurgreiðslum fyrir ríkissjóð og raforkusparnaði fyrir samfélagið allt.

Aðgerðin tekur mið af sambærilegum stuðningi í Hollandi þar sem stjórnvöld hafa sett sér það markmið að gera gróðurhúsarækt kolefnishlutlausa fyrir árið 2040.

Um veitingu styrkja fer samkvæmt reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024.

Styrkhæfi verkefna og áherslur

Styrkir verða veittir til framleiðenda garðyrkjuafurða. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins, og horft verður til eftirfarandi forgangsröðunar við úthlutun:

  • Verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu.
  • Verkefni sem auka rekstrarhagkvæmni í rekstri gróðurhúss.
  • Lausnir sem auka tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar.
  • Verkefni sem nýtast sem fyrirmynd fyrir aðra í greininni.
  • Hvort verkefni hafi áður hlotið stuðning frá Loftslags- og orkusjóði.

Styrkhlutfall og styrkfjárhæðir

Hámarks styrkhlutfall og styrkfjárhæð í úthlutunum fyrir styrki vegna framleiðenda garðyrkjuafurða skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án vsk.) og að hámarki 15 m.kr. fyrir hvern framleiðenda garðyrkjuafurða.

Skipting greiðsla til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  • Framvindugreiðsla, 70%, greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
  • Lokagreiðsla, 30% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði.

Fylgigögn

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:

  • Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
  • Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga, þ. á m. 30. gr. reglugerðar nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð.
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 6. júní 2025.

