Styrkir til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum
Í ljósi góðs árangurs fyrri úthlutunar til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum hefur Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ákveðið að ráðstafa aukalega 100 milljónum króna í verkefnið. Um er að ræða framhald fyrri úthlutunar sem hvetur til fjárfestinga í orkusparandi tækni og búnaði í ylrækt. Loftslags- og orkusjóði hefur verið falið að hafa umsjón með úthlutun styrkjanna. Markmið styrkjanna er að draga úr orkunotkun í gróðurhúsum og bæta orkunýtni, meðal annars með innleiðingu á LED-ljósum og öðrum orkusparandi búnaði. Slíkar aðgerðir skila sér í lægri rekstrarkostnaði fyrir bændur og stuðla að minni orkuþörf samfélagsins í heild. Um veitingu styrkja fer samkvæmt reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð. Styrkhæfi verkefna og áherslur Styrkir verða veittir til framleiðenda garðyrkjuafurða. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins, og horft verður til eftirfarandi forgangsröðunar við úthlutun: Verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu. Verkefni sem auka rekstrarhagkvæmni í rekstri gróðurhúss. Lausnir sem auka tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar. Verkefni sem nýtast sem fyrirmynd fyrir aðra í greininni. Hvort verkefni hafi áður hlotið stuðning frá Loftslags- og orkusjóði. Styrkhlutfall og styrkfjárhæðir Hámarksstyrkhlutfall og styrkfjárhæð í úthlutunum fyrir styrki vegna framleiðenda garðyrkjuafurða skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án vsk.) og að hámarki 15 m.kr. fyrir hvern framleiðanda garðyrkjuafurða. Skipting greiðslna til styrkþega skal vera eftirfarandi: Framvindugreiðsla, 70%, greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna um framvindu verkefnis. Lokagreiðsla, 30% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði. Fylgigögn Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn: Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru. Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn. Lýsing á verkefninu og því hvernig það samræmist markmiðum og áherslum styrkveitinga, þar á meðal 30. gr. reglugerðar nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð. Tíma- og verkáætlun. Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun. Umsóknarfrestur Umsóknarfrestur er til 15. desember 2025. Sótt er um á www.orkusjodur.is