Sótt er um á www.orkusjodur.is

Image

Fleiri fréttir

Skoða
3. nóvember 2025
Mikil loftgæði árið 2024 - Ný ársskýrsla loftgæða komin út
Styrkur svifryks (PM₁₀ og PM₂,₅), köfnunarefnisdíoxíðs (NO₂), brennisteinsdíoxíðs (SO₂) og brennisteinsvetnis (H₂S) í andrúmslofti var undir heilsuverndarmörkum í langflestum tilvikum árið 2024. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Umhverfis- og orkustofnunar um loftgæði árið 2024. Einnig er hægt að skoða samantekt úr ársskýrslunni. Í Höfnum á Reykjanesi fór sólarhringsmeðaltalsstyrkur brennisteinsdíoxíðs 5 sinnum yfir mörk og klukkustundarmeðaltalsstyrkur 29 sinnum. Ástæðan er fjöldi eldgosa á Reykjanesi árið 2024. Aðrir mælistaðir á Reykjanesi fóru ekki yfir mörk. Í Hveragerði fór ársmeðaltalsstyrkur brennisteinsvetnis lítillega yfir mörk. Uppruni brennisteinsvetnis í Hveragerði eru jarðvarmavirkjanir í nágrenninu. Mengun af völdum brennisteinsvetnis hefur tærandi áhrif á rafbúnað en langvarandi áhrif hennar á heilsufar fólks hafa lítið verið rannsökuð. Utan þess voru mikil loftgæði á Íslandi árið 2024. Almennt séð eru loftgæði á Íslandi meðal þeirra mestu í Evrópu. Í heildina hafa loftgæði á Íslandi batnað með árunum, eða í það minnsta haldist tiltölulega óbreytt á langflestum stöðum. Í ársskýrslunni er hægt að skoða allar mælingar loftmengunarefna frá upphafi á Íslandi. Þar eru loftgæðamælingar settar í samhengi við gildandi reglugerðir og gögn sett fram í formi mynda og taflna. Ársskýrslan 2024 er áttunda samantekt sinnar tegundar á Íslandi. Henni fylgir einnig fylgiritið: Loftgæði á Íslandi – Umhverfisvísar, vöktun og uppsprettur.
24. október 2025
Uppgjör og úthlutun losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir
Þann 30. september síðastliðinn rann út frestur rekstraraðila, sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið), til að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2024, það er uppgjörsfrestur. Alls áttu 17 aðilar sem falla undir ETS-kerfið á Íslandi að skila af sér losunarheimildum vegna losunar ársins 2024: sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði, fimm flugrekendur og sex skipafélög. Allir aðilar skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda innan tímafrestsins nema einn.  Áður en uppgjörið fór fram, eða 26. júní, fór fram úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til þeirra rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og flugrekenda sem höfðu rétt á slíkri úthlutun.  Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði  Sex rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Eru þetta þrjú álver, eitt kísilver, eitt járnblendiver og eitt gagnaver. Alls skiluðu rekstraraðilarnir af sér 1.899.154 losunarheimildum, en losun frá staðbundnum iðnaði jókst um 4,2% á milli 2023 og 2024.  Alls fengu fimm rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað þann 26. júní síðastliðinn og var 1.460.661 losunarheimild úthlutað. Breytingar á heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda til einhverra rekstraraðila geta enn átt sér stað vegna breytinga á starfsemisstigi, það er framleiðslu, árið 2024. Þeir rekstraraðilar gætu því átt von á úthlutun fleiri heimilda eða þurft að skila af sér.   Flugrekendur  Fimm flugrekendur áttu að skila af sér losunarheimildum vegna losunar frá starfsemi þeirra árið 2024. Einn flugrekandi skilaði ekki af sér nægum fjölda losunarheimilda. Heildarlosun frá flugrekendum sem gera upp í ETS-kerfinu á Íslandi var 624.982 tonn CO₂, en flugrekendur skiluðu af sér alls 460.117 losunarheimildum. Losun frá flugrekendum jókst um 2,5% á milli 2023 og 2024.  Alls fengu þrír flugrekendur úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum þann 26. júní síðastliðinn og var 113.444 losunarheimildum úthlutað. Heimilt er að úthluta viðbótarheimildum endurgjaldslaust til flugrekenda sem fljúga til og frá Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en úthlutun á þeim heimildum hefur ekki átt sér stað.  Skipafélög  Í ár þurftu skipafélög í fyrsta skipti að skila af sér losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, en sjóflutningar féllu undir ETS-kerfið frá 1. janúar 2024. Skyldan til að skila af sér losunarheimildum er innleidd í þrepum, en skipafélög áttu að skila af sér losunarheimildum sem jafngiltu 40% af vottaðri losun þeirra árið 2024. Að auki þurfa skipafélög að skila af sér 5% færri losunarheimildum vegna skipa með ísflokk til ársins 2030. Heildarlosun innan ETS-kerfisins frá skipafélögum sem gera upp í því á Íslandi var 98.747 tonn CO₂, en skipafélögin höfðu skyldu til að skila af sér alls 37.989 losunarheimildum vegna þeirrar losunar. Öll skipafélög skiluðu af sér nægum fjölda losunarheimilda. 
23. október 2025
Gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsöluorkumarkaði - Verkefnaáætlun
Raforkueftirlitið hefur unnið verkáætlun fyrir gerð leiðbeininga um viðskipti á heildsölumarkaði í kjölfar þess að umhverfis-, orku og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuviðskipti). Tilgangur frumvarpsins Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um tilteknar hátternisreglur í raforkuviðskiptum til að stuðla að gagnsæi og heiðarleika á heildsöluorkumarkaði. Jafnframt er tilgangur frumvarpsins að setja lagaramma um starfsemi viðskiptavettvangi raforku, lýsa hlutverki þeirra og skyldum sem fara með slíka starfsemi og efla eftirlit Raforkueftirlitsins. Helstu breytingar Lagt er til að lögfesta ákvæði að fyrirmynd nokkurra gerða Evrópusambandsins á sviði raforkuviðskipta, aðlöguð að íslenskum heildsöluorkumarkaði. Ákvæði frumvarpsins um upplýsingaskyldu og bann við markaðssvikum á sér fyrirmynd í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1227/2011 um heildstæðan og gagnsæjan heildsöluorkumarkað (REMIT-reglugerðin). REMIT-reglugerðin er rammagerð sem síðan er útfærð nánar með framseldum gerðum. Þá hefur Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) það hlutverk að tryggja samræmda túlkun og framkvæmd ákvæða með ýmsum hætti, til dæmis útgáfu leiðbeinandi tilmæla og beitingu stjórnvaldssekta. Leiðbeinandi tilmæli veita nánari skýringar á ákvæðum laga og reglna, og eru til leiðbeininga um hvað telst til heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta. Tilmælin gefa aðilum fyrirsjáanleika um það hvernig eftirlitsyfirvöld túlka og beita ákvæðum laga og reglugerða. Í samræmi við uppbyggingu REMIT-reglugerðarinnar og afleiddra heimilda gerir meginefni frumvarpsins ráð fyrir að lögfesta tiltekin rammaákvæði að fyrirmynd REMIT-reglugerðarinnar í lög. Í 20. gr. j. er síðan lagt til að ráðuneytið sé heimilt að útfæra nánari framkvæmd í reglugerð, og að Raforkueftirlitið skuli birta leiðbeiningar um reglufylgni við framangreind rammaákvæði. Aðlögun að íslensku aðstæðum Á Íslandi hefur Raforkueftirlitið eftirlit með raforkuviðskiptum og getur gefið leiðbeinandi tilmæli þar um eða beitt stjórnvaldssektum. Sérstaða íslenska heildsöluorkumarkaðarins felst í einangruðu raforkukerfi þar sem 99.7% af framleiðslu á sér stað með endurnýjanlegri orku og stórri hlutdeild stórnotanda í samanburði við almenna notendur. Inntak leiðbeininga ACER um túlkun og beitingu REMIT-reglugerðarinnar lúta að öðrum aðstæðum en eru til staðar hér á landi, það er viðskipti yfir landamæri þar sem hærra hlutfall óendurnýjanlegrar orku hefur áhrif á verðmyndun. Leiðbeiningar ACER veita því íslenskum markaðsaðilum takmarkaðan fyrirsjáanleika. Því er nauðsynlegt að leiðbeinandi tilmæli um ákvæði í íslenskum lögum sem eiga fyrirmynd sína að sækja til REMIT-reglugerðarinnar, séu aðlöguð að sérstöðu íslenska heildsöluorkumarkaðarins. Leiðbeiningar Raforkueftirlitsins á grundvelli 20. gr. j. munu taka mið af framangreindu. Tækifæri til samráðs Raforkueftirlitið upplýsir hér með hagsmunaaðila um verkáætlun eftirlitsins og tækifæri til samráðs við gerð leiðbeininga á grundvelli 6. gr. frumvarpsins. Verkáætluninni hefur verið skipt upp í fjóra áfanga, skipt upp eftir efnistökum.
13. október 2025
Losunarheimildir flugrekenda í ETS kerfinu
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eða ETS kerfið (e. Emissions Trading System), byggir á því að tiltekin starfsemi á EES svæðinu þurfi losunarheimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstraraðilar sem falla undir kerfið þurfa árlega að afla sér losunarheimilda í samræmi við losun síðastliðins árs og standa skil á þeim í skráningarkerfi með losunarheimildir. Hluta af þessum heimildum fá aðilar innan vissra geira endurgjaldslaust. Skilafrestur til að standa skil á losunarheimildum er fyrir 30. september ár hvert vegan losunar ársins á undan. Ef rekstraraðili gerir ekki upp losunarheimildir innan frestsins ber Umhverfis- og orkustofnun að leggja á stjórnvaldssekt. Framkvæmd kerfisins á Íslandi Kerfið er innleitt með lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Umhverfis- og orkustofnun er lögbært stjórnvald ETS kerfisins á Íslandi og fer með framkvæmd laganna. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að: veita losunarleyfi. hafa umsjón með skráningarkerfi með losunarheimildir. beita þvingunarúrræðum þegar það á við. taka ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og aðlaganir á úthlutun. tryggja að aðilar innan kerfisins uppfylli kröfur um vöktun og skýrslugjöf. Flug í ETS kerfinu Flug hefur fallið undir ETS kerfið frá árinu 2012 og íslensk flugfélög hafa heyrt undir kerfið frá upphafi. ETS kerfið nær til flugs: á milli flugvalla innan EES. frá flugvöllum innan EES til flugvalla í Bretlandi og Sviss. Flugrekendur þurfa að standa skil á losunarheimildum vegna losunar á ofangreindum flugleiðum. Þegar losun er meiri en sem nemur úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda þurfa flugrekendur að kaupa heimildir á markaði. Endurgjaldslaus úthlutun losunarheimilda til flugrekenda í ETS hefur farið stigminnkandi árin 2024 og 2025 og mun slík úthlutun hætta frá og með árinu 2026. Á árunum 2024-2030 munu flugrekendur þó geta sótt um úthlutun sérstakra losunarheimilda sem byggja á hversu mikið af sjálfbæru flugeldsneyti þeir nota í flugferðum sem heyra undir ETS kerfið. Ef flugrekandi gerir ekki upp losunarheimildir á tilskyldum tímafresti ber Umhverfis- og orkustofnun, sem lögbæru stjórnvaldi, að leggja á stjórnvaldssekt. Viðbótarúthlutun eingöngu fyrir Ísland Íslandi er heimilt að úthluta flugrekendum auka endurgjaldslausum heimildum árin 2025 og 2026 fyrir flug til og frá Íslandi á flugleiðum sem falla undir ETS kerfið þrátt fyrir að útfösun endurgjaldslausra losunarheimilda í flugi sé lokið. Þetta er ekki viðbót við þær heimildir sem Ísland fær í sinn hlut heldur dragast viðbótarheimildir vegna flugs frá þeim losunarheimildum sem íslenska ríkið myndi annars bjóða upp á uppboði. Viðbótarúthlutunin er háð því að flugrekandi hafi skilað inn vottaðri kolefnishlutleysisáætlun. Ef flugrekandi fylgir ekki áætluninni skal Umhverfis- og orkustofnun gera kröfu um að losunarheimildunum sé skilað. Jafnræðisregla gildir milli flugfélaga á sömu leiðum. Þetta fyrirkomulag er tímabundið og ætlað að mæta sérstöðu Íslands sem landfræðilega afskekkt eyja. Mynd með frétt: CC BY 4.0 eftir 4300streetcar

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800